9.12.70

Elding 5 ára (1965)


Hér sýnir einn piltana listir sýnar

 Vélhjólaklúbburinn Elding 5 ára



Í GAMLA Golfskálanum á Öskjuhlíðinni er margskonar starfsemi til húsa. Þar hafa t.d. tveir klúbbar aðsetur sitt, Bílaklúbburinn og Vélhjólaklúbburinn Elding, sem um þessar mundir heldur hátíðlegt 5 ára starfsafmæli sitt. 

  Í Golfskálanum hafa piltarnir í Eldingunni ágæta aðstöðu og þar  halda þeir sína vikulegu klúbbfundi og hafa þar eigið verkstæði, sem opið er fjórum sinnum í viku fyrir klúbbmeðlimi.
   Fyrir réttri viku hélt klúbburinn hátíðlegt 5 ára afmæli sitt með fundi og veizluhaldi í gamla Golfskálanum. Þar rakti Jón Pálsson tildrögin að stofnun þessa klúbbar, og Sigurður E. Ágústsson varðstjóri rifjaði upp ýmis atriði í sögu klúbbsins. Síðan var sýnd kvikmynd um vélhjólaakstur á reynslubrautum. 55 unglingar mættu á þessum klúbbfundi og fór hann hið prýðilegasta fram.
Nokkrir piltar úr Eldingunni
  Tildrögin að stofnun klúbbsins voru þau, samkvæmt frásögun Jóns Pálssonar, að fyrir um það bil fimm árum varð unglingur hér í borg fyrir bifreið, en unglingur þessi var á vélhjóli. Í tilefni af því barst Jóni Pálssyni fyrirspurn í tómstundaþáttinn varðandi þetta slys. Urðu málalok þau að Vélhjólaklúbburinn Elding var stofnaður og hefur frá upphafi átt miklu fylgi að fagna meðal pilta á aldrinum 15—17 ára.
  Á þessum sama fundi færði framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs, Reynir Karlsson, klúbbnum peningagjöf, 3000 krónur og innflytjandi Hondu-vélhjólanna Gunnar Bernhard færði þeim verkfærasett, sem vafalaust hefur komið í góðar þarfir.
Fréttamaður blaðsins gerði sér ferð upp að Golfskálanum gamla fyrir nokkrum dögum og forvitnaðist um starfsemi klúbbsins. Þar voru staddir nokkrir vaskir drengir með hjálma og íklæddir leðurjökkum, en það mun vera einkennisbúningur þeirra. Þarna var einnig staddur formaður þessa klúbbs, Jón Snorrason, 16 ára gamall, og svarði hann nokkrum spurningum varðandi starfsemina.
Hjólin lagfærð og smurð

— Farið þið ekki oft í ferðalög út fyrir borgina? 
— Jú, við höfum farið út á Reykjanes nokkrum sinnum og eitt sinn brugðum við okkur til Hvitárvatns. Einnig förum við oft í Rauðhólana. Það er líklega vinsælasti staðurinn.
 — Hvaða vélhjólategund er vinsælust meðal piltanna hér? 
— Ætli það sé ekki Honda. Hún nær mestum hraða, þótt það sé enganveginn stærsti kosturinn, en þau hjól, sem nú eru flutt inn ná ekki miklum hraða og eru til tafar í umferðinni. Auk. þess hefur Honda þann stóra kost, að hún verður ekki hálfónýt á einu ári, eins og þau hjól, sem inn eru flutt, en ég vil gjarnan taka það fram, að allskonar höft eru á innflutningi vélhjóla. Við höfum gert okkar bezta með aðstoð ýmissa manna til að fá úr þessu bætt, en því er ekki sinnt. Það litla, sem inn er flutt af vélhjólum er yfirleitt mjög lélegt.

Morgunblaðið
 9.12.1965