Hingað til hefur Raoyal Enfield aðeins framleitt gamaldags eins strokks mótorhjól en á því kann að verða breyting innan skamms |
Hið fornfræga mótorhjólamerki Royal Enfield mun setja þrjú ný módel á markað á næsta ári segir í grein á mótorhjólavefsíðunni Visordown, en þar er vitnað í heimildarmann innan umboðsins í Bretlandi.
Hjólin þrjú munu nota nýjar vélar sem eru í þróun í augnablikinu. Hingað til hefur framleiðandinn indverski aðeins framleitt eins strokks vélar af gamaldags gerð, og þá einnig dísilvél en nýju vélarnar eru nýtískulegar og er önnur þeirra tveggja strokka línuvél. „Önnur vélin er 410 rsm, eins strokks vél með yfirliggjandi knastásum og hin er tveggja strokka línuvél,“ sagði heimildarmaðurinn en vildi þó ekki láta uppi hversu stór línuvélin yrði. Mótorhjólið með 410 rsm vélinni verður svokallað Scrambler-hjól sem er vinsæl útgáfa í dag. Í síðustu viku sótti Royal Enfield um einkaleyfi á nafninu Himalayan fyrir mótorhjól sem gefur vísbendingu um að tveggja strokka hjólið sé ferðatorfæruhjól sem keppa mun við hjól eins og BMW F700GS og Triumph 800 Tiger. Forstjóri Royal Enfield, Siddhartha Lal, hefur látið hafa eftir sér að merkið ætli að auka framleiðslu sína um 50% á næstu árum, meðal annars með því að opna þróunarsetur í Leicestershire í Bretlandi. Að sögn heimildarmannsins munu nýju hjólin meðal annars vera hönnuð þar. Royal Enfield hefur náð til sín stórum nöfnum í mótorhjólaheiminum til að hjálpa sér að ná þessu marki, eins og fyrrverandi aðalhönnuði Ducati Pierre Terblanche og þróunarstjóra Triumph Simon Warburton.
mbl.is
4.3.2015
4.3.2015
njall@mbl.is