12.8.88

Að framdekkið sé heilt og bremsumar í lagi - Sniglarnir undir smásjá


Það má oft sjá þá í hópum í gamla miðbænum, ísvörtu leðri og á gljáfægðum fákum. Þeir vekja ugg í brjósti sumra en aðdáun hjá öðrum. Þeir eru Sniglarnir, eða Bifhjólasamtök lýðveldisins eins og samtökin heita réttu nafni.

Bifhjólasamtök lýðveldisins voru formlega stofnuð 1. apríl 1984 af um tuttugu manna hópi. Nú eru félagsmenn 197, þar af sjö kvenmenn, en hafa flestir verið um 300. Gerð var gagnskör að því fyrir nokkru að strika út af félagalistanum þá sem ekki höfðu borgað félagsgjöld í tvö ár og því hefur fækkað í hópnum. Einnig missa sumir áhugann eftir því sem þeir verða eldri og telja annað mikilvægara í lifinu. „Það eru menn sem annaðhvort telja sig vera orðna það þroskaða að þeir geti ekki verið á hjólinu lengur eða þeir eru svona óþroskaðir. Í upphafi eru menn mikið í þessu einhleypir, konulausir og barnlausir, en þegar þeir kaupa sér íbúð leyfir fjarhagurinn ekki að leika sér og þeir detta út kannski í nokkur ár og koma inn seinna," sagði Snigillinn Hjörtur Jónsson. „Það eru margir af félögunum sem eiga ekki hjól núna. Hjólaeign manna er allt upp í tíu hjól, - því fleiri hjól því meiri virðing fyrir eigandanum."

Tekur þrjá mánuði að gerast félagi 

Til þess að gerast Snigill þarf viðkomandi helst að  eiga mótorhjól, ekki skellinöðru, og vera 17 ára. Hann eða hún þarf svo að fylla út umsóknareyðublað og fá 13 meðmælendur. Umsóknin fer þar næst fyrir stjórnina sem fjallar um hana. Getur það tekið um þrjá mánuði að verða félagi í samtökunum.
Það fylgir því talsverður kostnaður að eiga mótorhjól.  í fyrsta lagi er verð á stóru hjólunum, 750 til 1100 kúbik, frá 700.000 krónum upp í 1,3 miljónir á Harley Davidson, en það er svokallað sófasett með hljómflutningstækjum, farsíma og hliðartöskum.  Varahlutir eru einnig mjög dýrir, en mestur kostnaður fer í hjólbarða. Verð á hjólbörðum er 6000 til 15.000 krónur stykkið sem endist 2000 til 10.000 km, afturdekkið. Algeng árskeyrsla er þetta milli 13.000 og 17.000 km, þannig að það fara þrír til sjö hjólbarðar á ári. Að sögn Sniglanna eiga íslendingar stærstu hjól í heimi, ef miðað er við hlutfall hjóla á höfðatölu.  Ástæðan er sögð vera metnaður því enginn vill vera minni en næsti maður.

Beygjukaflar skemmtilegir 

Sniglarnir leigja húsnæði Kvartmiluklúbbsins að Dalshrauni 1 þar sem þeir halda fundi á hverju miðvikudagskvöldi. Ef veðrið er gott fara menn gjarnan út að hjóla um tíuleytið. En eina aðstaðan til æfinga er kvartmílubrautin. „Það sem okkur dauðlangar í, og vantar, er hringbraut. Það skemmtilegasta sem mótorhjólamaður gerir á götuhjóli er að keyra upp Kambana, - skemmtilegustu kaflarnir eru beygjukaflarnir," sagði Hjörtur. En hvernig eru samskipti samtakanna við lögreglu? Gunnar Rúnarsson, sneggsta lögga í bænum, varð fyrir svörum: „Þau eru með ýmsu móti, misjöfn. Það fer eftir lögregluumdæmum og í því sambandi er höfuðborgarsvæðið verst. Það eru tíu til fimmtán lögregluþjónar sem er mjög illa við okkur en þeir verða ekki nafngreindir." Sniglarnir hafa orðið varir við talsverða fordóma í sinn garð og finnst umfjöllum um þá í fjölmiðlum hafa verið fremur neikvæð. „Fordómarnir eru sprottnir af bíómyndum. Það er svarta leðrið, hins vegar er leðrið okkar traustasti hluti því það hlífir. Að lenda í götunni og vera í gallabuxum eða leðri er svipaður munur og á kjóthakki og læri," sagði Hjörtur. „Gömlu konurnar vilja hlaupa, en ímyndin fer batnandi. Maður heyrir orðið núna: „Sniglarnir voru þarna, þetta er bara venjulegt fólk." Þessi fíkniefnastimpill er kominn úr bíómyndunum. Við erum alltaf velkomin aftur þangað sem við höfum verið. Svartir sauðir fá ekki inngöngu í samtökin," sagði Gunnar. Einn félaginn bætti við að þegar fólk sæi þá í hópum lægi við að hrópað væri: „Læsið inni allt kvenfólk og verðmæti, þeir eru komnir í bæinn!"

