3.6.93

Ljóshærð á fráum vélfáki


Hún vakti athygli blaðamanns þar sem hún sat á fagurgljáandi vélfáki sínum við umferðarljós á mótum Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar.
Þetta var fyrsta vordaginn í maí - búin svörtum leðurjakka og leðurbuxum með voldugan hjálminn á höfði. Hún hefði svo sem alveg  eins getað verið strákur ef ekki hefði hárið gægst undan hjálminum. Undirritaður lagði skrásetningarnúmerið á minnið og hélleiðar sinnar á grænu Ijósi. - Hver er þessi stúlka, eru ekki aðeins örfáar konur sem aka um á bifhjólum, ætli hún sé í Sniglunum?  Haft var uppi á símanúmeri
hennar eftir að Bifreiðaskoðun íslands hafði gefið upp hver eigandi hjólsins var, Málfríður Gunnlaugsdóttir, skráð til heimilis á Kleppsvegi I Reykjavík. Hún tók erindinu vel, kvaðst glöð svara nokkrum spurningum forvitins blaðamanns.

Málfríður er 23 ára, stúdent í fyrra frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði og stundar nú nám í fataiðn í Iðnskólanum í Reykjavík, þar sem hún hefur lokið tveimur önnum. „Eftir stúdentsprófið vissi ég ekki hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur.  Ég hef alltaf haft gaman af að sauma föt og ákvað að sækja um í fataiðn og sé ekki eftir því. Maður getur útskrifast annaðhvort sem kjólasaumari eða klæðskeri. Ég hugsa að ég reyni að taka hvort tveggja, það  hlýtur að gefa mesta möguleika. Mig langar að stunda þetta starf á breiðum grundvelli í framtíðinni, hvort sem ég sauma fallega hatta eða hanna og sauma falleg föt á dömur og herra. í sumar ætla ég að stytta mér stundir við að sauma föt úr leðri, vesti og fleira."

BÆTIR EGÓIÐ

- Hvers vegna mótorhjól? „Ég er búin að eiga mótorhjól í tvö ár. Ég ákvað á sínum tíma að taka
bifhjólapróf vegna þess að ég hafði alltaf verið hrædd við þessi farartæki. Ég hafði setið aftan á
skellinöðru hjá frænda mínum þegar ég var fimmtán ára og dottið. Eftir það var ég skíthrædd. Mér datt ýmislegt í hug þetta sumar og lét mér ekki nægja að læra á bifhjól heldur fór einnig að læra flug.
Það var bara svo dýrt. Vertíðin hefst á vorin og stendur fram eftir hausti. Það hefur veriö svo mikill snjór og leiðinleg tíð í vetur, ég lét ekki hvarfla að mér að taka hjólið fram fyrr en í byrjun maí.
Á veturna tek ég hjólið af skrá því að tryggingarnar eru feiknaháar.  Ég borga ekki nema 30.000 á ári í skyldutryggingu af bílnum mínum en 60.000 fyrir hjólið, þrátt fyrir að tryggingingargjöldin hafi
lækkað í fyrra. Skandia bauð best en gjaldið var komið upp í 90.000. Það var starfandi trygginganefnd innan Sniglanna, félagssamtaka bifhjólaeigenda, sem kom þessu til leiðar. Fyrsta árið sem ég átti hjólið mitt hækkaði tryggingin úr rúmum 24.000 í um 90.000 krónur þó svo að ég hafi verið tjónlaus." - Hvers konar hjól? „Hjólið mitt er af árgerð 1988 og er líklega um hálf milljón að verðmæti núna, Suzuki Intruder 750. Það er mjög flott að mínum dómi og hæfilega stórt. Kærastinn
minn á hjól að sömu gerð en miklu kraftmeira. Hjólið mitt er Chopper-týpa, það er að segja í anda þeirra hjóla sem hipparnir voru á í gamla daga,  eins og við sjáum til dæmis í bíómyndinni Easy Rider. Það er þungt og stýrið er í góðri hæð. Plasthjólin eru miklu léttari og eru gerð fyrir meiri
hraða. Hjólið mitt er virðulegt og sígilt að útliti. Ég hef ekki áhuga á stærra hjóli því þessu veld ég mjög vel." - Lítur þú á hjólið sem leikfang eða tæki til að komast á millistaða? „Ég lít á hjólið mitt sem farartæki, fyrst og fremst til að komast leiðar minnar á. Yfirleitt fer ég ekkert nema einhver  tilgangur sé með ferðinni, ég þurfi að fara af einum stað á annan - í heimsókn til vina og kunningja, heim úr vinnunni og svo framvegis. Það er fátt skemmtilegra en að fara eitthvað á spegilfægðu hjólinu í góðu veðri."
 - Er það sérstók tilfinning að aka um á fallegu mótorhjóli?
„Já, þetta er eins og frelsistilfinning sem vaknar innra með manni, sérstaklega ef ég  er alein á breiðum vegi í sól og góðu veðri - það er toppurinn. Ég hef líka mjög gaman af þvi að aka fram hjá fólki sem dáist að hjólinu mínu. Þetta er eins og að koma í boð vel til hafður og í nýjum og finum fötum. Þá finnst manni ekki verra að aðrir dáist að manni. Þetta bætir alltaf egóið." - Þykir þér vænt um hjólið þitt? 
„Já, því get ég ekki neitað.  Ég vil geta horft á mótorhjólið mitt þar sem ég er, fylgst með því í gegnum gluggann. Það er svo algengt að fólk fikti í þvi og setjist jafnvel upp á það. Þá getur það dottið i götuna og rispast. Ég vil geta brugðist skjótt við og stokkið út til að skamma hvern þann sem snertir það. Þetta er eins og að eiga lítið barn sem manni þykir vænt um. Ég reyni líka að hugsa vel um það, þrífa það og bóna svo það líti vel út. Þetta er bílskúrsgræja sem maður skilur ekki við sig. Mér er heldur ekki sama hver gerir við það ef það bilar. Ég læt það ekki í hendurnar á hverjum sem er."

