7.8.98

Þriggja hjóla hugarfóstur


 Margir vegfarendur Reykjavíkursvæðisins hafa rekið upp stór augu við að sjá þríhjóla farartæki Gunnars Vagns Aðalsteinssonar sem nýkomið er á göturnar. Að framan er það eins og venjulegt mótorhjól en að aftan minnir það á Volkswagen bjöllu. Þríhjólið er ætlað ökumanni og farþega.

   Gunnar Vagn vinnur við að gera við frystigáma en hann smíðaði mótorhjólið í frítímanum. „Ég smíðaði allt sjálfur nema skelina sem er ofan á. Ég þurfti að borga 66.000 krónur í vörugjald, bara til að geta sett hjólið á götuna. Það finnst mér grátlegt." 

    Gunnar Vagn segir að mikið sé um svipuð hjól á Mallorca. „Ég fékk hugmyndina við lestur erlends tímarits en hjólið er fjöldaframleitt m.a. í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Það eru til alls konar útgáfur af því." Hann segir að hann hafi lagt áherslu á að hjólið myndi ganga í augun á fólki.

   Hjólið fékk skoðun í síðustu viku og síðan þá hefur Gunnar Vagn viðrað það á götunum. „Það er sama hvert ég fer. Fólk ætlar að snúa sér úr hálsliðnum." -SJ  

DV 
7.8.1998