  Ís í Hveragerði 

Sú hefð hefur skapast að samtökin halda árshátíð sína helgina viku fyrir páska. Einnig eru farnar þrjár til fjórar stórar ferðir á ári. 17. júní ef farið til Akureyrar, landsmótið er haldið í Húnaveri og ein haustferð er farin í Landmannalaugar. Einnig er eitthvað um dagsferðir um landið og kvöld- og helgarferðir, skroppið í Hveragerði til að fá sér ís t.d.
Sniglarnir vildu leggja áherslu á það að engin stéttaskipting væri í félaginu. Meðal félaga væru jafnt
flugstjórar sem atvinnuleysingjar, og allt þar á milli. Þeir sem hvað hæst væru settir í þjóðfélaginu
væru jafnvel einnig þeir virkustu í félaginu. Nefndu þeir t.d. að Ómar Ragnarsson væri kominn með
bakteríuna, en hann er heiðursfélagi í Bifhjólasamtökum lýðveldisins.
Áhugi fyrir mótorhjólum fer vaxandi. Hjörtur sagði að fólk skoðaði mikið og hefði áhuga á þessu. „Það sýndi sig um daginn þegar við auglýstum mótorhjólakvartmílu til styrktar Krýsuvíkursamtökunum. Það mættu 500 manns, fólk á öllum aldri. Það kom á óvart hversu aldurshópurinn var breiður," sagði Hjörtur.
Sem kunnugt er voru Sniglarnir með gæslu í Húnaveri um verslunarmannahelgina. Að sögn Sniglanna hófust gæslustörfin af tilviljun í kringum þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum '86. Herjólfi hafði seinkað mikið og um þúsund manns biðu á bryggjunni í Þorlákshöfn. Þegar báturinn kom ætiaði
fólkið að ryðjast fram á bryggjuna, en Sniglarnir tóku í taumana og hleyptu fólkinu í hópum út á
bryggjuna svo allt færi betur fram. Þetta spurðist síðan út.

 Fólk rólegt í kringum þá 

„Við höfum verið beðnir um að taka að okkur gæslu því fólk virðist vera hrætt við okkur og móts og skemmtanahaldarar nýta sér það. Fólk er alltaf rólegt í kringum okkur en æsist þegar það sér lögreglu," sagði Hjörtur. Talið berst að slysum. Að sögn Sniglanna er það númer eitt, tvö og þrjú að treysta aldrei öðrum í umferðinni, hafa alltaf fyrirvara. Maður væri á litlum hlut og bílar í umferðinni væru ekki að huga að mótorhjóli heldur litu eftir öðrum bílum. Það hefði oft komið fyrir að þeir kæmu að gatnamótum, á aðalbraut. Bíl bæri að frá hliðargötu, bílstjórinu liti beint í augun á manni en beygði samt inn á. Oftar en ekki væri það bifhjólamaðurinn sem væri í fullum rétti.
Algengustu meiðsli við slys eru handarbrot, fingurbrot, mar og tognun. Einnig gætu rifbein brotnað. Töldu Sniglarnir að minna væri um slys á hjólum almennt en bílum, en þau væru oft alvarlegri þegar  þau yrðu.

Á 300 km hraða

 Mikið hefur verið hamrað á hversu gífurlegur hraði sé á mótorhjólum og aksturinn gáleysislegur. Það.er að vísu staðreynd að stærri hjólin ná 300 km hámarkshraða sem þýðir að ef allt er gefið í botn ætti að vera hægt að aka milli Keflavíkur og Selfoss á um tuttugu mínútum. Sniglarnir segja þó sjálfir að þeir reyni alltaf að keyra á löglegum hraða því það er of mikið í húfi fyrir suma þeirra, sérstaklega þá sem hafa atvinnu af því að aka. Kraftmestu hjólin ná 200 km hraða á 10 sekúndum, og sviptingarhraða á 3 sekúndum. Reyndar er hægt að ná sviptingarhraða í fyrsta gír, en þá eru eftir fjórir gírar sem ekki er hægt að nota. Ef mótorhjólamaður ætlar sér að stinga af þá gerir hann það. Það er minnsta hættan fyrir hann, miklu meiri hætta fyrir þann sem er að reyna að elta hann á bíl og fyrir þá vegfarendur sem eru í umferðinni. Lögreglunni er víst skylt núna að reyna fremur að ná númerinu og banka síðan upp á hjá viðkomandi heldur en stofna til einhvers eltingarleiks," sögðu félagarnir i Sniglunum. Að lokum vildu þeir ráðleggja byrjendum að aka aldrei hraðar en geta þeirra
leyfði. Meirihluti allra bifhjólaslysa yrðu vegna gáleysislegs aksturs þess sem á hjólinu væri.
-GHK
Dagblaðið Vísir
12.8.1988