11.1.21

Ævintýraferð til Ekvador

 Ferðasaga á mótorhjóli.

Fyrsti kafli

Eftir Ragnar Hólm Gunnarsson

Ég ákvað á vormánuðum 2019 að heimsækja frumburðinn sem býr í Ekvador og nota tækifærið og skoða þessar framandi slóðir í leiðinni. Þegar sú ákvörðun hafði verið tekin hófst undirbúningur. Margt var skoðað og pælt en á endanum varð sá ferðamáti ofan á, sem ég hef alltaf verið spenntur fyrir, að vera á mótorhjóli.

______________________________________________________________

Undirbúningurinn

Mars, apríl og maí.

Það er að mörgu að huga þegar ferðast er til framandi landa. Það þarf að verja sig fyrir landlægum sjúkdómum og slíku og ég fór því í viðeigandi sprautur. Svo er að skipuleggja ferðalagið og ákveða ferðamáta. Ég skoðaði ótal youtube myndbönd um ferðalög í landinu og mér varð fljótlega ljóst hvaða ferðamáti höfðaði mest til mín. Það var bara himinn og haf á milli þess að horfa á þessar ferðalýsingar í rútum og bílum annarsvegar og á mótorhjólum hins vegar. Ég ákvað því að setja mig í samband við mótorhjólaleigur sem sjá um að skipuleggja mótorhjólaferðir í landinu. Ég endaði á að velja aðra af tveimur sem voru geinilega með mikla reynslu af svona ferðum og bjóða upp á bæði ferðir með leiðsögumanni og einnig ferðir þar sem ökumenn fá fyrirfram ákveðna leiðarlýsingu í GPS og öll gisting pöntuð fyrirfram. Hjólinu fylgdi sérstakur neyðarsími þar sem hægt var að hafa samband við einhvern hjá leigunni allan sólarhringinn ef á þyrfti að halda. Ég vildi þó ekki binda mig við fast ferðaplan allan tímann þannig að ég samdi við þá að þeir skipulegðu ferðina fyrstu þrjá dagana og ég sæi svo um restina sjálfur.


Ég hafði sem ákveðið að ferðamátinn í Ekvador yrði mótorhjól, en það var aðeins einn galli á þeirri ákvörðun. Ég var ekki með mótorhjólapróf. Ég setti mig því í samband við kennara í mars og fékk þær upplýsingar að verkleg kennsla á mótorhjól hæfist ekki fyrr en í maí. Ég gæti hins vegar tekið bóklega námið og námskeið væru aðgengileg á netinu. Þegar ég sagði kennaranum frá áformum mínum sagði hann að við yrðum þá að drífa þetta af sem fyrst eftir að kennsla hæfist því það tæki allt að þrjár vikur að fá ökuskírteini!


Ökunámið gekk hratt og vel. Strax eftir prófið dreif ég mig og sótti um skírteini til að þurfa nú ekki að vera með bráðabirgðaskírteini á ferðalaginu. Ég var eitthvað að spyrjast fyrir um afgreiðslutímann þegar sú sem afgreiddi mig upplýsti mig um að

ég gæti fengið alþjóðlegt ökuskírteini afgreitt á einum degi. Ég þáði það að sjálfsögðu og daginn eftir var ég komið með skírteinið.

Lagt í’ann

27. maí

Konan mín og dóttir voru á leið til Austin í Texas og við fórum öll þrjú með sama flugi til New York, en þar skildu leiðir og ég hélt áfram til Ekvador. Ég taldi mig hafa nægan tíma til að tékka mig inn í flugið til Bogota í Kólumbíu þar sem áætlað var að millilenda á leiðinni til Quito í Ekvador. Það átti að fara upp úr miðnætti. Það runnu hinsvegar á mig tvær grímur þegar ég fór að nálgast innritunarborðin í álmunni þar sem Suðurameríkuflugin voru. Þar voru endalausar raðir og þær gengu ótrúlega hægt. Ég fann mína röð og komst loksins að eftir um einn og hálfan tíma. Þá kom í ljós að búið var að breyta bókuninni þannig að millilendingin var nú í San Salvador, höfuðborg El Salvador, og brottför kl. 04:30. Ég var það snemma á ferðinni að taskan mátti ekki fara á færibandið svo hún var tekin til hliðar og var mér sagt að þau myndu setja hana á bandið síðar. Smá óvissa þarna hvort taskan skili sér 😬. Ég komst klakklaust til San Salvador og flugvöllurinn þar bara ljómandi fínn. Þetta var orðinn langur leggur og ég átti ekki flug fyrr en kl. 8 um kvöldið svo ég keypti mér aðgang að lounge þar sem ég gat fengið rúm til að leggja mig í.

