29.6.99

Heldur hver með sinni tegund


Vélhjólafjélag gamlingja hélt sýningu á gömlum mótorfákum sl. sunnudag við Árbæjarsafn og núverandi leiðtogi, Dagrún Jónsdóttir, segir hér frá ýmsu um sögu mótorhjólsins á Íslandi, félagið og tilgang þess.


„Þetta er félag þeirra sem hafa áhuga á að gera upp gömul mótorhjól og aka um á þeim, stofnað 1993 og hefur verið mismunandi líflegt eftir árum. Félagar núna eru 33 talsins og þeir eiga samtals um 100 hjól. Stjórnarfarið er einræði en einræðisherrann getur síðan valið sér handbendi. Inntökuskilyrði í félagið eru ströng og dæmi eru um að menn séu reknir og síðan jafnvel teknir inn aftur er þeir hafa gert iðrun og yfirbót. Þar sem við Gamlingjar teljum okkur einstakt fólk viljum við halda félagi okkar hreinu af öllum óþjóðalýð. Nýir félagar skulu vera komnir til vits eða ára og hafa ódrepandi áhuga á gömlum mótorhjólum," segir Dagrún sposk á svip.
   Í ár verður aðalfundurinn að Stokkalæk í Rangárvallasýslu 23.-24. júlí en í í fyrra var hann haldinn á Akureyri og þá hjóluðu margir héðan að sunnan. „Við förum hægt yfir á þessum gömlu hjólum en við förum samt og höldum hópinn," segir Dagrún. Einkunnarorð Vélhjólafjelags gamlingja eru. „Gamlinginn skoðar steininn," og vísa til þess að fólk á gömlum hjólum fer hægt yfir og skoðar því umhverfið betur en aðrir sem geysast um á nýrri tækjum.

Harleyinn knúði vatnsdælu 

Fyrsta hjólið kom til landsins 1905 en elsta hjólið sem Dagrún veit um að enn er við lýði er frá 1918. Hún segir fleiri hjól hafa verið flutt til landsins á fyrstu áratugum aldarinnar en bíla. „Á Ísafirði voru til dæmis 24 hjól en bara 8 bílar á vissu tímabili."
   Sjálf á Dagrún elsta Harley Davidson hjólið sem vitað er um. Það er árgerð „31. En litlu munaði að því yrði tortímt. „Einn félaginn fann það uppi í sveit þar sem það var notað til að knýja vatnsdælu. Búið að saga sundur grindina og átti að fara að smíða fjórhjól úr því. Það er búið að taka mörg ár að safna í það varahlutum en nú er það alveg að komast á götuna."
   Dagrún segir ákveðinn ríg í klúbbnum um bestu tegundirnar. „Auðvitað heldur hver með sinni tegund til að hafa dálítið fjör í þessu. Ég hef alltaf verið á Harley og er búin að gera upp þrjú hjól af þeirri tegund. Hef alltaf talið hann langbestan og bresk hjól ómöguleg en í vetur seldi ég einn Harleyinn og fékk Triumph upp í og nú reikna félagar mínir með að ekki sé aftur snúið." Og Dagrún sýnir Triumphinn, sem er með hliðarvagni og hinn glæsilegasti ásýndum. En hvernig gengur að fá varahluti í þessi gömlu hjól?
     „Það gengur furðu vel. Mjög margt áhugafólk selur varahluti og eins eru verslanir með þá víða um heim. Til eru sérstök fyrirtæki sem framleiða varahluti í eldri hjól þótt verksmiðjurnar sjálfar séu hættar því." Til að komast í hóp gamlingja þurfa hjól að hafa náð 20 ára aldri og þá geta eigendur fengið afslátt á tryggingum hjá Tryggingamiðstöðinni séu þeir í Vélhjólafjelagi gamlingja. Og innan félagsins er bæði samkeppni og samstaða. Dagrún lýsir því: „Oft gildir lögmálið fyrstur kemur fyrstur fær og því passa menn að segja engum frá gömlum hjólum fyrr en þeir hafa sjálfir skoðað þau, en finni einhver „slátur" af sömu sort og einhver úr hópnum er að gera upp þá er það látið fara til hans svo hann geti búið til eitt úr tveimur." 
  Ekki er Dagrún ánægð með mætingu sinna manna á sýninguna. "Þeir fá orð í eyra á aðalfundinum - ef þeir verða þá ekki bara reknir!"
GUN
Dagur 29.6.1999