14.2.13

Hjól sem lætur ekki fara lítið fyrir sér


Þeir sem eiga peninga í pokavís og hafa smitast af mótorhjóladellu geta auðvitað ekki sætt sig við að vera á venjulegu verksmiðjuframleiddu vélhjóli.

Eins gaman og það er að vera á huggulegum Harley eða kröftugri  Hayabúsu þá gengur ekki að láta sjá sig á svona alþýðlegum hjólum meðan hægt er að finna eitthvað enn betra. Ríka og fræga fólkið pantar hjólin sín hjá bandaríska framleiðandanum Confederate Motors.

Í bænum Birmingham í Alabama leynist eitt framúrstefnulegasta mótorhjólafyrirtæki sem finna má. Var reksturinn stofnaður árið 1991 og hefur síðan fest sig í sessi (ef utan er skilið gjaldþrot árið 2001 og endurvakning árið 2003) sem framleiðandi hjóla sem virðast nánast fengin beint úr vísindaskálsögum.

Kosta hjólin á við litla íbúð. Ódýrasta módelið er Hellcat sem kostar 55.000 dali á meðan t.d. R131 Fighter kostar frá 100.000 dölum og verður að sérpanta. Þegar litið er yfir viðskiptavinalistann rekur þar hver stórstjarnan aðra. Hjartaknúsarinn huggulegi Brad Pitt sést t.d. gjarnan þeytast um á Confederate-hjólinu sínu, Bruce Springsteen er með sitt hjól í bílskúrnum líka, Steven Tyler úr Aerosmith sömuleiðs og knattspyrnukempan David Beckham svo aðeins séu nokkrir nefndir.

Eins og vera ber er enginn skortur á kröftum en það eru ekki hestöflin sem gera hjólin frá Confederate Motors svona sérstök heldur útlitið. Virðist sem hefðirnar séu til þess gerðar að brjóta þær og útkoman skemmtilega tröllsleg farartæki sem verka á líkamann eins og væn sprauta af testósteróni.
Nánar má skoða hjólin á www.confederate.com

Morgunblaðið 2013
ai@mbl.is