Mynd3


Á flugvellinum í San Salvador.

Quito - Baños


28. maí

Allt gekk vel á leiðinni til Quito og ég mætti á mótorhjólaleiguna eftir ágætan nætursvefn í kjallaraherbergi á frekar fátæklegu gistiheimili í nágrenninu. Ég færði allan farangur úr töskum yfir í hjólatöskurnar og klæddi mig í gallan sem mér var færður. Nú er allt klárt fyrir ferðalagið! Next stop Baños 🤠😎🏍️


Það sést kannski ef vel er að gáð hvað ég er
að hugsa á þessari mynd.
 
Það sést kannski ef vel er að gáð hvað ég er að hugsa á þessari mynd. Hvern djöfullinn er ég búinn að koma mér út í! Kominn þarna á risastórt ferðahjól sem er hlaðið töskum og ég á leiðina út í brjáluðu umferðina í höfuðborg Ekvador eftir 6 ökutíma á miklu minna hjóli í umferðinni í Hafnarfirði. Þeir eru nú ekki beinlínis þektir fyrir að fara of mikið eftir umferðarreglunum þarna. En ég setti allt mitt traust á GPS-inn og að þetta hlyti að verða allt í lagi, bara ef ég kæmist út úr borginni. Svo ég dreif mig af stað þegar ég var búinn að fá smá tilsögn um umferðarreglur í Ekvador og hvernig ég ætti að gera við dekk ef það skyldi springa.

Þetta byrjaði þannig að það er ekki hægt að túlka það öðruvísi en fararheill 😬. Ég var sem sagt rétt kominn fyrir hornið þegar ég drap á hjólinu og kom því ekki í gang aftur. Eftir miklar tilraunastarfsemi tókst mér að finna úr úr þessu, smá byrjendamistök með neyðarádreparann (😉 til þeirra sem þekkja til). Svo komst ég nú af stað, en þá vildi ekki betur til en svo í næstu eða þarnæstu brekku að ég missti hjólið á hliðina þegar ég stoppaði. Og það er ekkert grín með allan þennan farangur. En þá komu þrír vegfarendur aðvífandi með það sama og hjólið fór upp á núll einni. Jæja, þá var bara að koma sér út úr höfuðborginni. Það reyndist nú snúnara en ég hélt. Ég mæli sem sagt ekki með því að byrja mótorhjólaferil á því að reyna að komast út úr ókunnugri stórborg með GPS. Ég hef líklega verið að þvælast fram og aftur um Quito í ríflega klukkutíma áður en ég komst loksins út úr henni. Plúsinn er að borgin er ótrúlega fjölbreytt og stórkostlega kreisí. Byggð að stóru leyti í brjálæðislega bröttum hlíðum. Ég var hins vegar klæddur til að vera á fullri ferð á þjóðveginum svo ég svitnaði eins og mf! Jæja ég komst loksins "on-track" og þá tók við keyrsla í þessu frábæra landslagi.Óþrjótandi myndefni en ekki hægt að stoppa nema á örfáum stöðum til að taka myndir.


Á leiðinni hækkaði bara hitastigið, enda var ég að lækka mig smám saman úr um 2600 m hæð niður í um 1820 m. Það var því ekki um annað að ræða en að reyta af sér spjarirnar svo ég drukknaði nú ekki í eigin svita á leiðinni. Ég fór því úr gallabuxunum og renndi fóðrinu innan úr gallanum og þá var þetta allt annað líf.



Og ég komst sem sagt til Baños (Baños de Agua Santa) sem er bær á ótrúlega fallegum stað í jaðri Anders fjallgarðsins og hefur verið nefndur hliðið inn í Amazon regnskóginn.




Ég fékk mér göngutúr í þessum fallega bæ eftir að hafa komið mér fyrir á hótelinu og þá var nú alveg kominn tími á einn kaldann.

Um kvöldið fékk ég þann besta mat sem ég fékk í allri ferðinni, heilsteiktan silung með alveg geggjaðri sósu. Þetta var máltíð sem verðskuldara mynd.



