3.5.03

Með fjölmennustu aksturskeppnum


Ekki er úr vegi að rifja aðeins upp stutta sögu Enduro-keppni hér á íslandi en 1996 var haldin æfingarkeppni af Sniglunum í samvinnu við Litlu Kaffistofuna í Svínahrauni.

Leiðin sem ekin var í þeirri keppni var 34 km og voru keppendur ræstir með 1 mínútu millibili eins og í bílaralli. Það voru 26 keppendur sem hófu keppnina en 21 keppandi lauk henni. Sigurvegari var Viggó Viggóson á meðalhraða upp á 60 km á klukkustund. 1998 var svo byrjað að keppa til íslandsmeistara í Enduro og voru allar keppnirnar þrjár hringakeppnir. Fyrsti íslandsmeistarinn í Enduro var Viggó Viggósson á Yamaha WR400 hjóli, en hann hefur orðið tvisvar íslandsmeistari í Enduro. Einar Sigurðsson hefur hins vegar orðið þrisvar íslandsmeistari í Enduro.

Viggó með flesta sigra

Frá 1998 hafa keppnirnar til íslandsmeistara í Enduro verið 20 að tölu og hafa aðeins fjórir keppendur unnið keppni í Enduro. Flesta sigra hefur Viggó Viggósson, eða tíu alls, en næstflesta hefur núverandi íslandsmeistari, Einar Sigurðarson, eða átta talsins. Með eina keppni unna eru Þorvarður Björgúlfsson og Reynir Jónsson. Einar Sigurðarson er hins vegar eini keppandinn sem hefur lokið öllum 23 keppnum í Enduro sem hann hefur tekið þátt í síðan 1996. Einar hefur aldrei lent neðar en í þriðja sæti í þessum keppnum en hann og Viggó Viggósson eru þeir einu sem hafa tekið þátt í hverri Endurokeppni síðan 1996, en tvisvar hefur Viggó þurft að hætta keppni vegna vélarbilunar. Þrjár keppnir hafa verið fyrir utan íslandsmeistaramótið og voru það keppnir 1996 og 1997 sem voru æfingar- og undirbúningskeppnir fyrir íslandsmeistaramótaröðina sem hófst, eins og áður sagði, 1998. Sex klukkutíma keppnin á Klaustri er ekki í íslandsmeistaramótaröðinni þó hún sé fjölmennasta aksturskeppni á landinu enn sem komið er með skráða keppendur yfir 140.

Skipt í tvær deildir

Fjölmennasta Endurokeppni til Íslandsmeistara var árið 2001 í Þorlákshöfn og voru keppendur alls 91. í flestum Endurokeppnum eru keppendur á milli 80 og 90 og þar sem fjöldinn er svona mikill hefur keppnisstjórn Vélhjólaíþróttaklúbbsins orðið að skipta keppninni í meistaradeild, þar sem keppt er í tvisvar sinnum 90 minútur með klukkutíma hléi, en á meðan tekið er hlé á milli keppna er ekin B-deild sem heitir Baldursdeild eftir elsta meðlimi Vélhjólaíþróttaklúbbsins. B-deild keppir í sömu braut og meistaradeild en í aðeins 60 mínútur. Þar sem meistaradeildin ekur í 90 mínútur er það of langur tími til að bensíntankurinn dugi í alla keppnina og þurfa því flestir keppendurnir að stoppa í a.m.k. einu sinni til að taka bensín og eru þeir því flestir með aðstoðarmenn á viðgerðarsvæði til að þjónusta þá eins og í Formúlunni. Einnig er liðakeppni í Enduro. Í flestum liðum eru fjórir keppendur og oftast eru þeir allir á eins hjólum. Á síðasta ári voru liðin 14, en það var lið KTM sem hreppti liðabikarinn árið 2002. DV hefur fregnir af þremur liðum frá Honda, tveimur frá KTM og einu frá Suzuki, TM og Yamaha í meistaradeild. 

Sáð í keppnisbrautir

Keppnisbrautirnar eru í náttúrulegu landslagi, oft á gömlum vegaslóðum, troðningum eða ógrónum melum sem sáð er fræi í fyrir keppni og mótorhjólin látin spóla fræið niður. Hafa þessar gróðurtilraunir gefið góða raun og oft tekist vonum framar, en gerðar hafa verið tilraunir á Hellu, í Þorlákshöfn, við Mótel Venus, Borgarnesi, við Húsmúlarétt á Hengilssvæðinu og á Húsavík. Þessar brautir eru oft á bilinu 6-10 km langar og merktar með stikum sem mynda hlið og verða keppendur að aka í gegnum þessi hlið. Ef keppandi sleppir hins vegar hliði og dómarar keppninnar sjá það er keppandanum refsað með því að stoppa hann í 5 mínútur og kallast það víti. Við skulum vona að enginn fá það á sig í Úlfarsfellinu. -HJ
DV 3.5.2003