6.6.03

Tvöhundruð bifhjól í halarófu

UM tvöhundruð bifhjól óku í fylkingu frá Kópavogi austur fyrir fjall og enduðu á Selfossi sl. laugardag. Það var fyrirtækið Arctic Trucks sem stóð fyrir ferðinni og komu þátttakendur úr bifhjólafélögum á Suður- og Vesturlandi, en félögin Raftar í Borgarnesi, Sniglar í Reykjavík, Ernir úr Keflavík og Postular frá Selfossi tóku þátt í hópakstrinum. 

 „Að lokum voru þetta um tvöhundruð hjól. Við lögðum af stað klukkan ellefu frá okkur hér á Nýbýlavegi 2 og keyrðum á Þingvöll og grilluðum þar. Fórum síðan þaðan á Mótordaga á Selfossi,“ segir Loftur Ágústsson, framkvæmdastjóri Arctic Trucks og einn forsprakki ferðarinnar. Hann segir að halarófan hafi teygt sig mjög langt og að tugir kílómetra hafi verið á milli fyrsta og síðasta manns. „Það var alveg ótrúlega flott að sjá þetta. Við enduðum síðan á Selfossi og þaðan fór hver til síns heima,“ bætir hann við.
  Loftur segir að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hann tók þátt í svona hópakstri og segir hann það gaman að sjá hversu öflug menning fylgi akstrinum. Hann lýsir því að hugmyndin að ferðinni hafi kviknað í vor. „Ég hélt að þetta yrðu kannski 50–60 hjól. Ég held að þetta sé í fyrsta eða annað skiptið sem klúbbarnir keyra saman. Þetta hefur ekki oft gerst. En annars var þetta til þess að hafa gaman af,“ segir hann og er þess fullviss að ferðin verði að árlegum viðburði.
Morgunblaðið
25.6.2003