Baños - Alausi

29. maí

Samkvæmt planinu var ferðalag dagsins um 3 tímar, og bæjarstæði Baños er svo æðislegt að ég vildi njóta dagsins þar. Í alvöru - þessi staður er GEGGJAÐUR! Svo var líka rigning, og ekki spennandi að fara af stað í rigningu á hjólinu. Ég fór því á stúfana til að sjá hvort ekki væri hægt að fara í einhvern stuttan túr. Það var þarna einn túr í boði sem mér skildist að væri 3 tímar og færi klukkan hálf ellefu og það passaði fínt. Ég yrði kominn af stað um 2 leytið og kominn um klukkan 5 á næsta áfangastað. Og þessum túr hefði ég aldrei viljað missa af. Baños er algjör perla. Ég var í vandræðum með að taka ekki endalaust af myndum. 



Það kom svo í ljós að þetta var einhverskonar jaðarsport ferð og keyrt var á milli staða sem buðu t.d. upp á alls kyns ferðir í körfum yfir þessi djúpu gili og ár og svona zip line þar sem maður er hengdur upp og rennur eftir línu yfir gilið. Hvað er þá annað að gera en að fara all-in!🤪😬🥶. Og það varð úr 😎.

Þarna eru svona pínulitlir bananar sem eru mjög sætir og góðir á bragðið sem og af þeim má hver sem er fá sér, enda vaxa þeir þarna um allt. Svo smakkaði ég svona mix hjá þeim sem virðist vera einhvers konar þjóðarréttur. Eða eins og þeir orðuðu það, “very good, makes you very strong”.


Nú, eins og mér er smám saman að lærast, þá eru Ekvadorar ekkert að stressa sig varðandi tímasetningar. Túrinn var sem sagt 4 tímar og ég komst ekki af stað fyrr en klukkan 3. Það ætti þó að sleppa og ég ætti að verða kominn fyrir ljósaskipti ef ég stoppaði ekki á leiðinni. Ég tók því bensín á hjólið og lagði í hann.



Þessi leið er alveg með ólíkindum. Hún hlýtur að eiga heimsmetið í fjölda af brekkum og beygjum! Ég byrjaði á að keyra upp í skýin sem voru ansi þykk á tímabili, en það lagaðist þegar ég kom niður hinum megin. Þeir eru nú ekkert að eyða tímanum í að setja upp vegvísa blessaðir svo ég treysti bara GPS-inum, enda gengið ágætlega til þessa. Þegar ég var kominn á frekar grófan malarveg upp eina fjallshlíðina fór ég þó að efast. Ég þurfti að keyra mjög rólega og þegar ég keyrði framhjá stað þar sem hrunið var úr veginum inn að miðju var ég eiginlega alveg viss um að eitthvað væri ekki eins og það átti að vera. Ég stoppaði því á næsta hentuga staði og skoðaði málið. 

Ég var með kort í símanum sem ég setti inn áfangastað og bað um leiðarlýsingu. Appið gat ekki gefið leiðina frá þeim stað sem ég var á heldur teiknaði bara beina línu inn á næsta veg sem það þekkti. Ég þóttist þó sjá á þessu að það væri fljótlega fyrir mig að halda áfram en að fara til baka, svo ég hélt áfram. 

Það reyndist vera rétt, og ég var kominn á malbik fljótlega. Þetta tafði mig það mikið að myrkur var skollið á loksins þegar ég komst til Alausi. Þá get ég hakað við það box líka, að hjóla í myrkri 🤠. 

Næst á dagskrá að taka lestina um nef djöfulsins 😳😬 og fara svo til Cuenca.

Alausi - Cuenca

30. maí


Ég ætlaði mér að fara í ferð með þessari sögufrægu lést sem sikksakkar upp og niður snarbrattar fjallshlíðarnar (nef djöfulsins 😬) en svo var bara uppselt! Eftir á að hyggja sé ég eftir að hafa ekki reynt að sjarmera miða út úr konunni í miðasölunni 😎 og spila út því spili að vera kominn alla leið frá Íslandi. En hvað um það, á leiðinni til Cuenca er nefnilega Incapirca, en þar eru fornleifar frá tímum Inka sem mér finnast mjög áhugaverðar. Ég skellti mér því af stað þangað. Og áfram hélt fegurðin ... og beygjurnar og brekkurnar upp fjöll og niður í dali endalaust. Ef leið gærdagsins á heimsmet í beygjum, þá á þessi leið heimsmetið í U-beygjum 😳. Ég er hinsvegar farinn að venjast þessum ferðamáta og ná betri tökum á hjólinu svo ég finn að ég er að njóta þess þeir og meir að hjóla þetta 😎🏍️.  

