Við háskólann í Nottingham í Englandi hefur verið þróað rafmótorhjól sem sett hefur hraðamet fyrir farartæki af því tagi.
Náði hjólið 315 km/klst hraða við hraðaprófanir á Elvington flugvellinum við York um síðustu helgi. Við það féllu fimm hraðamet í einu vetfangi.
Knapi að nafni Zef Eisenberg var undir stýri en hann keppir fyrir MadMax kappakstursliðið í Manarmótum ásamt Daley nokkrum Mathison. Sá síðarnefndi ók hjólinu þrisvar sinnum til verðlaunasætis í TT-mótum 2016 til 2018, en hann beið bana við TT-mótshelgina síðastliðið sumar.
Liðsmönnum MadMax tókst að bæta rafafl litíumrafhlaða hjólsins fyrir metaksturinn nýliðna. Hafði Eisenberg því úr um 255 hestöflum að spila.
Meðal meta sem hann setti var 315 km/klst hámarkshraði og 296 km fljúgandi kílómeter. Hefur hann sett rúmlega 50 met á keppnisferlinum á mótorhjólum.
mbl | 27.9.2019 | 13:40