4.11.14

Ragnar Ingi heimsmeistari öldunga




World Vet-keppnin á Glen Helen 2014

Það er skammt stórra högga á milli hjá íslenskum torfæruökumönnum. Í síðustu viku sögðum við frá góðum árangri Kára Jónssonar á Ironman GNCC-keppninni í Bandaríkjunum en um þessa helgi var það Ragnar Ingi Stefánsson, nífaldur Íslandsmeistari í motocross, sem kom, sá og sigraði. Ragnar fór utan til að keppa í World Vet-keppninni á hinni margrómuðu Glen Helen-keppnisbraut og gerði sér lítið fyrir og vann keppnina á laugardeginum í tveimur flokkum, 45+ Expert og 50+ Expert. Í keppninni eru þrír getuflokkar og er Expertflokkurinn fyrir þá bestu, en alls kepptu menn frá yfir 30 löndum hvaðanæva úr heiminum.

Ein erfiðasta braut í heimi 

Ragnar Ingi keppti að sjálfsögðu á glænýju Kawasaki-hjóli enda er Ragnar Ingi framkvæmdastjóri Nítró sem er umboðsaðili Kawasaki á Íslandi. Blaðamaður Morgunblaðsins sló á þráðinn til Ragnars Inga og truflaði hann aðeins við að gera sig ferðbúinn til heimferðar. Ragnar Ingi sagði að heimsmeistarakeppni hefði verið haldin á Glen Helen-brautinni síðan 1991 og þykir mjög erfið braut.
„Í henni eru alveg svakalegar brekkur og beygjur, en auk þess er hún mjög gróf og þykir ein erfiðasta braut í heimi. Ég hef sjaldan komið á jafn miklum hraða inn í beygju eins og þarna, kom í fimmta í fyrstu stóru beygjuna sem þýðir að ég hef verið á um 120 km hraða. Það var sérstakur fílingur að vera fremstur í þessari beygju með hina organdi fyrir aftan sig,“ sagði Ragnar Ingi og hló. „Það rigndi eins og hellt væri úr fötu á laugardag, en það gerist aðeins örsjaldan á þessum stað og var því frekar óvenjulegt. Ég græddi á því að vera vanur að keppa við erfiðarar aðstæður á Íslandi. Keppninni var frestað tvisvar um morguninn meðan reynt var að koma brautinni í lag með jarðýtum. Brautin varð fljótt skorin og erfið yfirferðar og ef menn pössuðu sig ekki á að halda línu voru þeir fljótt úr leik,“ sagði Ragnar Ingi ennfremur.
Aðstæður voru betri á sunnudeginum en þá gekk  Ragnari Inga ekki eins vel. „Ég lenti í samstuði við nokkra sem höfðu dottið og beyglaði frambremsudisk sem þýddi að ég gat lítið notað frambremsuna þann daginn.“ Þegar upp var staðið eftir helgina hafði Ragnar Ingi haft sigur í þremur motoum, fjórði í einu og sjötti í öðru. Ragnar vildi að lokum koma á framfæri þökkum til Pepsi MAX, World Class, Nítró og KG Racing fyrir að gera honum ferðina á þessa keppni mögulega.
njall@mbl.is
4.11.2014