23.2.01

Þrjú HarleyDavidson bifhjól tekin í notkun

LÖGREGLAN í Reykjavík fékk í gær afhent formlega þrjú HarleyDavidson bifhjól og fór athöfnin
fram í Bílamiðstöð lögreglunnar.

Um er að ræða bifhjól sem eru 1.450 kúbik með 68 hestafla vél, árgerð 2001.
Ákveðið var kaupa eitt stórt bifhjól sem hentar betur í langkeyrslu úti á vegum og vegur það 360 kíló.
Það er með beinni innspýtingu og kostaði það 2,7 milljónir króna. Minni hjólin, sem eru tvö, eru hins
vegar 260 kíló að þyngd og kostaði stykkið 2,4 milljónir króna. Eru þau hönnuð sem borgarhjól.
Harley-Davidson bifhjól hafa verið notuð af lögreglunni hér á landi frá 1940 og hafa þau verið óslitið í bifhjólaflota lögreglunnar frá þeim tíma. Eru þeir sem til þekkja sammála um að eiginleikar þeirra séu ótvíræðir. Þau hafi sannað gildi sitt, bæði hér heima og erlendis.
„Þetta eru Harley-Davidson „police special“ og eru sérhönnuð fyrir lögregluna en fyrsta lögregluhjólið frá Harley var framleitt árið 1903,“ segir Agnar Hannesson, forstöðumaður Bílamiðstöðvar lögreglunnar. Hann segir jafnframt að nýjustu hjólin séu með öflugra rafkerfi og betri öryggisbúnað. Þá sé hemlakerfið mun betra og enn fremur séu felgurnar þannig gerðar að hjólbarðarnir fara ekki af þó svo að það springi á þeim.

Vonar að deildin stækki

 Aðalsteinn Aðalsteinsson hefur verið í bifhjóladeild lögreglunnar síðastliðin þrjú ár. Honum líst mjög vel á nýju hjólin. „Þetta eru kjörgripir og það besta sem við getum fengið þannig að við erum mjög lukkulegir með þau. Við þyrftum bara að vera fleiri og vonandi mun þessi deild stækka og dafna á komandi árum.“ Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að verið sé að endurnýja bifhjólaflotann. „Elsta hjólið í flotanum verður Harley hjól frá 1992 sem búið er að uppfæra en svo fáum við afhent Yamaha bifhjól eftir nokkrar vikur. Að sama skapi er eitt Kawasaki hjól að detta út. Á næsta ári munum við svo vonandi fá afhent tvö hjól og þá mun flotinn samanstanda af átta bifhjólum.“

Öll tæki í notkun um verslunarmannahelgina 

Hann segir að hjólin muni koma sér vel og það umferðareftirlit sem hefur verið í gangi í sumar muni ná hátindi um verslunarmannahelgina. „Lögreglan í Reykjavík og lögreglustjórarnir á Suðvesturlandi
hafa verið með sameiginlegt umferðareftirlit í sumar. Við sendum til að mynda menn frá okkur upp á
Holtavörðuheiði eða vestur á Snæfellsnes á ákveðnum dögum. Þetta umferðareftirlit mun svo ná hátindi um verslunarmannahelgina þegar nánast hvert einasta tæki sem við eigum verður í notkun.“
morgunblaðið 25.07.2001