26.4.87

Hann á trú hann á von. Hann á Harley Davidson

Hann á trú hann á von. 
Hann á Harley Davidson 

 Svo segir í texta Þursaflokksins í laginu sem fjallaði um litla manninn sem átti loksins möguleika á því að verða stór þegar hann eignaðist Harley Davidson mótorhjól. Þessum textaskaut upp í huga blaðamanns þegar hann var síðla dags fremur óvænt staddur innan um nokkur þúsund mótorhjólaeigendur á Nörrebrogade í Kaupmannahöfn 1. apríl sl. 
Blaðamaður fékk þær upplýsingar að á ári hverju söfnuðust meðlimir mótorhjólaklúbbanna í Kaupmannahöfn þarna saman á þessum degi og svo æki öll hersingin saman út á Dyrehavsbakken sem opnar þann samadag. Fjölskyldufólkið ku víst haldasig í órafjarlægð frá Bakkanum við opnunina því allt logar þar í slagsmálum þegar líða tekur á kvöldið. 

Engin slagsmálalykt virðist liggja í loftinu þegar blaðamaður
lenti í hringiðunni á Nörrebrogade enda fengust þær upplýsingar hjá sérfræðingi síðar að flest
allt mótorhjólafólk væri friðsamir borgarar. Þeir sem létu verst væru hinir svokölluðu rokkarar en það væri aðeins fámennur hópur. Hópur sem engu að síður hefur að geyma nokkra morðingja í sínum röðum.

Mótorhjólið staðfestir kyngetuna

Sérfræðingurinn sem vitnað er til að ofan heitir Jói Bay, hálfíslenskur, og er meðal fremstu sérfræðinga á Norðurlöndum í æskulýðsrannsóknum. Hann hefur á síðustu tveimur árum eða svo
unnið að rannsóknum á mótorhjólamenningu.
Jói samþykkti að svara nokkrum spurningum landa síns um efnið.
Hvaða aðdráttarafl telur þú að mótorhjólið hafi fyrir þann stóra hóp sem kýs sér þetta farartœki?
Á margan hátt er mótorhjólið mjög skynsamlegt ökutæki. Það er hraðskreitt, sparneytið á bensín, þarf lítið pláss á götunum o.s.frv. Fyrir utan þessi atriði þá er það sterk upplifun að aka motorhjóli. Maður finnur fyrir veðri og vindum, hvernig loftslagið breytist milli dala og hæða, finnur fyrir bugðunum á vegunum....þetta er miklu sterkari upplifun en að sitja í bíl. Að aka kröftugu mótorhjóli getur líka haft þau sálrænu áhrif að verka sem staðfesting á kyngetu þess sem situr með hjólið á milli lappanna.
En hver er ástœða þess að mótorhjólaeigendur rotta sig saman í klúbba?
Nú eru til áhugamenn um t.d. sportbíla en þeir mynda ekki með sér slík samtök. Á þessu er söguleg skýring. í upphafí 20. aldarinnar þegar vélvædd ökutæki fóru fyrst að koma í einhverjum mæli á göturnar mynduðu eigendurnir, hvort sem þeir voru eigendur vélhjóla eða bíla, félagasamtök. Það voru að sjálfsögðu að mestu leyti karlar úr borgarastétt sem voru í þessum samtökum. Þetta voru annars vegar hagsmunasamtök sem börðust fyrir viðurkenningu stjórnvalda á ýmsum þáttum sem
tengdust vélvæddum ökutækjum, en á þessum tíma var mikið um ýmsar takmarkanir sem menn
vildu fá aflétt. Hins vegar voru samtökin í leiðinni klúbbar þar sem menn nutu félagsskapar hver
annars yfir spilum, fuglaskytteríi eða öðrum frístundaiðkunum borgarastéttarinnar á þessum
tíma. Það félagslega hlutverk sem samtökin höfðu í upphafi aldarinnar er nánast það sama og
hlutverk mótorhjólaklúbbanna nú, en enn í dag telja mótorhjólaeigendur að hagsmunir þeirra séu
fótum troðnir. Þeir líta á sig sem minnihlutahóp, hóp sem á í vissu stríði gegn bílaveldinu. Samstöðu
sína sýna þeir með því að heilsa alltaf hver öðrum þegar þeir mætast á hjólunum.