LEÐRIÐ TIL VARNAR

- Af hverju klæðist þú leðurfötum þegar þú ferð á mótorhjólið?
„Bæði ver leðrið mann vel gegn kulda og roki auk þess sem það er vegna öryggisins. Að klæðast viðeigandi leðurgalla áður en sest er upp á
hjólið er jafnmikilvægt og að spenna á sig öryggisbelti í bíl. Það er mikil vörn i leðurgallanum ef maður dettur, venjuleg föt rifna eins og skot og eru til lítils gagns ef eitthvað kemur fyrir. Þau föt sem við kaupum, jakki og buxur, eru úr sérstaklega þykku og sterku leðri og saumuð þannig að þau veiti sem besta vörn, til dæmis með púða á hnjánum og þar fram eftir götunum."
- Hvað kostar slíkur búnaður?
„Ég gæti trúað að með öllu kosti hann um 100.000 krónur þegar hjálmur er talinn með.
Hjálmurinn minn er fasteign, hann kostaði 32.000 krónur.  Margir ungir strákar, sem hafa nýtekið bílpróf og bifhjólapróf, láta það verða sitt fyrsta verk að kaupa sér hjól en eiga svo ekki fyrir þeim búnaði sem nauðsynlegur er, galla, hjálmi og síðast en ekki síst - tryggingum. Að öðru leyti eru hjólin ódýr í rekstri og eyða fremur litlu bensíni. Undir venjulegum kringumstæðum léttist pyngjan mjög lítið við að keyra. Mitt hjól tekur tólf lítra af bensíni sem duga mjög lengi, níu lítra á aðaltank og þrjá á varatank. Það er enginn bensínmælir og því er gott að vita af varatankinum þegar bensínið þrýtur á þeim stóra. Maður kemst þónokkuð á honum.  Fyrst þegar hjólið drap á sér vegna þess að sá stóri var
tómur hélt ég að hjólið væri ónýtt eða eitthvað í þá áttina. Þá hafði ég ekki hugmynd um
þessa þrjá lítra sem eftir voru.
Þess ber að geta að varahlutir eru mjög dýrir og allur aukabúnaður. Til dæmis má nefna að dekk undir hjólið mitt kostar ekki undir 12.000 krónum."

  FORDÓMAR OG ÞEKKINGARLEYSI 

- Leðurklætt lið á mótorhjólum, mörgum stendur ógn af því ? 
„Ýmsir hafa fordóma gagnvart okkur. Maður er síður en svo litinn hýru auga alls staðar. Fólk  umturnast oft ef við ökum saman í hóp, það verður skelfingu lostið, flýr af hólmi og sendir manni tóninn. Okkur er til dæmis ekki hleypt inn á sumar krár og skemmtistaði í leðurfatnaði með púðum. Ég hef verið send heim þó að ég hafi verið í nýjum buxum sem ekkert sást á, bara af því að þær
voru með hnjápúðum. Ég mátti koma inn í leðurjakka en ekki í leðurbuxunum. Þeir hleypa inn sjóurum, slorugum upp fyrir haus og öðru liði þó það sé í sundurtættum leðurbuxum og grútskítugum
- en án púða. Þetta er fáránlegt. Ef einn í leðurjakka gerir eitthvað af sér þá eru allir undir sömu sök seldir. Ég er á móti öllum fordómum en þeir eru oftar en ekki af völdum þekkingarleysis. Oft hef
ég fengið sendan tóninn þegar fólk hefur verið að hneykslast á mér og sagt sem svo: „Hvað er svona ung og falleg stúlka að gera á mótorhjóli, þér væri nær að vera heima hjá þér að gera eitthvað þarfara.
Það er fólk á öllum aldri sem ekur um á mótorhjólum á sumrin. Marga hefur dreymt um slíkt í áraraðir og láta það ekki eftir sér fyrr en þeir eru jafnvel komnir á miðjan aldur. Margir halda að þetta svartklædda mótorhjólafólk séu villimenn sem ástæða sé til að óttast og taka með fyrirvara. Þetta er mikil vitleysa - og leðurgallinn er ekki vegna þess að hann er töff heldur miklu fremur vegna notagildis hans."

