7.8.99

Tvær nýjar kennslubækur um akstur og umferð:

Handa þeim sem læra á bíl og/eða mótorhjól
- og ekki síður fyrir foreldra nemendanna 

 Daginn eftir vel lukkaða umferðarhelgi kennda við frídag verslunarmanna komu tvær nýjar kennslubækur út hjá Ökukennarafélagi íslands. Þetta eru tvær fyrstu bækurnar í bókaflokknum Akstur og umferð og heitir önnur Almennt ökuknám en hin Bifhjól.
Almennt ökunám er eftir Arnald Árnason og er í raun endurskoðuð, umskrifuð og stytt útgáfa á eldri bók sama höfundar, Umferðin og ég. Almennt ökunám er sniðið við nýja tíma og ný viðhorf, meðal annars með auknu og bættu myndefni til frekari glöggvunar.
Bókin er 209 blaðsíður og kostar 2.900 krónur.


Bifhjól er ný kennslubók um akstur og meðferð mótorhjóla. Höfundur hennar er Njáll Gunnlaugsson ökukennari sem undanfarið hefur skrifað um mótorhjól og fleira í DV-bíla. Við spurðum Njál hvort þessi bók væri ekki í raun fyrsta íslenska kennslubókin í mótorhjólaakstri.
„Það má segja það," sagði Njáll. „Undanfarin 15-20 ár hefur verið stuðst við hefti sem Guðbrandur Bogason, núverandi formaður Ökukennarafélags Íslands, tók saman nánast á eldhúsborðinu hjá sér til að bæta úr sárri þörf. Ég fann fljótt til þess að tími var kominn til úrbóta á þessu sviði svo ég sneri mér til Umferðarráðs og bað um styrk til að skrifa þessa bók. Því var í sjálfu sér vel tekið en fyrir 3-4 árum hafði verið samþykkt að veita Ökukennarafélagi Islands styrk í þessu skyni og nú var mér  svarað á þá leið að ef félagið samþykkti það fengi þessi styrkur að renna til mín. Og það varð úr.
Ég skrifaði þessa bók síðastliðinn vetur og vann hana frá grunni, þar með talið myndirnar, en töflur og þess háttar eru einkum fengnar frá finnskum starfsbræðrum. Það er fyllilega tímabært núna að þessi bók komi út því þeim fjölgar nú ört sem vilja afla sér réttinda til að aka mótorhjóli."
Er langt síðan þú varðst ökukennari? „Nei, það er nú ekki nema um ár síðan en mótorhjólin hafa fylgt mér miklu lengur. Við getum sagt að ég hafi 16-17 ára reynslu í akstri og meðferð mótorhjóla af flestum  stærðum og gerðum og hafa því af ýmsu að miðla til þeirra sem vilja læra að nota þessi skemmtilegu tæki og njóta þeirra."
 Bókin Bifhjól er 91 blaðsíða að stærð og kostar 2400 krónur. Báðar þessar bækur verða að sjálfsögðu skyldulesning þeirra sem læra á bíl og/eða mótorhjól en á það var bent við formlega útkomu bókanna að þær væru i rauninni jafnsjálfsögð lesning fyrir pabba og mömmu eins
og nemana sjálfa - og í rauninni hafa allir gott af að glugga í þessi fræði, jafnvel þeir sem telja sig bera af öðrum ökumönnum!
DV
7.8.1999
-SHH