16.12.00

Æfing tveggja ískrosskeppenda endaði á bólakafí í Leirutjörninni

Á hálum og ótraustum ís
16. desember 2000 | Akureyri og nágrenni 

Það fór heldur illa fyrir þeim félögum Víði Má Hermannssyni og Guðmundi Guðlaugssyni, sem höfðu viðkomu á Akureyri í gær á leið sinni til þátttöku í ískrosskeppni á Mývatni í dag, laugardag. Þeir félagar ákváðu að taka „létta æfingu" á mótorhjólum sínum á ísnum á Leirutjörninni á Akureyri í gær, ásamt heimamanninum Ingólfi Jónssyni. Ísinn var hins vegar ekki traustari en svo að bæði Víðir og Guðmundur misstu hjól sín niður í gegnum ísinn. Hjól Víðis  fór alveg á bólakaf úti
á tjörninni og kastaðist hann fram fyrir sig af hjólinu við óhappið.
Víðir var á frekar lítilli ferð og slapp því með skrekkinn en hlíf á hjálmi hans
brotnaði er hann skall á ísnum. Hjól Guðmundar fór hins vegar niður í
gegnum ísinn við bakkann og sökk aðeins til hálfs og gekk greiðlega að ná því á land án skemmda. Erfiðara reyndist að ná hjóli Víðis upp úr tjörninni og að lokum þurfti vörubíl með stóran krana til þess að ná hjólinu upp. Víðir sá því fram á erfiða nótt við að hreinsa mótorinn á hjóllinu þar sem saltur sjór er í Leirutjörninni, en hann ætlaði að vera tilbúinn í slaginn á Mývatni í dag.

Morgunblaðið