 MEÐ AUGU Í HNAKKANUM -

 Hvernig finnst þér að vera á bifhjóli í umferðinni í Reykjavík? „Það er stórhættulegt, maður veit aldrei á hverju maður getur átt von. Oft er sagt að við völdum þeim slysum sem við verðum fyrir og öðrum stafi hætta af akstri okkar. Það er rangt en auðvitað eru alls staðar svartir sauðir. Það er með ólíkindum hvað  ökumenn svína mikið fyrir okkur sem erum á mótorhjólum. Oft er það vegna þess að bílstjórar misreikna hraðann sem við erum á. Við skulum segja að ég aki hjólinu á 60 kílómetra hraða eftir aðalbraut. Ég skal nefna dæmi: Margir bílar eru á ferðinni hver á eftir öðrum og jafnmikið bil á milli þeirra. Ég er þá kannski einhvers staðar í miðri röðinni en hvernig sem á því stendur þá svínar bílstjórinn á mig þaðan sem hann hefur beðið á gatnamótum eftir að komast inn á aðalbrautina. Þetta er mjög algengt og einkum þegar jeppaeigendur eiga i hlut. Það er alveg lygilegt hvað hurð hefur oft skollið nærri hælum í slíkum tilvikum, ég hef stundum séð himnavængina fyrir mér á þeim augnablikum. Þeir ökumenn sem misreikna hraðann á hjólunum fullyrða þegar lögregla er kölluð til vegna óhapps eða þegar við gerum athugasemdir við framferði þeirra að við höfum verið á mjög miklum hraða, 200 og yfir. Þeir reyna þá gjarnan að koma sökinni á okkur. Maður þarf alltaf að hugsa um það sem aðrir ökumenn eru að hugsa og hafa augu í hnakkanum allan tímann. Ökukennarinn minn sagði að nauðsynlegt væri að líta á sjálfan sig sem þann eina með viti í umferðinni." 

 ENGAR I PRÓFINU -

Hafa einhverjir kunningjar  þínir eða vinir lent í bifhjólaslysi? „Nei, enginn sem ég þekki, sem betur fer. Undanfarin misseri hefur verið haldið uppi áróðri um gætilegan og öruggan  akstur á mótorhjólum. Hann hefur tvímælalaust verið til góðs enda höfum við í Sniglunum átt gott samstarf við lögreglu og Umferðarráð, sem er mjög til bóta. Ungu strákarnir, sem nýbúnir eru að taka prófið, kaupa sér margir hverjir allt of kraftmikil hjól og eiga erfitt með að halda hraðanum niðri. Prófdómarinn sagði við mig að þetta væri eins og að kenna prestum jafnsjálfsagðan hlut og þann að
hjón eigi til að skilja. Strákarnir eru eins og englar í prófunum en síðan aka þeir fram hjá honum nokkrum dögum síðar á öðru hundraðinu."
 - Er ekki vandasamt að ná tökum á þungu bifhjóli?
„Nei, nei. Þegar maður fer fyrst á slíkt hjól til að æfa sig er þetta auðvitað spurning um jafnvægi, þetta er jafnvægislist fyrst og fremst. Hitt kemur allt af sjálfu sér. Það erfiðasta er líklega hvað maður er alltaf mikið klæddur. Það er meiri háttar mál að fara í heimsókn eða ( bíó og þurfa alltaf að
byrja á því að losa sig við hlífðarfatnaðinn, fara úr jakkanum, lopapeysunni, taka af sér hjálminn og hálsklútinn og koma síðan öllu fyrir. í bíó er maður með fangið fullt."
 - Þið geríð tóluvert að því að reiða aftan á. Er það ekki bæði erfitt og hættulegt?
„Nei, ekki ef sá sem er aftan á er vanur og veit hvernig hann á að bregðast við, til dæmis í beygjum. Þegar maður er með óvanan aftan á biður maður hann um að halla sér með hjólinu í beygjum. Það bregst ekki að hann hallar sér á móti."
 - Hefurðu komist í hann krappan? „Jú, ég flaug einu sinni út af þegar ég komst fyrst í snertingu við malarveg. Ég var á leiðinni að kvartmílubrautinni,  sem er í hrauninu gegnt álverinu í Straumsvík, en gætti ekki að mér. Þar sem malbikið endar kemur stallur niður á malarveginn. Ég hélt bara áfram á fullri ferð með systur mína fyrir aftan mig og hjólið skaust út af. Sem betur fer kom ekkert fyrir, hvoruga okkar sakaði og á hjólið kom aðeins Lítil rispa. Mér hefur ekki verið vel við malarvegi eftir
þessa reynslu."
Vikan 11tlb 55árg.3.6. 1993