16.7.88

Fundur lögreglunnar og Sniglanna

 Yfirvaldið kvatt með lófataki

Á FUNDI Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Sniglanna, og lögreglunnar í Reykjavik ásamt fulltrúa umferðarráðs á miðvikudagskvöldið voru samskipti þeirra i brennidepli ásamt umferðarmálefnum í heild.
Fyrir hönd lögreglunnar voru mættir Ómar Smári Ármannsson, aðalvarðstjóri, og Sturla Þórðarson, deildarlögfræðingur, auk Sigurðar Helgasonar, upplýsingafulltrúa umferðarráðs. Sniglarnir fjölmenntu og voru yfir fimmtíu talsins. Margar athyglisverðar hugmyndir komu fram og þótt ekki væri einhugur um þær allar voru menn ákveðnir í því að láta ekki staðar numið eftir þennan fund. Var Iitið svo á að þessi fundur væri upphafið að nánari samskiptum bifhjólamanna og lögreglunnar. Sniglarnir kvöddu gesti sína með iniklu lófataki. 


Lögreglan átti frumkvæðið að fundinum og óskaði eftir því að fá að koma á félagsfund hjá  Sniglunum, sem tóku því vel. Ómar Smári hóf fundinn með örstuttum inngangi þar sém hann fagnaði
tækifærinu til þess að ræða málin og sagði tilganginn með honum vera þann, að athnga hvort lögreglan og Sniglarnir gætu ekki unnið í sameiningu að því að bæta umferðina. Fram undir miðnætti voru svo fjörugar umræður og að fundinum loknum var ljóst að sameiginlegt átak var þegar hafið.
 Ómar Smári bað fólk í upphafi að ræða ekki um einstök mál eða atvik heldur í víðara samhengi.
Var því tekið vel, en ýmsir stóðust ekki mátið og létu óánægju sína í ljós með einstök atvik í samskiptum við lögregluna. Sigurður Helgason sagði að starf ráðsins væri í rauninni barátta upp á líf og dauða. Alltof mörg slys yrðu á bifhjólamönnum miðað við tiltölulega fá hjól. Árin 1985-86 slösuðust 53 á bifhjóli og 4 létu lífið og það voru mjög oft lítt þjálfaðir ökumenn, 17-20
ára, sem í slysunum lentu, sagði Sigurður.
Einn Snigill skaut því inn í að hann hefði heyrt að í um 80% tilvika væru bifhjólin í rétti. Sigurður sagði það rétt vera, en bætti við að jafn slæmt væri að slasast hvort sem maður er í rétti eða órétti. „Það er ekki töff að vera í hjólastól og því síður dauður. Við verðum með öllum ráðum að berjast á móti þessum slysum," sagði Sigurður. Sniglarnir tóku undir það og beindu umræðunni inn á tillitsleysi ökumanna í garð bifhjólamanna. „Eg efast um að  almenningur viti að bifhjólamenn sem slasast eiga í langfæstum tilvikum sök á slysinu. Bifhjólamenn eru ekki þetta brjálaða gengi sem margir halda," sagði einn þeirra og bætti því við að honum þætti halla á bifhjólamenn í umfjöllun fjölmiðla. Ómar Smári tók undir það og sagði uppslátt um hraðakstur á bifhjólum ekki vera í samræmi við fjölda þeirra mála sem upp kæmu. „Ykkar hlutur er lítill. En þið vekið athygli og því geta fáir svert allan hópinn," sagði Ómar. I framhaldi af því að rætt var um reynslulausa ökumenn bifhjóla beindist umræðan inn á brautir æfinga og kennslu og var Sniglum þar mikið niðri fyrir. Þeir sögðu að það tæki um þrjá stundarfjórðunga að fá leyfi til að aka bifhjóli, sem að mestum hluta færi í pappírsvinnu. Aðeins þyrfti að sýna að viðkomandi kynni á hjólið. Dæmi var tekið um það að hægt væri að taka próf á 125 rúmsentímetra hjól og kaupa sér
svo 1100 rúmsentímetra hjól daginn eftir, sem er þrjár sekúndur að komast á 100 km hraða. Einn
Snigillinn kom með þá hugmynd að koma á einhvers konar stigsprófum á bifhjól til að koma í veg
fyrir að reynslulitlir ökumenn gætu komist yfir stærri hjólin. Þá var talað um nauðsyn þess að koma upp æfingasvæði og sú hugmynd kom upp að loka ákveðnum vegarköflum, þar sem því verður komið við, svo bifhjólamenn geti notað kraftinn í hjólum sínum án þess að stofna öðrum í hættu. Fulltrúum lögreglunnar þótti hugmyndin athyglisverð og fyllsta ástæða til að athuga hana nánar.
Talsvert var rætt um viðhorf lögreglunnar og almennings til bifhjóla og ökumanna þeirra. Þótti sumum Sniglanna, sem lögreglan væri öll að færast í aukana. Einn þeirra sagði viðhorf  lögreglumanna til þeirra hafa breyst. og sérstaklega færu í taugarnar á honum ungir afleysingastrákar,
sem væru að gera sig breiða án ástæðu. Tóku margir undir það og bættu við að þeir kynnu ekki
neitt fyrir sér í mannlegum samskiptum. Ómar svaraði því til að viðhorf lögreglumanna væru einstaklingsbundin, en bað Sniglana að koma til sín og kvarta ef þeim þætti á sinn hlut gengið. Sameiginlega gætu þeir svo rætt málin við viðkomandi lögreglumann. Þetta væri besta leiðin til að bæta samskipti lögreglunnar og bifhjólamanna og raunar ætti þetta við um alla þá, sem samskipti eiga við lögregluna. Hann bætti því við að sú staða kæmi einnig alIoft upp, að litið væri á lögregluna sem árásaraðila þegar hún væri einungis að sinna skyldustörfum Komið var inn á ótal hluti aðra eins og mikilvægi hlífðarbúninga, hraðakstur og margt fleira. Meðal annars upplýstist að lögreglan hefur jafnvel í hyggju að selja gömul Harley Davidson-lögreglubifhjól og sýndu margir Sniglar áhuga á að gerast kaupendur að þeim. Mikill áhugi var greinilegur hjá báðum aðilum, að hafa aukin samskipti sín á milli.
 Og í lok fundarins kvöddu Sniglarnir yfirvaldið með dúndrandi lófataki.