1.9.20

Herrafatahópkeyrslan verður einmana í ár


Sunnudaginn 27. september mun hin árlega Herrafatahópkeyrsla fara fram, en með talsvert öðru sniði en áður. Til þess að hægt verði að halda hana og safna áfram áheitum hefur verið ákveðið að hún verði með svokölluðu sólósniði. Hvatt er til þess að fólk klæði sig upp í sitt fínasta púss og aki gljáfægðum fákum sínum þennan dag um götur borgarinnar, eitt síns liðs.


Vegna ástandsins í heiminum í dag er hvatt til þess að fólk hjóli einsamalt og með lokaðan hjálm í ár,“ segir Sigmundur Traustason, einn skipuleggjenda The Distinguished Gentelman’s Ride á Íslandi. „Þó ástandið sé eins og það er mega þessi málefni sem DGR stendur fyrir ekki gleymast, sem eru krabbamein í blöðruhálskirtli í körlum og geðheilsa,“ sagði Sigmundur enn fremur og minnti á að ástandið væri líklega verra í ár þegar kemur að sjálfsvígum. „Þá er besta lækningin að fara út á mótorhjólinu sínu og aðstoða aðra með því að taka þátt og gefa til málefnisins,“ sagði Sigmundur að lokum.