Þegar ég kom til Incapirca borgaði ég 2 dollara sem ég hélt að væri aðgangseyrir að svæðinu og þessu fína safni sem er þarna. Nei ekki aldeilis. Ég var spurður á hvaða tungumáli ég vildi hafa leiðsögnina um svæðið! Og ég fékk sem sagt leiðsögn um svæðið á ensku ásamt nokkrum misáhugasömum Indverjum. Verðlagið hér er eitthvað sem maður gæti alveg vanist 😉. 



Eftir túr um þessa ótrúlegu mörg hundruð ára gömlu sögu hélt ég ferð minni áfram til Cuenca.


Það er nú ekki hægt að sleppa því að tala um samskiptin sem Ekvadorar hafa sín í milli í umferðinni. Það eru endalaus "smá" flaut sem ganga á milli. Og af því ég er nú nýbúinn að tala mótorhjólapróf veit ég að það er bannað að flauta nema að um neyð sé að ræða. Ekki í Ekvador. Í túrnum í Baños flautaði bílstjórinn allavega svona 200 sinnum!

En ég komst sem sagt á hótelið í Cuenca í fyrstu tilraun, þó appið og síminn væru ekki sammála á tímabili. Þá kom að því að leggja hjólinu á öruggum stað, og starfsmaður á hótelinu vissi um bílastæði. Hann skyldi bara koma MEÐ MÉR ... Á HJÓLINU! Ég kunni nú ekki við að segja honum að ég hefði aldrei haft farþega áður, svo þarna var tilraunadýr komið í þann lærdóm 😬😜. Það gekk nú bara betur er ég þorði að vona, allavega var hann ennþá vinur minn eftir ferðalagið 🤠. Eftir að ég hafði komið mér fyrir fór ég á röltið um þessa fallegu borg

Nú er ég kominn á síðasta stopp áður en ég kem til Matta. Ég er búinn að ferðast hér í þrjá daga og mér sýnist ég ekki hafa farið undir 1800 metra yfir sjávarmál. Ég byrjaði í 2560 mys. í höfuðborginni, Baños er í 1820 mys., Alausi í 2285 mys. og Cuenca í 2560 mys. Maður finnur líka fyrir því að burðast með töskurnar upp og niður stíga að maður mæðist miklu fyrr en maður er vanur. Og svo verður vel svalt á kvöldin og í þokunni.


Á morgun er það lokaáfanginn til Matta. (vonandi kemst ég yfir hengibrúnna á hjólinu 😐)

Cuenca - Cualaceo

31. maí

Þá er það ferðin til Matta á dagskrá í dag. Samkvæmt appinu er áætlunin um 3 og hálfur tími, og það hefur verið nærri lagi fram að þessu. Þegar ég sló áfangastaðinn hinsvegar inn í GPS-inn kom upp 7 tíma ferðalag í allt aðra átt! Ég ákvað því að treysta appinu að þessu sinni, enda miklu fljótlegri leið😁. Ég lagði af stað með GPS-inn í gangi líka. Enda hafa þessi tól stundum verið ósammála um tíma en sammælst svo um rétta leið á endanum. Ég var reyndar fljótlega farinn að vorkenna greyið konunni í GPS-inum að vera alltaf að endurreikna leiðina og biðja mig um að snúa við🤪. En leiðin sem appið fór með mig var frekar skrítin. Ég var búinn að stilla appið á að vísa mér fljótlegustu leið og forðast malarvegi. Engu að síður leiddi það mig inn á malarveg sem var allt annað en fljótfarinn. Ég sá þá líka eftir að hafa ekki tekið bensín á síðustu bensínstöð. Þar var svo löng röð þar að ég ætlaði bara að taka bensín á næstu bensínstöð. Líklega var þessi röð þó vegna þess að þetta var síðasta stöðin í langan tíma 😬. Ég var þó kominn það langt frá henni að mér fannst ekki verjandi að snúa við. Ég vonaði líka að skiltið sem ég sá á leiðinni sem sagði 95km eitthvað, ætti ekki við vegalengd í næstu bensínstöð.


