11.5.07

Fordómar og vanþekking (2007)

 Mig rak í rogastans eftir að hafa lesið grein í Blaðinu þriðjudaginn 8. maí með fyrirsögninni

„Óttast kúnstir mótorhjólagæja". í greininni er lýst áhyggjum og efasemdum íbúa í Árbæ vegna fyrirhugaðrar mótorhjólaverslunar þar í hverfinu.  Greinin ber vott um mikla fordóma i garð bifhjóla og bifhjólafólks þó viðmælandi blaðamanns segi íbúa ekkert hafa á móti mótorhjólafólki.  Í umræddu húsnæði hefur í gegnum tíðina verið rekinn banki ásamt því að matvöruverslanir og sjoppur hafa verið reknar í húsi við hliðina þó
lítilstarfsemi hafi verið í þessum húsum sl. ár. Það er auðvelt að leiða líkur að því að ekki skipti máli hvers kyns rekstur verður opnaður í þessum húsum því umferð mun ávallt aukast að þeim í kjölfarið. Hvort það er sjoppa, bifhjólaverslun, bílabúð eða hannyrðaverslun gildir einu. Hávaði og umferð mun því ávallt aukast í kjölfar nýs reksturs. Rofabær, gata sú er liggur framhjá húsnæðinu, er samkvæmt skipulagi stofngata og verður sem slík seint talin vistgata. Þarna er talsverð umferð enda ein helsta umferðargata hverfisins og að halda því fram að aukin umferð og hávaði stafi einungis af bifhjólum er því illa á rökum reist.

Af hverju?

Af hverju ættu börn að vera í meiri hættu ef þarna yrði opnuð bifhjólaverslun?
Er viðmælandi að gera því skóna að allir bifhjólamenn séu ökufantar og aki alltaf of hratt?
Vissulega eru til bifhjólamenn sem aka of hratt en það eru líka til bílstjórar sem aka of hratt og eru þeir umtalsvert fleiri í umferðinni en bifhjólamenn. Eftir Rofabæ aka líka umtalsvert fleiri bílar en mótorhjól á hverjum degi og yrði að öllum líkindum þannig áfram þó opnuð yrði bifhjólaverslun.
Vaknar því spurningin, af hverju verður hættulegra fyrir börnin að leika sér þarna ef opnuð verður bifhjólaverslun? Alhæfing um að bifhjólamenn aki allir of hratt eins og ýjað er að er svipuð og að segja að allir ljósmyndarar taki bara klámmyndir, sem að sjálfsögðu er ekki raunin.

 Í góðri sveiflu

Þegar talað var um hraðahindranir í greininni þurfti ég að stoppa, lesa um það aftur og það varð í raun kveikjan að þessu bréfi. f greininni er talað um að verslunin verði staðsett við Rofabæ sem sé löng gata og í henni séu margar hraðahindranir. Svo verð ég að vitna orðrétt í greinina: „Þar gætu mótorhjólagæjar í góðri sveiflu stokkið og verið með alls kyns kúnstir." Já, ég held að allir  bifhjólamenn hafi lesið þennan hluta að minnsta kosti tvisvar. Virka hraðahindranir öðruvísi á
bifhjól en bíla?  Í öll þau ár sem ég hef ekið mótorhjóli hef ég ekki orðið var við það. Miðað við það sem viðmælandi blaðamanns segir hljóta bifhjólamenn þá allir að standa í hraðakstri út um allan bæ og stökkvandi á hverri einustu hraðahindrun ef þeir eru í „góðri sveiflu". Málið virðist því frekar
snúa að áliti viðmælandans og þeirra íbúa sem hann vísar til og verður seint talið annað en fordómar í garð fólks sem ekur á annarri gerð löglegra ökutækja en það sjálft.


Blaðið föst. 11.mai 2007
Höfundur er bifhjólamaður