28.12.02

Postularnir, hafa afhent Heilbrigðisstofnuninni á Selfossi tækjagjöf



BIFHJÓLASAMTÖK Suðurlands,
Postularnir, hafa afhent Heilbrigðisstofnuninni á Selfossi tækjagjöf  fyrir sjúkrastofu barna á Sjúkrahúsi Suðurlands að verðmæti 166.050 krónur. 


Um er að ræða lækningatæki fyrir augn- og eyrnaskoðun, tölvuleiki, sjónvarpsskáp, myndbandsspólur og ferðaútvarpstæki með geislaspilara og heyrnartólum. Áður höfðu þeir gefið stofnuninni sjónvarpstæki. Við afhendingu gjafarinnar á Þorláksmessu afhentu fulltrúar Postulanna áletraðan skjöld með nöfnum þeirra fyrirtækja sem hafa verið bakhjarlar við fjármögnun gjafanna. Bifhjólasamtökin voru stofnuð 30. apríl árið 2000 á Selfossi af nokkrum einstaklingum og var það markmið félagsins meðal annars að efla mótorhjólamenningu á Suðurlandi. Í dag eru félagsmenn orðnir ríflega 80 talsins. Samtökin ákváðu að láta fleira gott af sér leiða og
hafa efnt til ýmissa viðburða og safnað um leið fé til tækjakaupa fyrir Sjúkrahús Suðurlands. Fjölmörg fyrirtæki hafa stutt þetta framtak Postulanna. „Stofnunin metur þann hlýhug
sem gjöfinni fylgir og leggur áherslu á að það styrkir starfsfólkið í störfum þess,“ sagði Esther Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar, við móttöku gjafarinnar á Þorláksmessu.

Morgunblaðið 28.12.2002