Var eðlilegt að fljótlegasta leiðin væri um malarveg sem var svo lélegur að minnti á holótta veginn á Vatnsnesi og með svo kröppum beygjum að hægja þurfti á niður í 20? Ég var ekki alveg á því. Eftir að hafa keyrt í ca. 1 og 1/2 tíma kom ég að stað þar sem vegurinn krossaði malbikaðan veg, og þar var sjoppa stutt frá. Þessi mynd er tekin þar í áttina sem appið sagði mér að fara og hún stefnir beint upp í hæðina á samskonar malarvegi og ég hafði verið á undanfarið.. 



Ég talaði við mann við þessa soppu sem sagði mér að leiðin til Gualaquiza (sem er stutt frá Fruithaven) væri eftir malbikað veginum. Hmm og GPS-inn sagði það sama. Og ég get svo svarið að það var kominn annar lokatími á hann líka. Þannig að nú gerði ég ráð fyrir að GPS-inn væri búinn að ná áttum (😕) og skipti yfir á hann. Ég spurði manninn hvort það væri bensínstöð einhverstaðar á næstunni. Mér skildist hann segja að það væri hægt að fá bensín í næstu búð sem væri ekki svo langt frá. Þar kannaðist stúlkan ekkert við að vera með bensín. Sagði að næsta bensínstöð væri eftir ca. klukkutíma 🥶. Það var ekki um annað að ræða en að halda áfram og taka því sem vera vill. Ég fór þó meðvitað að keyra einhverskonar sparakstur eftir þetta, því ég átti allt eins von á að verða bensínlaus á hverri stundu, enda sögðu þeir á leigunni að fullur tankur dygði í ca. 300km og ég var ekki viss um hvað ég var kominn langt á þessum tanki. Það var þó allt annað líf að geta keyrt á þokkalegum hraða. Og viti menn, birtist ekki bensínstöð! Og miðað við það sem fór á tankinn var alveg gallon á honum, sem hefði dugað í klukkutíma í viðbót.

Eftir um hálftíma akstur fóru að renna á mig tvær grímur. GPS-inn og appið voru ósammála á krítískum tímum og tími á áfangastað var aftur orðinn miklu lengri á GPS-inum! Ég stoppaði því á næstu bensínstöð til að skoða málið. Þá kom í ljós að ég var kominn langleiðina til baka til Cuenca (WTF! 😠), og að GPS-inn var í ruglinu. Ég hafði því samband við mótorhjólaleiguna og spurðist fyrir um þetta. Hann sagði að það væri líklega tími kominn á að uppfæra kortið í GPS-inum (uuu JÁ) 🙃, en að ég skyldi setja inn annan bæ sem væri nær, Cualaceo. Þeir myndu svo fylgjast með mér í rauntíma (já þeir eru að trakka mig). Ég setti bæinn inn í appið og fékk þá upp allt aðra leið. Svo ég lagði í hann. Ég myndi ná til Matta fyrir kvöldið ef allt gengi eftir. En svo fór appið að leiða mig á skrítnar slóðir enn og aftur. Og þegar ég var orðinn verulega efins um að ég væri á réttri leið, þá spurði ég lögreglumann við vegaeftirlit hvort ég væri á réttri leið að þessum bæ. Jú ef ég héldi áfram kæmi ég að skilti sem benti mér í átt að bænum. Ég kíkti líka á hvort leigan hefði sent mér skilaboð. Jú fyrir hálftíma: "Wrong turn" "Take a U-turn". Jæja ég hélt áfram og ég veit ekki hvað appinu gengur til en ég fór sem sagt þarna yfir einn óþarfa fjallveg fyrir utan þennan sveitaveg sem ég byrjaði á að fara. Lærdómurinn er sá að ég hefði átt að setja bæinn í GPS-inn. Hann hefði líklega valið réttu leiðina. En ég komst loksins í þennan blessaða bæ en þá var klukkan orðin hálf sex og ljóst að ég kæmist aldrei til Matta fyrr en þónokkuð eftir myrkur. Og mér leist ekkert á það, ekki vitandi hvaða leið átti að fara, né hversu langan tíma það tæki og búinn að vera á ferðinni í 6 og 1/2 tíma nú þegar. Ég ákvað því að nóg væri komið af ævintýrum á einum degi og gista í Gualaceo og halda svo ferðinni áfram á morgun. Ég kemst þá vonandi til Matta. 


