Gjaldskrá Vaðlaheiðarganga var kynnt í dag og er ekki annað að sjá en að Bifhjól fari frítt í gegn sem eru góðar fréttir fyrir okkur hjólarana.
Úr gjaldskránni er hægt að lesa að fullt gjald í gegnum göngin á fólksbíl mun vera 1500kr
en hægt verður að kaupa ferðir í heildsölu og þar með lækkar verðið og virðist vera hægt að fá ferðina á 700 kr ef stærsti pakkinn upp á 100 ferðir er tekinn en þá þarf að punga út 70000kr á einu bretti,
Hægt verður að vera með allt að þrjá bíla skráða á hvert kort.
Ökutæki sem eru yfir 3500 kg hinsvegar þurfa að borga 6000 kr á fullu verði en þar er boðið upp á pakka með 40 ferðir á 5220kr ferðin en þá þarf að punga út 208800kr.
Ótakmarkaðann fjöld þungra ökutækja er hægt að skrá á þessi kort.
sjá nánar ....
Hér er tilkynningin frá Vaðlaheiðargöngum...
11.12.2018
Í dag var gjaldskrá Vaðlaheiðarganga kynnt á fréttamannafundi í vinnubúðunum, austan gangamunna Eyjafjarðarmegin. Jafnframt var vefsíðan www.veggjald.is opnuð formlega og þar með opnað fyrir skráningar ökutækja inn í kerfið.
Á fréttamannafundinum í dag var eftirfarandi fréttatilkynning gefin út:
Formleg opnun Vaðlaheiðarganga verður 12. janúar 2019. Umferð um göngin verður gjaldskyld og verða veggjöld innheimt rafrænt en ekki í gjaldskýli. Mögulega verður unnt að opna göngin fyrir umferð undir lok desember en það ræðst þó af því hvernig miðar við lokafrágang ganganna. Ákveðið hefur verið að ef göngin verða opnuð fyrir umferð fyrir jól verður gjaldfrítt í þau til 2. janúar 2019.
Vaðlaheiðargöng eru milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Heildarlengd þeirra með vegskálum er um 7,5 km. Til samanburðar eru Vestfjarðagöng – veggöng undir Breiðadals og Botnsheiði – samtals 9,1 km, lengri leggur Héðinsfjarðarganga 7,1 km og Hvalfjarðargöng 5,8 km. Vegir að göngunum austan og vestan Vaðlaheiðar eru samtals 4,1 km.
Með Vaðlaheiðargöngum styttist þjóðvegur 1 frá Akureyri til Húsavíkur um 16 km. Fyrsta sprenging í göngunum var í júlí 2013 og því hafa framkvæmdir við þau tekið um fimm og hálft ár.
Forsagan
Árið 2002 kynnti Vegagerðin skýrslu um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði og ári síðar stóð Eyþing fyrir stofnun Greiðrar leiðar ehf. – félags um framkvæmd og rekstur Vaðlaheiðarganga. Að því stóðu öll 20 sveitarfélög innan Eyþings og tíu fyrirtæki.
Árið 2010 samþykkti Alþingi lög um stofnun hlutafélags um vegaframkvæmdir, m.a. um gerð Vaðlaheiðarganga. Ári síðar var Vaðlaheiðargöng hf. stofnað um gangagerðina. Tveir hluthafar voru í félaginu, í upphafi var Vegagerðin með 51% hlut og Greið leið ehf. með 49% hlut. Verkið var boðið út árið 2011 en samið við lægstbjóðanda, Íslenska aðalverktaka/Marti, í febrúar 2013.
Þann 12. júlí 2013 var svokölluð viðhafnarsprenging í gangamunna Vaðlaheiðarganga Eyjafjarðarmegin, sem markaði formlegt upphaf framkvæmdanna. Upphaflega var gert ráð fyrir verklokum við Vaðlaheiðargöng í desember 2016 en fordæmalausar aðstæður í göngunum, m.a. mikið rennsli á bæði heitu og köldu vatni, tafði framkvæmdir verulega.
