Hilmar Lúthersson, mótorhjólakappi á sjötugsaldri:
Það eru hjólin sem eru gamlingjarnir, ekki félagsmennirnir, það er algengur misskilningur. Til að komast inn í félagið verða menn annað hvort að vera komnir til vits og ára eða eiga gamalt mótorhjól," segir Dagrún Jónsdóttir, leiðtogi Vélhjólafélags gamlingja.Vélhjólafélag gamlingja var stofnað fyrir sex árum. Meðlimir eru 33. Félagsmenn sýndu í gær mörg hjóla sinna á Árbæjarsafni. Aðspurð um hjólaeign sína segir Dagrún: „Ég á eitt hjól hér á sýningunni sem er frá 1946. Auk þessa á ég Harley Davidson mótorhjól heima sem er frá árinu 1931. Það er hjól sem ekki er hægt að meta til fjár. Harleyinn er dýrgripur."
Hilmar Lúthersson, sem kominn er á sjötugsaldurinn, er einn félagsmanna Vélhjólafélags gamlingja. Hann á nokkur hjól og voru tvö af hans hjólum til sýnis í Árbæjarsafninu. „Ég hef átt um 100 hjól síðustu 20 ár. Þá er ég ekki að ýkja mikið. Ég átti mótorhjól þegar ég var ungur en svo kom góð pása meðan ég var í fjölskyldustússi. Ég byrjaði aftur í þessum bransa fyrir um tuttugu árum. Þetta er frábær skemmtun. Félagsskapurinn er góður og þetta er skemmtilegt áhugamál," segir Hilmar Lúthersson
- EIS
28.06.1999
DV