27.9.91

Landmannalaugar 1991 Frá öðru sjónarhorni.

Fjallaferð

Landmannalaugaferð.  Jamm og jæja. Ég og Sigmund nr 178 ákváðum  að skella okkur með og hrella saklausa túrista. En vegna mikillar vöntunar á of miklu keppniskapi í mér og Sissi þurfti að skreppa bæjarleið og heilsa upp á sína tilvonandi, var öllu slegið á frest. Ekki meira um það en á laugardag var tætt af stað í rigningu og roki.

Skömmu fyrir ofan Landvegarmót rákumst við á yfirgefna farskjóta, höfðu þeir greinilega ákveðið að fara hvorki eitt né neitt, nema kannski farið útaf nokkrum sinnum viljandi og óviljandi.  Okkur til undrunar byrjaði gula fíflið að skína á leiðinni og var okkur orðið heitt í hamsi þegar við runnum inn í Landmannalaugar.
Það fyrsta sem við sáum var drukknuð flatgræja og yfir henni hópur manna sem lét ljós sitt skína óspart. Eftir ansi skrautlegar aðfarir komst snúningur á maskínuna þótt erfitt væri. Skoðunarrúntur var tekinn um næsta nágrenni og ljótipollur barinn augum. Að sjálfsögðu flaug einn á hausinn á leiðinni en hans vegna skal nafni hans haldið leyndu, nema hvað hann var á drullumallara og það var ekki ég og getið nú.
Við  Ljótapoll komumst við að því að annað hvort er Halli (son of Davidson) góður í torfærum eða Heiddi góður að keyra, enda gaf hann okkur drulluköppunum ekkert eftir í torfærum staðarins. Vídeo kamera var auðvitað á staðnum til að gera kúnstir okkar ódauðlegar og brostu menn blítt þegar þeir álpuðust fyrir linsuopið.
Einhver fann upp á því að hafa kappakstur til baka en svo sumir verði ekki sárir skal sagt ósagt hver vann hvern, en af því að sumir verða að monta sig aðeins skal sagt að sögumaður og Heiddi urðu ekkert sárir.
Ekki dvöldum við lengi í Laugunum því Sniglar voru farnir að draga fram áfengi og við saklausir sveitapiltarnir þoldum ekki svoleiðis ólifnað enda löngu hættir að drekka? á miðvikudögum? fyrir hádegi og ættu menn að fara að dæmi okkar.

Brunuðum við því á vit örlagana enda ákveðnir í að klára Fjallabaksleið.  Örlögin reyndust vera hlykkjóttir malarvegir með lækjarsprænum á 100 metra fresti. 
Ekkert meiriháttar SKEÐI (ég tala dönsku ef ég vil stjubid) á leiðinni fyrr en við komum að fljóti einu miklu og svo stóru að ekki komst yfir nema fuglinn fljúgandi og við reyndar líka , en með buslugangi miklum og blautum.  Eftir að hafa hellt úr stígvélunum var snúið upp á rörið enda tíminn farinn að keyra óþægilega hratt frá okkur.  
 En hvað myndir þú , lesandi góður, gera ef  þú værir að keyra í rólegheitunum (130 eða svo) eftir hlykkjóttum malarvegi þegar fyrir þig stekkur vinkilbeygja?
Hvað sem þið mynduð gera þá endaði ég lengst út í móa á bólakafi í blautri mýri. Sissi gerði það sama bara til að vera með en kendi um nálægum fjallgarði sem gripið hefði athygli hans.  NNNÚÚ, ekki var slegið af við þetta og vorum við farnir að nálgast mannabyggðir þegar ég,  með allt í borni, ákvð að glápa úti í loftið í smá tíma og á meðan stökk í veg fyrir mig grjót eitt mikið sem sendi hjól og ökumann hátt í loft upp. Á meðan ég bjó mig til lendingar á mínum eðal-Dakar vonaði ég að loftið í dekkinu elskaði mig meira en frelsið og myndi hanga á sínum stað.  En því miður fyrir mig uppgötvaði ég við lendingu  að það sem eitt sinn hafði verið fagur hjólbarði var nú ljót og beygluð gúmíklessa, þar að auki dekkið sína eigin hugmyndir um hvert förinni var heitið.  Meðan ég reyndi að koma úr mér einhverjum blótsyrðum hófs mikill slagur milli mín og dekksins, sem endaði með sigri dekksins.  Áður en ég gat klára fyrsta blótsyrðið var dekkið, með mig og hjólið í eftirdragi, komið út í móa.
Nú var ekki annað en að tvímenna á XR og leita uppi bóndabæ. Hann fannst nokkru síðar og fengum við þar hjálp í viðlögum.
Allt of löngu seinna héldum við áfram, slangan með tvær fagrar bætur en ég hinsvegar með aumann afturenda, XR setu að kenna.  Streymdum við nú yfir holt og hæðir , yfir Mýrdalssand, gegnum Vík og enduðum á mínu fjallaheimili þar sem áhyggufullir ættingjar vörpuðu öndinni léttar.
Var ákveðið að endurtaka þetta við fyrsta tækifæri...........  The End

Ýkt og samsett af Próndór no 447.

Ferðasaga snigla sömu helgi

Sniglafréttir 1991