Bjórdrykkja og kraftíþróttir

Í Danmörku eru nokkur mótorhjólasamtök starfandi, ekki satt?
Mótorhjólaeigendur, sem eru um 40 þúsund talsins, eru skipulagðir í klúbbum sem flestir eru
staðbundnir, en aðrir eru klúbbar tengdir tilteknum mótorhjólategundum. Klúbbarnir hafa með sér
samtök sem nú eru reyndar þrenn. Þetta eru DMC, MCTC og ABATE, en sá síðastnefndi er
klúbbur rokkaranna og nafnið á þeirra samtökum er skammstöfun á: Bræðralag gegn alræðislöggjöf. Þeir voru áður í DMC en voru reknir úr þeim samtökum því þeir voru taldir eyðileggja málstaðinn fremur en að vera honum til framdráttar.
Og hver eru helstu baráttumál ABATE, eða rokkaranna í Danmörku
í fyrsta lagi krefjast þeir þess að fá að aka á endurbyggðum mótorhjólum, en það er nú ólöglegt. í öðru lagi vilja þeir fá að aka án hjálms. í þriðja lagi vilja þeir verða undanskildir hraðatakmörkunum. í fjórða lagi, og þetta er eingöngu krafa rokkaranna, vilja þeir lækka akstursaldurstakmarkanir úr 18 ára aldri niður í 16. Hin mótorhjólasamtökin leggja meiri áherslu á það
að öryggi mótorhjólaeigenda sé tryggt.
En eins og í ökutækjaklúbbunum í upphafi aldarinnar þá sameina klúbbarnir hagsmunabaráttu og frístundaiðkun. Á sumrin leigja klúbbarnir svæði út á landi þar sem meðlimir koma um helgar og keppa í mótorhjólaakstri og ýmsum öðrum greinum, s.s. bjórdrykkju, kraftíþróttum o.s.frv.
Svo er að sjálfsögðu rokkhljómsveit á staðnum. Þarna koma meðlimir alls staðar að af landinu
og jafnvel erlendis frá líka.

Dömutakkahjól

Eru það að mestu leyti karlmenn sem sœkja þessar samkomur?
95% eru karlmenn. Einstaka konur koma með, en þá eru þær oftast í fylgd með karlmanni.
Sitja aftan á hjólinu.
Eru til mótorhjólaklúbbar kvenna?
Já það eru til tveir slíkir klúbbar í Danmörku. Þær eru með sín eigin mót. Það sést varla karlmaður á kvennamótunum, en þó má í einstaka tilfellum sjá stelpur með strák aftan á hjólinu hjá sér.
Ganga klúbbarnir þvert á öll stéttalandamœri eða eru til klúbbar þar sem meiri hluti meðlima er
t. d. úr verkalýðsstétt og aðrir þar sem meiri hlutinn er t. d. úr yfirstétt?
Flestir klúbbarnir ganga þvert á landamærin, en þó eru til klúbbar sem myndast í kringum ákveðnar tegundir af hjólum eins og t.d. Goldwingklúbburinn, en í honum eru aðeins vel efnaðir áhugamenn. Þetta eru rándýr hjól, rosastór og minna helst á vel útbúna bfla á tveimur hjólum.
Nær undantekningarlaust eru þessi hjól útbúin fullkomnustu hljómflutningsgræjum og ýmsum
öðrum þægindum. í ABATE klúbbnum, klúbbi „rokkaranna", eru flestir úr verkalýðsstétt.
Er til haldgóð skilgreining á því hvað rokkari er?
Nei í raun og veru ekki. Fyrirbærið rokkari er að mestu búið til í fjölmiðlum. Það er t.d. enginn
sam kallar sig rokkara. Það sem greinir þennan hóp e.t. v. mest frá öðrum eru hjólin, en þeir aka svo
til eingöngu á breskum eða amerískum bjólum og venjulega eru þau endurbyggð.
Nú eiga Japanir stóran hluta af mótorhjólamarkaðnum. Eru rokkararnir e.t.v. að einhverju leyti undir áhrifum frá félögum Hells Angels í Bandaríkjunum sem að hluta til vegna þjóðernishyggju og kynþáttafordóma kjósa angló-saxnesk hjól frekar en japönsk?
Já alveg örugglega. Rokkararnir eru undir töluverðum áhrifum frá Hells Angels, en Hells Angels hafa verið virkir þátttakendur í baráttu bandaríska iðnaðarins um markaðshlutdeildina þar. Bandaríkjamenn framleiða góð hjól, Harley Davidson, og Hells Angels haf a sérhæft sig í að
endurbyggja þau. Þessi þekking hefur komið til Danmerkur með kvikmyndum um Hells Angels
sem eru nú um 15 talsins og jafnframt eru gefin út í Bandaríkjunum 4 tímarit þar sem eingöngu er skrifað um endurbyggingu á Harley Davidson og þessi blöð lesa dönsku rokkararnir. Það er t.d. einn munur á japönskum og anglósaxneskum hjólum sem er grundvallandi fyrir rokkarana.
Angló-saxnesku hjólin eru knúin í gang með fótunum, en á japönsku hjólunum er bara venjulegur startari eins og á bfl. Þetta fyrirlíta rokkararnir og kalla startarann dömutakka og hjólin dömutakkahjól.

