17.12.19

Með mótorhjóladellu á miðjum aldri


 Ásdís Rósa Baldursdóttir, fyrrverandi stærðfræðikennari í Verslunarskóla Íslands og eiginmaður hennar Kristján Gíslason, f.v. framkvæmdastjóri Radiomiðunar, eru komin á miðjan aldur og hafa ferðast um allan heim á mótorhjóli. Það er óneitanlega óvenjulegt en saga þeirra er ekki ólík annarra þangað til miðjum aldri var náð. Þá tóku Ásdís og Kristján U beygju í lífinu.



Lítið fjölskyldufyrirtæki stækkaði……

Faðir Ásdísar, ásamt fleirum, stofnaði fyrirtækið sem Kristján tók síðan við stjórnartaumunum í. Það var alla tíð fjölskyldufyrirtæki þar sem faðir hennar var rafeindavirki, bróðir hans var á skrifstofunni og seinna fengu þeir skrifstofudömu til liðs við sig. Í 30 ár var fyrirtækið því lítið þriggja manna fyrirtæki. “Kristján, sem hafði starfað áður í tölvugeiranum, var ungur og ferskur með nýjar hugmyndir og fullur metnaðar,” segir Ásdís. “Hann tók við góðu búi og gat byrjað á að stækka og breyta og færa fyrirtækið nær nútímanum og á nokkrum árum hafði starfsmönnum fjölgaði úr þremur í nokkra tugi. Því fylgdi auðvitað aukin ábyrgð en líka áhyggjur og svefnlausar nætur. Á þessum tíma var mikið vinnuálag á Kristjáni en nú er hann að uppskera,” segir Ásdís.

Ákváðu að lifa lífinu lifandi

Þau Ásdís og Kristján hafa stýrt lífi sínu mjög markvisst allt frá því að þau gerðu sér grein fyrir því að þriðja aldursskeiðið væri hafið og tóku ákvörðun um að lifa því eins lifandi og kostur væri. Þau hafa verið heppin með heilsuna og hafa, eftir langa vinnuævi, borið gæfu til að vera fjárhagslega vel sett.

Þau eiga þrjú börn og vörðu fríum sínum eins og gengur og gerist á meðan börnin voru ung. Ferðuðust innanlands, fóru í skíðaferðir og
hefðbundnar sumarleyfisferðir. En á miðjum aldri opnaðist nýr heimur fyrir þeim, börnin voru farin að heiman og Ásdís og Kristján voru svo heppin að hafa ráð á að láta drauma rætast.

“Á ákveðnum tímapunkti fór Kristján að vinna markvisst að því að koma sér út úr skuldbindingum sem fylgdu rerkstri fyrirtækisins og setu í stjórn annarra fyrirtækja til að skapa sér og okkur meiri tíma og meira frelsi. Fyrirtækið, sem hafði þá sameinast öðrum, var svo endanlega selt 2006, rétt fyrir hrun og þó að hrunið hafi auðvitað haft áhrif á okkur eins og flest alla þá vorum við heppin því við höfðum dreift fjárfestingum okkar og tókum aldrei lán til hlutabréfakaupa eða annars slíks. Reyndar unnum við fyrstu árin mjög markvisst að því að greiða upp skuldir og ég man alltaf eftir þeirri stundu þegar við greiddum upp lánið sem hvíldi á húsinu okkar. Það var stór stund.” Kristján hætti formlegri vinnu 2006, þá aðeins fimmtugur.