Síðasta sprenging var 28. apríl 2017 og síðan hefur verið unnið að frágangi ganganna, vegagerð frá gangamunnunum í Fnjóskadal og Eyjafirði, malbikun, uppsetningu tæknibúnaðar o.fl.
ÍAV hf/Marti Constractors Lts. – Ósafl var aðalverktaki við gerð ganganna. Vegagerðin stýrði hönnun þeirra og veglínu. Verkfræðistofurnar Mannvit, Verkís, Efla og Verkfræðistofa Norðurlands veittu ráðgjöf við hönnunina. Framkvæmdaeftirlit var í höndum GeoTek og Eflu. Hönnun og tæknileg útfærsla á gjaldtökukerfi var í höndum verkfræðistofunnar Raftákns og um forritun sá Stefna hugbúnaðarhús.
Fordæmalausar aðstæður
Gangamenn í Vaðlaheiðargöngum tókust á við fordæmalausar aðstæður við jarðgangagerðina sem skýrir lengri framkvæmdatíma og meiri kostnað en gert var ráð fyrir. Glímt var við mikið innstreymi af heitu og köldu vatni í göngin, mikið hrun úr bergstálinu og samfellda bergþéttingu. Þetta gerðist þrátt fyrir viðamiklar jarðfræðirannsóknir, sambærilegar við önnur jarðgöng á Íslandi. Jarðhitinn í göngunum gerði það að verkum að vinnuaðstæður í Vaðlaheiðargöngum voru mun erfiðari en áður hefur þekkst við jarðgangagerð á Íslandi og tímafrekt reyndist að hemja vatnsflauminn.
Bæði heitt og kalt vatn streymir út úr göngunum í lögnum við hlið akbrauta. Norðurorka mun í framtíðinni nýta kalda vatnið fyrir notendur á Svalbarðsströnd og Akureyri.
Innheimta veggjalds
Vegfarendur greiða veggjald fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng. Það er ekki innheimt í gjaldskýli heldur greitt í gegnum www.veggjald.is eða www.tunnel.is. Notendur ganganna búa til sitt svæði á www.veggjald.is, skrá þar númer ökutækis, tengja það við greiðslukortið sitt og geta þá keypt ferð eða ferðir. Skráning ökutækis er án endurgjalds. Hægt verður að skrá allt að þrjú ökutæki á hvert greiðslukort. Aðeins þarf að skrá ökutækið einu sinni í upphafi, frekari skráninga er ekki þörf. Sá sem skráir ökutækið á veggjald.is ber ábyrgð á því að allar upplýsingar séu réttar. Við eigendaskipti ökutækja og/eða aðrar breytingar ber viðkomandi að breyta skráningu á veggjald.is
Myndavélar eru í göngunum sem taka myndir af númerum ökutækja sem ekið er um göngin. Veggjaldið skuldfærist sjálfkrafa á það greiðslukort sem skráð er við bílnúmerið.
Á veggjald.is eru upplýsingar um gjaldskrá og þar er hægt að hlaða niður appi fyrir snjallsíma.
Gjaldtakan er þrenns konar:
Innskráning á veggjald.is
Stofnaður aðgangur á veggjald.is og settar inn greiðslukortaupplýsingar og þau bílnúmer sem óskað er eftir að greiða fyrir. Við hverja ferð í gegnum göngin skuldfærist veggjaldið á viðkomandi greiðslukort. Hægt er að kaupa fyrirfram greiddar 10, 40 eða 100 ferðir á afsláttarkjörum. Því fleiri ferðir sem keyptar eru, þeim mun lægri upphæð greiðist fyrir hverja ferð.
Stakar ferðir
Hægt er að kaupa stakar ferðir á veggjald.is eða tunnel.is eða með símaappi allt að þrem tímum áður eða þrem tímum eftir að ekið er í gegnum göngin.
Óskráð númer
Ef ferð er ekki greidd innan þriggja klukkustunda frá því að ekið er í gegnum göngin verður veggjaldið innheimt af skráðum umráðamanni ökutækis að viðbættu 1.000 kr. álagi.
Gjaldskrána er að finna á www.veggjald.is
Hér er myndband sem skýrir greiðslu veggjalda.