18.8.17

BMW klubbur um Vestfirði

Stór hópur manna úr mótorhjólaklúbbum BMW tók á rás snemma í gærmorgun og lagði af stað frá bensínstöð N1 vestur á firði. Þarna voru saman á ferð 25 félagar úr BMW klúbbnum og jafn margir úr þýskum systurklúbbi.
Þeirra fyrsti náttstaður fyrir vestan var á Tálknafirði þar sem þeir gistu í nótt. Halda svo áfram til Ísafjarðar í dag og til Norðurfjarðar á Ströndum á morgun þar sem leiðir skiljast, því Þjóðverjarnir fara hringinn umhverfis landið en Íslendingarnir suður.

„Trússbíll fylgir okkur og ferjar samkomutjald og fleira og verður það sett upp á gististöðum. Þetta er sennilega stærsta ferð mótorhjólamanna um Vestfirði sem farin hefur verið,“ sagði Guðmundur Björnsson læknir, einn leiðangursmanna, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.

bryndis@bb.is
www.bb.is/