28.6.20

Tveir létust í umferðarslysi


Tveir létust í árekstri bifhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi í dag. Þeir sem létust voru báðir á bifhjólinu, ökumaður og farþegi. Ökumaður annars bifhjóls sem kom aðvífandi missti stjórn á hjóli sínu og féll af því. Hann var fluttur á Landspítalann til aðhlynningar og er líðan hans eftir atvikum, samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.


Umferðarslysið varð rétt eftir klukkan þrjú í dag. Tilkynning barst yfirvöldum klukkan þrettán mínútur yfir þrjú. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Í samtali fréttastofu við lögreglu fyrr í dag kom fram að ekki væri grunur um hraðakstur. Nýlagt malbik er á veginum þar sem slysið var og var það mjög hált í dag.

Lögregla og slökkvilið brugðust skjótt við og var streymdu lögreglubílar, sjúkrabílar og slökkviliðsbílar á vettvang. Vesturlandsvegi var lokað frá því skömmu eftir slys þar til klukkan var langt gengið í sjö meðan unnið var á vettvangi. Mikið umferðaröngþveiti var þar sem straumur fólks lá um þetta svæði. Á tímabili komust bílar vart áfram frá Mosfellsbæ alla leið norður fyrir álverið í Grundartanga, þrátt fyrir að fjöldi fólks færi hjáleið.
RUV
28.06.2020