27.5.14

Matchless fær nýtt líf (2014)

Gamall draumur Hilmars Lútherssonar varð að veruleika þegar Birgir Guðnason færði honum illa farið flak Matchless 500 mótorhjóls frá 1946. 

Fyrir tæpum aldarfjórðungi sá Hilmar Lúthersson mynd af illa förnu mótorhjóli af gerðinni Matchless 500, árgerð 1946. Hann falaðist eftir því við eigandann, Stefán Einarsson verktaka á Siglunesi, en sá vildi síður skilja við það og Hilmar gaf hjólið upp á bátinn.

Fjölmörgum árum síðar var Birgir Guðnason að vinna fyrir Stefán á
Siglunesi. „Ég var að gera við ýmis tæki og tól fyrir Stefán enda erum við góðir vinir. Ég vissi af áhuga Hilmars á hjólinu og notaði því alls konar þumalskrúfur á Stefán til að fá hjólið,“ segir Birgir glettinn. Að endingu fór svo að Birgir fékk hjólið og hófst nú  mikið ævintýri að koma því til byggða. „Ég sótti hjólið á Zodiac-gúmmíbát því út í Siglunes liggur enginn vegur. Fyrst þurfti þó að aka hjólinu í eldgömlum Pajero-jeppa yfir nesið endilangt til að koma því niður í fjöru. Þetta var heilmikið ferðalag sem gekk ekki áfallalaust enda bráðnaði mótorinn á
miðjum firðinum. Þá var fengið annað stærra skip, hjólið híft upp í það og loks flutt á Siglufjörð.  Þaðan var því síðan ekið á Selfoss til Hilmars,“ lýsir Birgir.

Hjólið var illa farið en Birgir þóttist fullviss um að ef einhver gæti gert það upp þá væri það Hilmar sem af flestum er kallaður Tæmerinn. Viðurnefnið er rekið til þess tíma þegar Sniglarnir voru
stofnaðir. „Við kölluðum hann Old Timer því hann var mun eldri en við hinir,“ upplýsir Birgir en Hilmar hefur þann heiðurssess að vera Snigill númer 1.
 „Hjólið var eiginlega ónýtt þegar ég fékk það og búið að skítmixa það á ýmsan hátt,“ segir Hilmar sem féllust þó ekki hendur þegar hann sá það. „Ég þekki til svona hjóla og hef gert upp nokkur slík,“ segir hann og var innan við ár að gera upp hjólið. Hann viðurkennir þó að erfitt sé orðið að fá varahluti í svona gamla fáka.  „Ég þurfti að panta þá héðan og þaðan, til dæmis frá Ástralíu og Flórída.“

Matchless 500 mótorhjólið situr nú ásamt ófáum öðrum fallegum hjólum í bílskúr Hilmars á Selfossi.
Inntur eftir því hversu mörg hjól sé þar að finna svarar Hilmar með semingi: „Ég er nú eins og
hestamennirnir og þarf að telja til að vita það. Ég á fjögur eða fimm hjól sem eru svona gömul og stór en ætli ég eigi ekki um fimmtán hjól í allt.“
Upp á síðkastið hefur hann fengið aukinn áhuga á skellinöðrum. „Ætli ég sé ekki genginn í barndóm aftur,“ segir hann glaðlega en nýjasta verkefni Hilmars er Gizmo-skellinaðra. Þá keypti hann sér um daginn hjól frá Bretlandi eins og það sem hann byrjaði að aka á tólf ára gamall. „Ég byrjaði ungur að hjóla en síðan kom stórt hlé sem fór bæði í fjölskyldu og drykkju. Svo rann brennivínið af manni og þá tóku hjólin við aftur. Það voru ágætis skipti,“ segir Hilmar glettinn og bætir við að einu hömlurnar á þessu áhugamáli sé plássleysið í bílskúrnum.
- sg