Mótorhjólakonur hafa ekki atkvœðisrétt

Hvað varð tilþess að þú valdir Þér mótorhjólamenningu sem viðfangsefni í rannsóknum þínum?
Ég hef áhuga á hinum svokölluðu jaðarhópum. Áður hafði ég skrifað um leðurjakkamenninguna á sjötta áratugnum og rannsókn á mótorhjólakúltúrnum kemur því í eðlilegu framhaldi af þeim rannsóknum.
Að hve miklu leyti er mótorhjólamenning jaðarmenning?
Ja þetta er menning sem snertir næstum alla fleti lífs þeirra sem lifa í þessari menningu. Þeir afmarka sig með sérstökum klæðnaði, tattúeringu og skartgripum, og svo tíðkast innan þessa hóps sérstakar helgiathafnir og hefðir. Þar eru mótorhjólin í miðpunkti. í brúðkaupum og jarðarförum eru mótorhjólin t.d. ómissandi. Hjá sumum er mótorhjólamenningin það stór hluti af lífinu að
þeir kjósa að búa í sambýli með klúbbfélögum. Mótorhjólagamanið er þannig hjá mörgum ekki aðeins spurning um tómstundagaman heldur verður mótorhjólið öxull sem lífið snýst um.
Er eitthvað sem kom þér sérstaklega á óvart þegar þúfórst að vinna að þessum rannsóknum?
Já tvennt. Annars vegar staða kvenna innan klúbbanna. Þótt þær séu skráðar sem meðlimir þá hafa þær ekki atkvæðisrétt. Og það sem verra er, konurnar virðast sætta sig algjörlega við þetta.
„Svona er þetta og svona á þetta að vera," segja þær. Hitt sem kom mér á óvart þegar ég fór að vinna að þessum málum voru viðbrögð starfsfélaga minna og nánasta umhverfis. Fólk var hálf hneykslað á mér að aka um á mótorhjóli, fannst hjólið t.d. óþarflega stórt fyrir mig. Samtímis fann ég þó að fólk hreifst af hjólinu. Fannst þetta spennandi... Jói lítur glottandi á Marlon Brando-plakatið upp á vegg hjá sér á háskólaskrifstofunni. Á plakatinu situr Brando klofvega á Harley Davidson, alklæddur leðurfötum. Hann endurgeldur glott Jóa. -K.Ól.

http://timarit.is/