27.4.19

Í frábærum félagsskap

Útsýnið er oft ótrúlega fallegt í
 hjólaferðum um landið.
  Rúmlega 70 manns skipa Chapter Iceland sem er félagsskapur Harley Davidson-mótorhjólaeigenda hér á landi. Félagslífið er afar fjölbreytt og skemmtilegt og við hæfi allra aldurshópa.

Chapter Iceland (CI) er íslenskur félagsskapur undir merkjum Harley Owners Group (H.O.G.) og nýtur stuðnings H.O.G. Europe. Félagar íslenska „Chaptersins“ eru rúmlega 70, bæði karlar og konur, á öllum aldri. „Reyndar væri gott að fá inn fleiri félaga í yngri kantinum. Það gerir yngra fólki kannski erfitt fyrir að Harley Davidson-hjól eru frekar dýr, en þau eru svo sannarlega þess virði,“ segir Bjarni Vestmann, formaður Chapter Iceland. „Félagsmenn taka nýjum félögum opnum örmum. Einu skilyrðin fyrir inngöngu eru að viðkomandi eigi Harley Davidson-mótorhjól og að hann eða hún sé félagi í alheimssamtökum HOG.“

Fjölbreytt dagskrá

CI fagnar tuttugu ára afmæli árið 2021 og verður því fagnað með ýmsum hætti að sögn Bjarna sem
segir félagsskapinn mjög virkan. „Við erum með aðstöðu í Nethyl 2D í Reykjavík. Þar hittist fólk 1. og 3. laugardag í mánuði seinni hluta vetrar og fram á vor. Þá hefst skipulagður hópakstur öll  fmmtudagskvöld en einnig förum við saman í lengri ferðir, til dæmis ætlum við að hjóla um Vestfirðina í lok júní. Ekki er nein skipulögð ferð til útlanda á þessu ári, en stefnt er að hópferð um Belgíu og jafnvel Norður-Frakkland í maí 2020. Sumir félaga okkar eru þó duglegri að ferðast, hvort sem er um Bandaríkin eða Evrópu, og deila þeir gjarnan myndum úr þeim ferðum til annarra félagsmanna.“

Árlegur góðgerðarakstur

Félagið skipuleggur einnig æfingaakstur til að halda félagsmönnum í góðu hjólaformi og boðið er upp á námskeið í fyrstu hjálp að sögn Bjarna. „Við heimsækjum líka viðburði annarra mótorhjólaklúbba auk þess sem haldnir eru sameiginlegir viðburðir þar sem við hjólum og grillum saman. Annar í hvítasunnu er mikilvægur dagur í dagskránni, en þá er mótorhjólamessa í  Digraneskirkju. Félagar ætla einnig að taka þátt í hópakstri sem Sniglarnir skipuleggja 1. maí en stærsti viðburðurinn á hverju ári er góðgerðarakstur á Menningarnótt. Þá býður Chapterinn akstur í miðborg Reykjavíkur frá Alþingishúsinu gegn greiðslu. Kostnað greiða félagarnir sjálfir en tekjur af
akstrinum renna óskiptar til Umhyggju – félags langveikra barna, og safnast yfirleitt um hálf milljón króna en í ár verður ekið í 19. skiptið. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa áhuga á að styðja framtakið, til dæmis með framlagi til að kaupa hjálma fyrir farþega, geta haft samband við formanninn.“


Fréttablaðið 
 27. APRÍL 2019




Áhugasamir geta kynnt sér starfsemina, skoðað dagskrá ársins, ljósmyndir, ökuleiðir og fleira á
heimasíðunni hog.is og á Facebook (HOG Chapter Iceland). Einnig er hægt að hafa samband
við formanninn, Bjarna Vestmann, gegnum tölvupóstinn bvestmann@gmail.com.