Audi-safnið í Ingolstadt
Um það bil 60 km norður af München er borgin Ingolstadt sem kölluð hefur verið borg Audi-bílanna. Stór hluti borgarbúa vinnur fyrir Audi, hvort sem það er í hinum risastóru verksmiðjum Audi í austurhluta hennar eða öðrum deildum fyrirtækisins. Hópur íslenskra blaðamanna var þar á dögunum að reynsluaka nokkrum Audi-bílum og gafst þá tækifæri til að skoða samsetningu á Audi A3-bílum í verksmiðjunni en því miður mátti ekki taka myndir á staðnum. Nóg mátti hins vegar smella af inni á glæsilegu farartækjasafni Audi þar við hliðina áSaga hringjanna
Audi-merkið sem samanstendur af fjórum hringjum táknar uppruna merkisins í öðrum bíla- og mótorhjólamerkjum. Hringirnir standa fyrir Audi, Horch, DKW og Wanderer og merkja sameiningu þessara framleiðenda árið 1932. Horch merkið var stofnað árið 1899 af August Horch, en hann vann áður hjá Carl Benz og er einn af forfeðrum bílsins. Horch yfirgaf fyrirtækið árið 1909 og stofnaðiþá Audi-merkið, en nafnið fékk hann með því að þýða Horch nafnið yfir á latínu. Wanderer-merkið hóf framleiðslu á mótorhjólum árið 1902 og fyrsta bílinn þeirra kom árið 1913. DKW byrjaði sem framleiðandi aukahluta í farartæki en árið 1922 kom fyrsta mótorhjólið frá þeim á markað
en DKW átti eftir að verða einn stærsti mótorhjólaframleiðandi fyrirstríðsáranna á aðeins nokkrum árum. Fyrsti bíllinn frá þeim kom á markað árið 1928.
Framleiddu mótorhjól og lúxusbíla
Eins og áður sagði sameinuðust þessi fjögur merki 29. júní 1932, Wanderer-merkið var reyndar aðeins tekið yfir að hluta en bíladeild þess fór undir Audi-samsteypuna. Eftir sameininguna var Audi næststærsti bílaframleiðandi í Þýskalandi. Hvert merki var gert ábyrgt fyrir framleiðslu og sölu mismunandi gerða og stærða, DKW fyrir mótorhjól og smábíla, Wanderer fyrir millistærðarbíla, Audibyggði stærri millistærðarbíla og Horch framleiddi lúxusbíla. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru verksmiðjur samsteypunnar í Chemnitz og Zschophau herteknar af herjum Sovétríkjanna og voru bútaðar niður í minni einingar. Yfirmenn Audi fluttu til Bæjaralands og stofnuðu merkið á ný í Ingolstadt árið 1949. Fyrstu farartækin sem runnu af færibandinu vestan nýju landamæranna voru
DKW-mótorhjól og litlir sendibílar, knúin tvígengismótorum. Fyrsti bíllinn með fjórgengisvél kom árið 1965 og var þá Audi nafnið tekið upp aftur af því tilefni. Sama ár keypti Volkswagensamsteypan Audi merkið. Fjórum árum seinna sameinaðist Audi öðru stóru merki, NSU í Neckarsulm. NSU var heimsfrægt fyrir mótorhjólaframleiðslu og framleiddu á tímabili fleiri mótorhjól en nokkur annar framleiðandi í heiminum. NSU hóf framleiðslu bíla árið 1958 sem stóð allt til 1977 þegar síðasti NSU bíllinn var framleiddur. Eftir það voru bílar aðeins framleiddir undir merkjum Audi og árið 1985 var nafni fyrirtækisins einfaldlega breytt í Audi AG og höfuðstöðvarnar fluttar frá Neckarsulm til Ingolstadt. Bíla- og mótorhjólasafn Audi í Ingolstadt var opnað árið 2000 og sýnir sögu þessara merkja sem hér hafa verið nefnd ásamt sýningum frá mótorsportdeild fyrirtækisins og hugmyndabíla Audi. Reglulega er skipt út farartækjum þannig að sá sem heimsækir safni í dag gæti séð allt önnur farartæki þar á næsta ári.
njall@mbl.is
MORGUNBLAÐIÐ
19.03.2013