Þegar ég skoða þetta á korti eftir á sést að leiðin á milli Cuenca og Gualaceo örstutt! Lærdómurinn af þessu er að fara yfir leiðina á korti og setja fara yfir leiðina sem leiðsögukerfið stillir upp áður en lagt er af stað. Ef á þarf að halda er betra að setja inn áfangastaði á leiðinni. Ef ég hefði t.d. Sett Gualaceo inn sem áfangastað á leiðinni, hefðu bæði GPS-inn og appið gefið upp aðra leið og ég að öllum líkindum komist til Matta eins og ég hafði ætlað.

Þegara ég hafði fundið gistingu og komið mér fyrir á hótelinu fékk ég mér göngutúr um bæinn og tók nokkrar myndir.


Gualaceo - Fruithaven

1. júní

Ekki tókst að komast til Matta í gær svo nú er það taka tvö. Ég lagði af stað eftir að hafa fengið mér ávaxtasalat í morgunmat í tilefni þess að vera að fara til Fruithaven. Þegar ég var að fara sá ég hvar búið var að stilla upp svíni í heilu lagi sem verið var að svíða, og vinna. Þetta sér maður víða og m.a. meðfram vegum. Ég er hræddur um að heilbrigðiseftirlitið heima segði eitthvað ef það sæi boðið upp kjöt af svona svínsskrokkum meðfram þjóðveginum þar sem vörubílar þyrla yfir þá ryki og annarri mengun! Ekki kræsilegt!


En nú var stefnan tekin á bæinn Sigsig sem fyrsta skref í áttina að Fruithaven og leiðsögukerfin voru sammála, enda gekk allt vel þangað. Þar stoppaði ég og kíkti þar á markaðinn, en flestir bæir virðast hafa markaðshús þar sem bændur selja sína ávexti, fisk og kjöt. Þarna voru veitingabásar á efri hæðinni þar sem einmitt var boðið upp á þennan þjóðarrétt þeirra Ekvadora, svín með heilsteiktri puru. Ég gat því ekki annað en prófað og þetta var bara ljómandi gott.😁, 


Þjóðarréttur Ecvadora

Ég hélt svo áfram ferð minni, og er alveg farin að skilja af hverju GPS-inn reyndi að koma mér hjá því að keyra þessa leið. Endalaust upp og niður fjallshlíðar og á meðan það má hrósa þeim fyrir að malbika þetta allt, þá vantar að mestu merkingar þegar vegaskemdir eru framundan. Því nóg var að þeim, og svolítið óþægilegt að lenda í slæmri vegaskemd handan við næstu beygju án fyrirvara. En það er kannski það sem allar þessar 30km hraðatakmarkanir eiga að segja😜. 

Ég komst svo loksins á leiðarenda og þarna beið Matti minn við hengibrúnna yfir þetta mikla fljót sem er þarna. Það voru fagnaðarfundir. Svo fórum við að spá í hvort hægt væri að koma hjólinu þarna yfir. Það var allavega ljóst að það yrði að taka hliðartöskurnar af, því brúin var ekki nógu breið. Við byrjuðum því á að fara yfir með töskurnar, og hinum megin var þónokkur aðkoman nokkuð kröpp og sleipur moldarstígur þar að auki. Ég taldi brúna ráða vel við þyngdina á hjólinu, en mér fannst handriðin heldur ræfilsleg. Og svo var aðkoman þannig að ég treysti mér ekki til að keyra hjólið upp á. Þannig að ég ákvað að sjálfsögðu að láta vaða😬😳. Ég yrði bara að passa að detta ekki á brúnni. Og upp á brúnna fór hjólið með aðstoð góðra manna, og yfir fór hjólið 😎 en keyrslan upp hallann á þessum blauta og hála moldarstíg var skrautleg svo ekki sé meira sagt, og þegar ég kom að hálfgerðu drullusvaði ákvað ég að fara ekki lengra með hjólið. En ég komst að lokum í Fruithaven. Matti sýndi mér svæðið og húsið. Á morgun ætlum við að fara á ávaxamarkaði í næstu bæjum og kaupa sitt lítið af hverju sem hann ætlar að kynna fyrir mér.

Annar Kafli

Þriðji Kafli