Þýska ríkisstjórnin fjallar þessa dagana um aðgerðir sem ætlað er að brjóta hávær mótorhjól á bak aftur. Verður akstur þeirra meðal annars alfarið bannaður á tilteknum dögum.
Allt er þetta liður í tilraunum þýskra stjórnvalda til að vinna á hljóðmengun. Í þessu skyni verður svonefndum hljóðmyndavélum beitt um land allt.
Ætlunin er einnig að banna akstur venjulegra mótorhjóla á tilteknum svæðum á sunnudögum og öðrum almennum frídögum. Verður þessa daga einungis leyfð notkun vélknúinna fáka sem ganga fyrir rafmagni.
Þá áformar stjórnin í Berlín að veita lögreglu heimild til upptöku mótorhjóla ef um gróft brot er að ræða með hávaða þeirra. Einnig að lögreglumenn fái heimild til að sekta knapa fyrir óþurftarmikinn hávaða.
Búist er við að þýska þingið samþykki frumvarp um þetta efni í mánuðinum.
Til viðbótar þessu ætla Þjóðverjar að breyta lögum um framleiðslu mótorhjóla á þann veg að leyft verði að hámarki að smíða hjól sem 80 desíbela eða minni hávaði stafar frá. Hefði það í för með sér mun hljóðlátari hjól en nú eru smíðuð. agas@mbl.is
Morgunblaðið | 28.5.2020