Bifhjólasamtökin Sniglar hafa sent mótmæli sín við nýbirt frumvarp til umferðarlaga til innanríkisráðuneytisins og ennfremur óskað eftir fundi með samgöngunefnd vegna málsins. Tilurð þess er enn ein tilraun yfirvalda til að banna öllum að aka með farþega sé viðkomandi undir 16 ára aldri og undir 150 sentimetrum á hæð.
Að sögn Hrannar Bjargar Harðardóttur, formanns Snigla á mótorhjólafólk erfitt með að skilja hvers vegna þessi lagabreyting skuli koma inn aftur og aftur þótt hún hafi nokkrum sinnum verið tekin út úr lögunum. “Það veldur vonbrigðum þegar ítrekað hafa verið færð góð og gild rök fyrir öllum okkar athugasemdum og þær teknar til greina, skuli þær að sama skapi ítrekað strikaðar út án umhugsunar né nokkura röksemda af hálfu hins opinbera” segir Hrönn í viðtali við bifhjol.is.
Engin rök með banninu
Síðastliðin ár hafa Bifhjólasamtök Lýðveldisins, Sniglar, veitt umsögn á vinnu nefndar sem vann að nýju frumvarpi til umferðarlaga. Sniglar hafa sent inn ýmsar athugasemdir við frumvarpsdrögin og hefur að miklu leyti verið tekið tillit til þeirra. Samtökin hafa farið yfir Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum nr. 50/1987, með síðari breytingum. Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar eiga erfitt með að skilja hvers vegna ákvæði um 150 sm. lágmarkshæð fyrir börn sem farþega á bifhjóli er alltaf að koma inn í lögin. Sniglar hafa aftur og aftur fengið þetta ákvæði út með góðum rökum enda ekkert sem rökstyður það.
Slysatölur benda ekki til hættu með börn sem farþega á bifhjóli, en tilurð þess í lögum bendir til fordóma og vanþekkingar á efninu. Erfitt er að skilja að þetta hafi þótt „brýnt að nái fram að ganga eins fljótt og auðið er“ eins og stendur í athugasemdum við lagafrumvarpið. Í frumvarpi sem var lagt fram á Alþingi 2012-2013 var þetta orðað svona: „Barn sjö ára eða yngra, sem er farþegi á bifhjóli skal sitja í sérstöku sæti því ætluðu. Barn eldra en sjö ára skal ná með fætur niður að fóthvílum bifhjóls, en að öðrum kosti á fyrri málsliður við.“
Reynslulaus má reiða á léttu bifhjóli
Samkvæmt frumvarpinu mætti mjög reyndur bifhjólamaður ekki lengur hafa barn sem farþega á stóru bifhjóli ef það er undir 150 sm. á hæð. Gildir þá einu hvort barnið sé í besta fáanlega hlífðarfatnaði. Samkvæmt frumvarpinu má hins vegar sá sem er með réttindi á bíl og er 20 ára eða eldri reiða barn undir 150 sm. á léttu bifhjóli. Réttindi á létt bifhjól fylgja réttindum á bíl svo fræðilega séð er sá sem enga þjálfun hefur hlotið í meðferð bifhjóla, því þá síður akstri með farþega á bifhjóli, sá eini sem má reiða barn undir 150 sm. á bifhjóli.
Í mörgum tilfellum gæti það verið staðreynd að 15 ára barn væri með réttindi á létt bifhjól en ef það er undir 150 sm. lágmarkshæðinni má sama barn ekki vera farþegi á stóru bifhjóli. Með réttu ætti að fella út kaflann um réttindi til aksturs léttra bihjóla skuli fylgja réttindum á bíl þar sem engin þjálfun fer fram í akstri þeirra.
https://www.visir.is/g/2014140128784