7.5.03

Fær blóðið til að renna

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í
handbolta, finnur sér tíma fyrir torfæruhjólið

Það vita ekki margir að eitt helsta áhugamál Guðmundar Þ. Guðmundssonar, þjálfara landsliðsins í handbolta, er að aka Suzuki DRZ 400 torfærumótorhjóli upp um fjöll og firnindi.

„ÞEGAR ég bjó úti í Þýskalandi fyrir einu og hálfu ári fór ég í fyrsta skipti á mótorhjól, það var torfærumótorhjól Suzuki, DRZ 400 sem er „enduro“ hjól. Þetta hjól er meira notað alhliða, þá meðal annars til ferðalaga. Þá var ég að láta 25 ára gamlan draum rætast,“ segir Guðmundur þegar hann er spurður um aðdraganda þess að hann byrjaði að stunda akstur á torfærumótorhjóli.
   Hann keypti sér svo svona hjól í Þýskalandi þar sem hann starfaði og kom með það heim til Íslands. Guðmundur notar hjólið einkum til lengri og skemmri ferðalaga. „Ég fer á fjöll með kunningjum mínum. Við höfum meðal annars farið upp á Arnarvatnsheiði. Guðmundur segir þá aka með hjólin út fyrir bæinn og keyra þaðan á ákveðna áfangastaði. „Við ökum eftir erfiðum jeppaslóðum og leggjum mikla áherslu á að aka ekki utan slóða.“ Hann segir það mjög krefjandi að aka torfæruhjóli við erfiðar aðstæður og það reyni jafnframt á hugann, því einbeitingin verði að vera góð svo menn detti ekki á hjólunum. „Í þessum ferðum þarf maður því að vera vel útbúinn. Fyrst ber að nefna hjálm og gleraugu. Við verðum að vera sérstaklega vel varðir um liðamót eins og um olnboga og hné vegna þess að í miklum torfærum kemur fyrir að maður dettur. Flestir eru því klæddir í eins konar brynju sem er úr sérstöku plastefni. 
   Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa hjólreiðamennsku er að hún krefst ákveðinnar hæfni og líkamsstyrks. Þetta eru auk þess mjög kraftmiklar græjur sem fá blóðið til að renna. Maður kemst til dæmis erfiða slóða hraðar en á jeppa og það er ákveðið frelsi sem felst í því að vera á svona hjóli.
    En ég er tiltölulega nýbyrjaður og á ýmislegt eftir ólært. Hluti af ánægjunni af þessum akstri er að njóta náttúrunnar og þá stöðvum við hjólin og virðum fyrir okkur fagurt landslagið.“ En hvað gera þeir ef hjólin bila eða dekk springur upp á háheiði, er þá einhver í hópnum til að gera við?
  „Slíkur vandi hefur ekki komið upp ennþá svo það hefur ekki reynt á þetta. En ef ég tala bara fyrir mig þá kann ég ekki að gera við hjólið né skipta um dekk. Það stendur til hjá mér að læra að geta bjargað mér, þá sérstaklega ef springur á dekkinu.“ Aðspurður segir hann að þetta geti verið hættuleg íþrótt ef menn fari of greitt og gæti ekki að sér. En hefur hann áhuga á að keppa á torfæruhjóli? 
  „Nei, ég er í þessu bara til að keppa við sjálfan mig. Auk þess sem mér finnst gaman að reyna á þessa líkamlegu og andlegu þætti.“ En hann segir marga iðka þetta sport og þá ekki síst menn á miðjum aldri. „Það er meira um það en marga grunar.“
Morgunblaðið 
7.5.2003