4.6.87

Bifhjólið Tákn frelsisins (1987)

„Born to be wild, frelsisfílíngurinn, það er tilfinningin við það að ferðast um úti á vegunum á mótorhjóli. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni betur," segir Ragnar Ísaksson mótorhjólaeigandi og meðlimur númer einn, tveir og þrír (123) í Sniglunum, Bifhjólasamtökum Lýðveldisins um það að ferðast á mótorhjóli.

Ferðalög eru óaðskiljanlegur hluti af mótorhjólamenningu Sniglanna. Yfir sumarmánuðina fara félagar reglulega í ferðir út á land og stundum er farið í skipulagðar ferðir erlendis. „Eftir því sem hópurinn er stærri þeim mun skemmtilegra," sagði Ragnar og hann lýsir því hvaða reglur eru
venjulega viðhafnar úti á vegunum. Ekið er í einfaldri röð og ákveðið bil er haft á milli hjólanna á malarvegunum til þess að forðast steinkastið. Ragnar segir að úr lofti minni hópurinn á slöngu sem liðist áfram.
Um miðjan júní eru um 20 Sniglar að fara á mótorhjólamót í Noregi, á stað sem heitir Sandnes rétt fyrir utan Osló. Sniglunum er sérstaklega boðið á mótið af samtökunum sem standa fyrir því, en félagar þaðan voru á ferð á Íslandi í fyrra og höfðu að sjálfsögðu samband við systrasamtökin  Sniglana. Að sögn Ragnars er tilgangurinn með mótorhjólamótunum fyrst og fremst sá að hitta aðra hjólamenn, skoða hjól og skemmta sér.  Keppa í öllu mögulegu og ómögulegu, hlusta á tónlist o.s.frv. Hinn hlutinn af ánægjunni er síðan ferðalagið sjálft.
Sniglarnir ætla að leggja í hann þann 9. júní frá Reykjavík og fara á tveimur dögum til Seyðisfjarðar þar sem þeir taka Norrænu til Danmerkur. „Við fáum ferðina á mjög góðum kjörum og erum mjög þakklátir starfsfólkinu á Ferðaskrifstofu ríkisins fyrir frábæra fyrirgreiðslu og þjónustu í þessu sambandi," segir Ragnar og leggur mikla áherslu á þessi orð. Í Kaupmannahöfn dvelja Sniglarnir í tvær nætur, en þar bætast Kaupmannahafnarsniglar í hópinn og Helga herforingi bætist í lestina í Sviþjóð. Þann 18. júní kemur hópurinn á leiðarenda og mótast yfir helgina. Út til íslands er síðan farið frá Bergen og frá Seyðisfirði liggur leiðin í Húnaver þar sem Sniglarnir halda sitt eigið landsmót dagana 26. til 28. júní, það fyrsta og örugglega ekki það síðasta, segir Ragnar og bætir því við að æ fleiri kjósi mótorhjól sem farartæki framyfir bíla. Hópurinn fari því alltaf stækkandi. „En eitt megintakmark okkar í Sniglunum er að koma öllum landsmönnum á bifhjól'. 
Hafið þið trú á því að það takist? 

„Já." Viljum viðurkenningu.
Hvaða önnur markmið hafa bifhjólasamtök lýðveldisins? „Við viljum að umferðin samþykki mótorhjól sem farartæki. Þegar tollarnir voru lækkaðir á bílum í fyrra varð engin tollalækkun á bifhjólum. Þetta er auðvitað fjarstæða. Bifhjól eru ekki eins orkufrek og bílar og það
ætti því að vera þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir aki bifhjólum. Úti á vegunum viljum við líka fá viðurkenningu. Það er mikið svínað á okkur og þar eru strætisvagnarnir verstir.
     Annað: Við viljum að fólk læri að bera virðingu fyrir hjólunum. Hætti að pota í þau í tíma og ótíma og skoði þau frekar  með augunum. Fólk skilur ekki hvaða afstöðu við höfum til hjólanna. Þau eru mörgum okkar allt. Við viljum að fólk sýni þeim virðingu og okkur í leiðinni". Hvaða hjól eru algengust í ykkar röðum? „Japönsku hjólin".
Blundar ekki draumurinn um Harley Davidson í ykkur öllum? „Jú það er draumur margra. Annars er ameríski flíngurinn ekkert sérstaklega sterkur hér á landi. Þar eru þeir flestir í reisurunum". Reisurunum? „Já, þar er aðalmálið að hjólið komist mjög hratt og hafi snöggt upptak. Tjopperhjólin eru að verða miklu vinsælli hér. Þau eru ekki eins hröð en eru með meira tork".
Tork?
„Það þýðir að hægt er t.d. að vera í fimmta gír á 30 km hraða. Það þarf ekki að skipta eins oft niður og á hinum hjólunum. Þau hafa það fram yfir hin að það er hægt að krúsa á þeim og aka um
bæinn með meiri stæl". Krúsa?  „Það er rólegheitakeyrsla." Inngjöf að eilífu Hvaða skilyrði þarf'að uppfylla tilþess að verða meðlimur í Sniglunum? Er nóg að eiga hjól? „Það er ekki einu sinni nauðsynlegt að eiga hjól. Ómar Ragnarsson er t.d. heiðursfélagi og hann á bara flugvél. Það er
nýbúið að breyta reglunum þannig að til þess að verða fullgildur meðlimur í Sniglunum þarf 13 Snigla til þess að gefa umsækjandanum meðmæli og fái hann þau er hann fyrst í samtökunum
til reynslu í 3 mánuði. Á þessum þrem mánuðum verður hann að sýna að hann sé virkur. Mæta
vikulega á fundi, koma með í ferðir o.s.frv. Við viljum koma í veg fyrir það að fólk gangi um
með Sniglamerkið á leðurjökkum sínum án þess að það hafi nokkuð með samtökin að gera. Þetta fólk getur t.d. komið óorði á okkur og það viljum við forðast. Við erum nefnilega virðuleg samtök inn við beinið". Meðlimir í Sniglunum eru hátt í þrjúhundruð og að sögn Ragnars er þetta „alls konar fólk".
Mest fólk úr verkalýðsstétt, en inná milli má t.d. finna tannlækna, lyfjafræðinga, nemendur og jafnvel fyrrverandi alþingismann, Árna Johnsen. „Flestir í samtökunum eiga  það sameiginlegt að lifa fyrir
hjólið og þannig fólk viljum við fyrst og fremst hafa í okkar samtökum," sagði Ragnar og fór að
lokum með Trúarjátningu samtakanna, en hún er gjarnan kyrjuð við upphaf ökuferða og á erfiðum andvökunóttum:

Ég trúi á bifhjólið, táknfrelsisins
Ég trúi á heilagt tvíeyki og manninn
Ég trúi á lífið og bensínið,
bremsurnar og dauðann og inngjöf að eilífu.

-K.Ól. 
  Þjóðvilinn 4.6.1987