1.3.19

Skagstrendingurkaupir Gullvæng (1988)

„Flagghjól" Honduverksmiðjanna farskjóti ferðaglaðra húnvetnskra hjóna:

Dýrasta mótorhjól sem sést hefur á íslandi hefur nú verið leyst út úr tolli og keypt til Skagastrandar í
Austur-Húnavatnssýslu. Er það af gerðinni Honda GoldWing GL1500/6 og flutt nýtt inn af Honda umboðinu frá Frakklandi. Kostaði það um 915 þúsund krónur. Eigandinn, Hjörtur Guðbjartsson sjómaður, var staddur úti á sjó um borð í Örvari frá Skagaströnd, er Tíminn náði sambandi við hann.
Sagðist hann vera ánægður með hjólið sitt nýja og hugði gott til glóðarinnar að ferðast í fríum sínum með eiginkonunni. Sagði Hjörtur að eitt það helsta
sem þau hjónin stefndu að væri að komast á næsta ári til útlanda á Hondunni góðu. Þau skutust suður
á laugardaginn til að sjá hjólið berum augum í fyrsta skipti, en það var tekið upp s.l. föstudagskvöld. Að sögn Gylfa Gunnarssonar hjá Hondaumboðinu komu nokkrir áhugamenn um glæsileg mótorhjól til að skoða gripinn strax um  helgina, enda er þetta stórviðburður. Sagði hann að þetta væri ekkert spyrnuhjól eða sérstaklega kraftmikið hjól miðað við það allra mesta, þó að hestöflin telji hundraðið. Strokk arnir eru sex og rúmtak vélarinnar er 1500 cc Hún er vatnskæld af Boxtergerð. Honda GoldWing GL 1500 er með glæsilegustu ferðamótorhjólum sem framleidd eru í heiminum. Er þeim jafnað við dýrustu gerðir af  Mercedes í bílaheiminum. Það er búnaðurinn allur sem gefur því gildi umfram önnur hjól. Til dæmis er sambyggt útvarp og segulband með fjórum hátölurum og leiðslu sem tengja má við hátalara í hjálmunum. Með þeim búnaði geta farþegi og ökumaður einnig rætt saman. Miklar stillingar er að finna í mælaborðinu og sætin eru bólstruð með leðri. Mikil koffort eru byggð á hjólið og er það afar breitt og mikið að sjá. Þrátt fyrir þetta er það lipurt og mun vera auðveldara að stýra því en mörgum öðrum minni hjólum. Með öllum búnaði vegur það um 450 kg. GoldWing GL 1500 er ný útgáfa frá Honda og hófst framleiðsla hennar fyrst á síðast liðnu hausti. Það er því viðbúið að „gullvængurinn" frá Skagaströnd veki ekki síður mikla athygli erlendis en í Húnavatnssýslum.
KB
Tíminn 17.05.1988