7.6.13

SNERTINGIN VIÐ VEGINN

Austurglugginn hitti þrjá meðlimi Drekanna
að máli,
þá Hlífar Þorsteinsson,
Bjarna Ingvarsson og Níels Þorvaldsson.
Drekar, Vélhjólaklúbbur Austurlands ræddi nýlegaviðVegagerðina og Fljótsdalshérað um nauðsyn þess að sinna vegakerfinu með vélhjólafólk í huga. Farið var yfir þær hættur sem fyrir hendi eru og þær sem tiltölulega auðvelt ætti að vera aðlaga.





Strákar, fundur um aukið umferðaröryggi og bifhjól?

Bjarni: Já við ákváðum að ræða við vegagerðina um aukið öryggi, aukið umferðaröryggi fyrir alla, ekki bara bifhjól, líka þá sem eru á reiðhjólum og bílum þannig að við ræddum við þá um ástand vega. Hlífar: Það er heilmikið um slæma umgengni um vegi hér austanlands og þar að auki erum við með hæstu fjallvegina og mikla og gamla vegi í þröngum fjörðum og veitir ekkert af því að halda þessu almennilegu, að vegir séu merktir þegar verið er í vegaframkvæmdum, til dæmis þegar verið er að bæta slitlagið sem er nú víða slæmt og tjörublæðingar, miklar, það þarf að merkja þær. Svo er þetta flughált fyrir mótorhjól.


Slæm umgengni, meinarðu almennings?

Hlífar: Það er mikið um að grjót berist inn á vegina, bæði frá framkvæmdum og svo mold og það þarf til dæmis ekki annað en hestaskít, sem getur verið flughált þegar hjól lendir ofaní þessu.


Kannski spurning um hugarfarsbreytingu?

Bjarni: Já, það er það sem við höfum verið að tala um, að fólk taki almennt tillit til annarra, sem kannski eru ekki í sýnilegri hættu frá þessu og með því að koma þessu frá okkur núna, þá fari kannski einhverjir að hugsa. Spurning með upplýsingagjöf, þannig að fólk fari að taka tillit til okkar og ekki bara okkar, heldur líka reiðhjólamanna og annarra. Við erum náttúrulega í dálítið öðru jafnvægi en bílarnir og þurfum nauðsynlega að fá að vita hvað er framundan og þá til dæmis, með Vegagerðina, að merkja greinilega hvaða framkvæmdir eru framundan og á hverju má eiga von. Níels: Svo er þetta líka spurning með að til dæmis bóndi sem er búinn að dreifa skít á túnin sín í áratugi, fatti að það sem fer á vegina hefur sín áhrif, að allir fari að hugsa saman, að sama markmiði, frekar en að vera að senda út einhverjar boðanir og sektir með hörku, þá er þessi leið mjúk og til árangurs. Fá þá sem valda því að skítur eða annað sé á veginum, hugsi sig um. Hlífar: Eins og með bóndann og skítinn, honum hefur aldrei þótt þetta neitt tiltökumál en fyrir okkur, þá er þarna allt í einu svellbunki á veginum. Þannig virkar svona fyrir okkur. Níels: Einmitt, sko þá er það allra hagur að við hugsum um þetta saman, það er ekkert gaman fyrir fjórðunginn að það fréttist að skítur á vegum hafi valdið slysi, frekar að það fréttist að hér stöndum við saman að því að bæta öryggið. Hlífar: Til dæmis líka, þá var tekið dæmi um það um daginn að þegar verið er að dreifa möl á vegina fyrir slitlagið, þá er það fyrir okkur eins og þegar búið er að dreifa legukúlum á gólf. Það er ekkert tiltökumál að merkja þetta af því það er horft í steinkastið hjá bílunum, en hjá okkur er þetta spurning um miklu meira en steinkast. Þetta getur verið lífsspursmál hjá okkur. Níels: Og þegar við komum inn á vegarhluta þar sem blæðir, þá er það líka eins og að koma inn á legukúlur. Við bremsum ekkert, ef þú bremsar, þá ertu farinn! Við þurfum að hafa mikið fyrir því að minnka hraðann með góðum fyrirvara. Hlífar: Þess vegna komum við fram með þessum hætti, að gera fólki ljósar hætturnar sem felast í þessu fyrir okkur og þar með fyrir alla aðra svo það geti bætt umgengni sína.


Nú eruð þið á vissan hátt að stíga fyrsta skrefið með beinum samræðum?

Níels: Jú, og svo er það líka til dæmis spurning um vegarimlana, þar er ekki hægt að bremsa, þú bara rennur út á hinn vegarhelminginn og hvað þá með svona rimlahlið sem er staðsett í beygju!


Þetta eru kannski ekki hlutir sem hinn almenni ökumaður spáir í eða sér, en þetta er þá náttúrulega gríðarlegt öryggismál fyrir alla, ykkur og aðra sem með ykkur eru í umferðinni.  


Hlífar: Einmitt og það er svo mikilvægt að menn átti sig á því að við höfum aðra snertingu við veginn en bílarnir, það er svo lítill flötur sem snertir veginn, þannig að það er eins gott að snertingin við veginn sé í lagi. Við spjölluðum lengi saman en það sem eftir situr er að það eru litlu hlutirnir, eins og svo oft, sem skipta mestu máli, að merkja almennilega, að hugsa áður en eitthvað er sett á veginn, að allir hugsi um hvað er öruggast til þess að við komumst öll örugg heim. Ritstjóri Austurgluggans er líka orðinn sannfærður um að við fyrsta tækifæri þá fái hann sér Harley, því enda eins og þeir félagar bentu á, bifhjólafólk er ekki nema að litlu leyti þetta klisjukenda ofbeldisfólk sem er myndin sem svo oft kemur upp og svo oft er brugðið upp af bifhjólafólki. Þetta er nefnilega fólk á öllum aldri, öllum kynjum öllum litum, öllum atvinnugreinum, læknar og löggur, dómarar og daglaunafólk og svo framvegis þannig að ritstjóri Austurgluggans gæti verið vel sáttur við að vera í félagsskap bifhjólafólks. En til þess að slíkt þrífist þurfa ofangreind öryggismál auðvitað að vera í lagi.