Þurfti að hætta að spila golf

Ásdís segir Kristján alltaf hafa haft nóg fyrir stafni, enda athafnasamur maður, en hún var ekki tilbúin að hætta að vinna fyrr en á síðasta ári og tók af skarið í fyrra eftir að hafa kennt við Verslunarskólann í 40 ár, þá aðeins sextug. Þau höfðu bæði lagt stund á golf í mörg ár og Ásdís segir að golfið hafi heltekið Kristján um tíma og hann hafi farið niður fyrir 10 í forgjöf en hún hafi meira verið að dingla með en hefur alltaf haft gaman af að spila. Örlögin höguðu því síðan þannig að gamalt brjósklos varð til þess að Kristján tók ákvörðun um að hætta að spila golfi frekar en að bryðja verkjalyf og fást við brjósklosið öðruvísi. En Ásdís segir að þá hafi komið svolítið tómarúm af því félagsskapurinn í golfinu sé svo mikill og Kristján hafi saknað hans. Hann þurfti því að finna sér annað áhugamál og fyrir tilviljun bauð vinur hans, Guðmundur Ragnarsson, formaður BMW mótorhjólaklúbbsins á Íslandi, Kristjáni að fara í 5 daga ferð um Vestfirði með klúbbnum. Þetta var fyrir sex árum og sú ferð dugði til þess að mótorhjólaástríðan heltók hann og nú er Kristján búinn að fara hringferð um hnöttinn á mótorhjóli sínu. “Við bjuggum um tíma í Sevilla á Spáni og það var þar sem Kristján plataði mig í dagsferð með sér á hjólinu og það dugði til að ég fékk delluna líka,” segir Ásdís og brosir. Svo nú ferðast hjónin meira og minna um allan heim á mótorhjóli og nú er það orðið þannig að Ásdís á JAFNVEL oftar frumkvæðið að því að fara í hjólaferð.

Byrjunin á ferðalagaáráttunni

Ásdís og Kristján fóru 2011 til Suður Ameríku í þriggja mánaða ferðalag en þau langaði á þessum tímapunkti að upplifa ný ævintýri. Í suður Ameríku ferðuðust þau á hefðbundinn hátt með flugvélum, lestum og bílaleigubílum á milli sex landa. “Í  þeirri ferð opnuðust augu okkar virkilega fyrir því hversu áhugavert er að kynnast nýjum slóðum og framandi menningarheimum,” segir Ásdís. “Og þá var ekki aftur snúið. Þetta var algerlega stórkostleg ferð. Síðan höfum við farið víða, m.a. til Asíu, Víetnam, Kambódíu og Laos og alltaf komum við jafn heilluð heim.

Ein fyrsta langa ferðin okkar á mótorhjólinu var til Marrocco árið 2016. Við höfðum komið þangað áður en fannst við upplifa töfra landsins og menningu mun sterkar þegar ferðamátinn var mótorhjól. Í fyrra fórum við svo í þriggja mánaða ferðalag til Nýja Sjálands og Ástralíu og ætluðum upphaflega að vera í þrjár vikur á mótorhjóli í Nýja Sjálandi en urðum svo heilluð af landi og þjóð að við enduðum með að vera þar í sjö vikur. Frelsið að geta breytt plönum sínum fyrirvaralaust er ómetanlegt og það er ekki hægt ef vinnan bíður heima”, segir Ásdís hæstánægð með að vera hætt að vinna.

Snemma í vor fórum við svo þvert yfir Bandaríkin á mótorhjólinu. Við vorum í því ferðalagi í sex vikur og fórum í gegnum 18 ríki. Hitastigið var mjög breytilegt, frá 3 gráðum upp í 33. En þarna fengum við frábæra innsýn inn í mismunandi menningu og staðhætti í þessu stóra landi sem Ameríka er,” segir Ásdís,

Einfaldara líf betra líf

Ásdís segir að margir velti fyrir sér kostnaðinum við slík ferðalög en staðreyndin sé sú að með tímanum hafi þau einfaldað líf sitt samfara þessum breyttu lífsháttum á ferðalögunum og kunni nú að meta heimagistingar og aðra einfalda og ódýra gistingu betur en dýr hótel. Það sé hluti af því að komast nær menningu staðanna. “Svo inn á milli finnst okkur gaman og gott að gera vel við okkur og veita okkur smá lúxus og þá helst ef við stoppum um einhvern tíma á fallegum stöðum.”

