Fyrir örskömmu gaf Sniglabandið út plötuna Fjöllin falla í hauga, sem er tveggja laga skífa í stærra laginu og með afbrigðum góð. Á plötunni eru tvö lög, annars vegar „750 cc blús“ og hins vegar lagið „Álfadans", sem íslendingar gaula árvisst um hver áramót.
„750 cc blús“ er eftir Valdimar Örn Flygenring, en textinn er eftir Þormar Þorkelsson — snigil nr. 13. Þetta er hressilegt vélhjólalag, án þess að vera bárujárn eða skylt „Riddara götunnar". Texti Þormars er ágætur og á tíðum sér maður nánast glott höfundar á bak við fjálglegar lýsingar um unað vélhjólaaksturs.
„Álfadans" þekkja allir — „Máninn hátt á himni skín“ o.s.frv.. — og fara Sniglar vel með það. Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar menn keppast við misjafnlega ósmekklegar útsetningar á gömlum og góðum lögum er ánægjulegt að vita af því að einhverjir hafi enn tilskilda smekkvísi til þess. Það hafa liðsmenn Sniglabandsins. Þegar haft er í huga hve auðvelt er að klúðra svona lögum (muna menn Álfareiðina?), þá er þetta harla gott hjá Sniglabandinu, Hverjum Sniglabandið er skipað veit ég ekki utan þess að allir meðlimir þess eru í Bifhjólasamtökum lýðveldisins. Hljóðfæraleikur er til prýði, en það sem mest ei um vert er þó ferskleiki hljómsveitarinnar.
Í heild er þetta hin eigulegasta plata. Hljómsveitin er öðruvísi en flestar aðrar, en hið sama er nú sagt um Stuðmenn og Skriðjökla og þykir þeim ekki til hnjóðs. — Sniglabandið er á réttri braut og má hlakka til hljómleikafarar þeirra um landið og ekki síður til skífu þeirrar, sem þeir lofa með laufunum á trjánum. P.S.
Ef mig misminnir ekki
gáfu Bifhjólasamtökin út
óvitlausa jólaplötu í hitteðfyrra og sungu um
hjólajól.