18.6.98

Breytti Suzuki Intruder í þríhjól

Jón Óli Ingimundarson við þríhjólið sitt sem smíðað er úr
Suzuki Intruder en með afturhásingu úr Fiat Panda. Hægt
er að breyta hjólinu aftur í upprunalegt ástand með einföldum
 hætti á nokkrum klukkutímum

Handlaginn vélsmiður:

Breytti Suzuki Intruder í þríhjól

Fyrir tveimur árum hófst í skúr við Síðumúlann í Reykjavík smíði sem var meira tilraun heldur en hitt. Árangur þessarar tilraunar sést nú samt á götunum um þessar mundir og fréttist af fyrirbærinu á Akureyri um daginn.
Það sem hér um ræðir hóf tilveru sína sem Suzuki Intruder, 1986 módel. Eigandi þess er Jón Óli Ingimundarson og vinnur hann sem vélsmiður. Hann hefur átt hjólið nokkuð lengi og hefur líklega fundist vera kominn tími til að gefa því örlitla andlitslyftingu.
Áður en aðal breytingarskeiðið hófst smíðaði Jón Óli á það nýja gerð af framgaffli ásamt Nonna vini sínum Metal, eins og hann er kallaður af þeim sem þekkja hann. Smíðin var blanda af tveimur vel þekktum gerðum framgaffla og var hún reynd til þrautar í Evrópuferð þeirra sumarið 1995. Vakti hann þó nokkra athygli erlendis og vann meðal annars til verðlauna á mótorhjólasýningu á írlandi.

En Jón Óli vildi reyna smíðahæfileika sína frekar og sneri sér nú að afturhluta hjólsins. Fundin
var afturhásing af Fiat Panda sem passaði við afstöðu drifskaftsins og svo smíðað í kringum það. Hann passaði sig á að eyðileggja ekki neitt af upphaflegri smíði hjólsins, enda getur hann ef hann vill breytt hjólinu aftur í upphaflegt útlit á nokkrum klukkutímum. Það sem vekur helst athygli þess
sem skoðar hjólið í fyrsta sinn er einfaldleiki þess og sniðug hönnun. Sem dæmi um það er á hjólinu loftpúðafjöðrun til viðbótar við upphaflegu afturdemparana og getur hann stillt hana eftir þörfum. Drifbúnaður hjólsins passaði svo til beint við afturhásinguna og drifhlutföllin hentuðu afli hjólsins mjög vel.
Að setjast á gripinn og prófa hann er dálitið öðruvísi heldur en að keyra venjulegt mótorhjól. Að hafa lappirnar á fótpedulunum í kyrrstöðu er nokkuð sem maður er ekki vanur, enda segir eigandinn það líklega öruggt að hann detti á fyrstu ljósum þegar hann breytir því aftur. Til að beygja á hjólinu þarf átök við stýrið en það leitast alltaf við að rétta sig af. Ætli það hafi ekki verið þreytandi fyrir hann að keyra Hvalfjörðinn um daginn? Þeir eiginleikar myndu líklega batna til muna með breiðara og flatara framdekki.
Skráningin á gripnum var ekkert vandamál, segir Jón Óli, enda farið í einu og öllu eftir þeirri reglugerð sem til er. Hvort næsta smíði Jóns Óla fær sömu afgreiðslu er annað mál, enda er hann þekktur fyrir að ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Við bíðum spennt eftir að sjá smíðar Jóns Óla í framtíðinni.
Njáll Gunnlaugsson
Dv 18.6.1998