Góð heilsa alger forsenda


Nokkur atriði eru forsenda þess að hægt sé að njóta lífsins á þann hátt sem þau Ásdís og Kristján gera. Ásdís nefnir heilsuna númer eitt og þar á eftir sé auðvitað góður fjárhagur. “Ég þekki fólk sem hafði mjög gaman af að ferðast en hefur nú misst kjarkinn og jafnvel löngunina,” segir Ásdís. “Við viljum nota tímann áður en það hugsanlega kemur fyrir okkur,” segir hún en bætir við að hún eigi nú eiginlega ekki von á að til þess komið með þau.

“Við erum oft spurð að því hvort við séum ekki hrædd á þessum ferðalögum. Við reynum auðvitað að vera skynsöm en erum búin að komast að því að allvíðast er að finna gott fólk. Aðstæður geta auðvitað verið þannig að ekki er ráðlegt að fara um ákveðin svæði og þá gildir að vera skynsamur. Kristján breytti til dæmis upphaflegum ferðaplönum sínum þegar hann fór á hjólinu í kringum hnöttinn og fór aldrei í gegnum Pakistan af því að þá var ástandið þar mjög viðsjárvert. Þetta var 2014 – ´15 en fyrst var ætlunin að Kristján slægist í hópinn með þremur öðrum sem voru búnir að ætla sér að fara slíka ferð. En þegar til kom fóru hinir aldrei svo hann fór bara einn. Enda er það meira en að segja það að fara slíka ferð. Kristján var í átta mánuði að undirbúa ferðina sem tók svo tíu mánuði þegar hann komst loksins af stað.”

Höfum verið heppin með heilsuna

Ásdís segir að líklega séu þau heppin með heilsuna til að byrja með. Þau hafi alla tíð verið í einhverri líkamsrækt en forðast allar ýkjur í því sambandi. Hún stundi einhverja líkamsrækt þrisvar í viku, gangi töluvert á fjöll, stundi skíðagöngu á veturna og ferðist um á rafhjóli en Kristján hafi haft fyrir sið að synda einn kílómetra á hverjum degi í mög ár og látið það duga. Sameiginlega fjölskyldusportið okkar hefur svo alla tíð verið skíðamennska, ég læt mér duga svigskíðin en Kristján er jafnvígur á þau og snjóbretti. Golfið hafi líka gert sitt. Varðandi mataræði segir Ásdís að þau aðhyllist regluna í því eins og mörgu öðru að meðalhóf sé best, hvort sem sé í mat, drykk eða þjálfun.

Fór til Moskvu á mótorhjólinu

Kristján hét því að ef strákarnir kæmust á HM skyldi hann fara á mótorhjólinu sínu að sjá þá og hann stóð við það. “Kristján er mikill prisipp maður og það kom aldrei annað til greina en að standa við Moskvuferðina fyrst strákarnir náðu þessum frábæra árangri. Hann fór með hjólið með Norrænu til Danmerkur, hjólaði þaðan í gegnum Þýskaland og til Póllands þar sem við hittumst. Þar hoppaði ég á hjólið og við hjóluðum í gegnum Pólland og Eystrasaltslöndin og sáum svo leikinn í Moskvu sem var ólýsanleg skemmtun,” segir Ásdís.

Áskorun að pakka létt

Það eru ekki nema sex ár síðan Kristján kynntist mótorhjólasportinu og tvö ár síðan Ásdís ánetjaðist og dellan minnkar ekkert. Þetta segir Ásdís að sé sportið sem hana langi til að stunda eins lengi og heilsan leyfi en það komi auðvitað að því að þetta sport sé ekki ráðlegt lengur. Þau eru núna á sportlegu ferðahjóli en það séu til hjól með meiri lúxus og hún sjái þau fyrir sér á einu slíku þegar þau eru orðin áttræð og þá segir hún hlæjandi að hún muni kannski sitja í hliðarvagninum með flaksandi hálsklút.

Ásdís segir að það hafi komið sér á óvart hversu lítinn farangur hægt er að komast af með á ferðalögum. “Það er ekkert um að ræða að vera með skó og belti í stíl á mótorhjóli,” segir hún. “Einar leggings og einar buxur og nokkrir bolir duga. Í því felst  mikið frelsi,” segir þessi kona sem lætur aldurinn ekki stoppa sig í að upplifa ný ævintýri.

6.7.2018