Í sumar var undirritaður í hóp með tíu öðrum í skemmtiferð á mótorhjóli um sveit á Vesturlandi þar sem sá sem kunnugastur var leiddi hópinn, stoppaði reglulega og sagði sögur. Það vakti athygli mína að á einum stað var skilti sem varaði við gangandi umferð, en að sögn fararstjóra fór þessi bær í eyði fyrir mörgum árum, en á öðrum stað voru útihús og íbúðarhús beggja vegna við veg og ekkert skilti sem varaði við að þar væri mögulega fólk á ferð, en þar lá hundur í leyni og stökk fram í átt að okkur og gelti.
Akstur okkar var í alla staði til fyrirmyndar (vorum að njóta en ekki þjóta), en þrátt fyrir lítinn hraða og einstaklega lágvær mótorhjól fældust tvö hross mótorhjólin við þennan bæ sem hundurinn hrekkjótti var á. Ástæðan var einföld, hestunum var beitt í vegkantinn og einn lítill rafmagnsstrengur átti að halda þeim frá veginum. Annað hrossið fældist og byrjaði að hlaupa og samkvæmt eðli hesta hljóp hitt hrossið líka stefnulaust í gegnum girðingu, yfir grindahlið og hvarf sjónum okkar (sennilega bæði skelfingu lostin yfir þessum 11 mótormerum sem þau höfðu sennilega aldrei áður séð).
Ekki gera allir sér grein fyrir hættunni að beita hestum í vegkanta
Lagalega hliðin og hlutverk lögreglu
Í áðurnefndri grein var leitað álits lögfræðings Bændasamtakanna, Elíasar Blöndal Guðjónssonar, en hann vildi beina þeim tilmælum til bænda að athuga tryggingarstöðu sína vegna skaðabótaskyldu sem gæti hlotist af vegkantabeit. Einnig athugaði ég hvort lögreglan væri upplýst um að þetta mætti ekki og hafði samband við tvo lögreglumenn sem báðir hafa starfað í fleiri en einu umdæmi. Annar þeirra hafði vegna vinnu sinnar komið að svona kvörtun þar sem hestum var beitt í vegkant. Hann kynnti sér lög og reglur um skepnur við vegi og eftir þann lestur var hans skilningur að hestar yrðu að vera a.m.k. 15 metra frá vegi og í framhaldi lét hann viðkomandi færa girðingu samkvæmt því. Hinn lögreglumaðurinn hafði ekki komið að neinu svona máli og vildi sem minnst tjá sig um þetta mál.Var lögreglan óafvitandi að láta hafa sig af fíflum?
Bændablaðið 17.tbl.2020