23.7.91

Úr sjúkrarúmi á sigurbraut

Það liðu fáar vikur frá því Karl Gunnlaugsson var rúmliggjandi eftir að hafa slasast illa á fæti í keppni, þar til hann var kominn aftur á mótorhjól og nældi í gullpening í kvartmílu. 

Hann var meðal keppenda í mótorhjólamílu Sniglanna, tveimur mánuðum eftir að hann slasaðist alvarlega á fæti í sandspyrnukeppni í Ölfusi. Karl lá í fjórar vikur á spítala eftir að hann lenti undir keppni á hjóli sínu, þegar hann féll við í spyrnu. Klemmdist hægri löppin mjög illa, ristin brotnaði og á tímabili var Karl ákveðinn í að keppa ekki aftur á mótorhjóli. „Það voru fyrstu viðbrögð, en síðan fór áhuginn að kitla mig aftur. En fæstir áttu von á því að ég færi svona fljótt að keppa, enda hef ég ekki
náð mér að fullu. Ég vildi hins vegar losna við skrekkinn, nánustu skyldmenni töldu hins vegar að ég væri ekki alveg í lagi að æða svona fljótt af stað," sagði Karl. „Ég var líka hálfskelkaður þegar
ég kom á kvartmílubrautina, með löppina vafða. Ég fór prufuferðir til að sjá hvort ég hefði nægan kjark til að spyrna af hörku og fann að ég hafði fullt vald á hjólinu. Þá var ekki aftur snúið og ég náði góðum tíma í tímatökum," sagði Karl. Fæstir áttu þó von á að hann stæði uppi sem sigurvegari, en hann vann Októ Þorgrímsson í úrslitum qg ók best á 10,98 sekúndum. „Ég ætla að klára sumarið og  sjá svo til hvað ég geri, hvort ég keppi áfram í þessu eða einhverju öðru. Það var í raun gott að keppa svona fljótt eftir slysið, það rífur sálina upp og gefur mér sjálfstraust, í stað þess að leggja árar í bát," sagði Karl.

Mótorhjólamílan skiptist í nokkra flokka. Karl vann 750 cc flokkinn,
1000cc flokkinn vann Ellert Alexandersson á Yamaha á tímanum 11,12,
Sigurður Styff vann flokk breyttra hjóla á Suzuki og var besti tími hans 9,90 sekúndur.
Hlöðver Gunnarsson tryggði sér bikarmeistaratitilinn í 1100 flokki á Suzuki, en þrjú mót Sniglanna gilda til þess titils og hefur Hlöðvar unnið tvö mót.
Morgunblaðið  23.7.1991
- GR