- 20-30 sinnum líklegra að mótorhjólamaður látist í umferðinni en ökumaður bíls
- Á árunum 2003 til 2007 urðu 842 mótorhjólaslys og níu ökumenn biðu bana
Undanfarnar vikur hafa borist nokkrar fréttir af slysum á mótorhjólum og fyrir rúmlega viku varð hörmulegt banaslys á Hringbraut í Reykjavík.
Þótt mótorhjól séu aðeins lítill hluti af ökutækjum í umferðinni eru dauðaslys ökumanna mótorhjóla töluvert algeng og mun algengari en fjöldi hjólanna ætti að gefa tilefni til. Samkvæmt erlendum rannsóknum er 20-30 sinnum líklegra að mótorhjólamaður látist í umferðinni en ökumaður bíls.
Karlar slasast og deyja
Í lokaritgerð Kristrúnar Guðmundsdóttur og Ragnheiðar Erlu Eiríksdóttur til BS-prófs í hjúkrunarfræði er nýju ljósi varpað á slysatíðni, eðli og alvarleika mótorhjólaslysa. Við rannsókninastuddust þær við upplýsingar frá Landspítalanum auk upplýsinga frá Umferðarstofu og rannsóknarnefnd umferðarslysa. Rannsóknin sýndi fram á að alls urðu 842 mótorhjólaslys á árunum 2003-2007 en það jafngildir rúmlega þreföldun á einungis fimm ára tímabili.
Alls leituðu 777 til Landspítala vegna slysa og þar af voru 105 lagðir inn. Slysin urðu alvarlegri eftir því sem leið á tímabilið og varð um helmingsaukning á miklum, alvarlegum og lífshættulegum áverkum.
Á þessu tímabili urðu níu banaslys á mótorhjólum og var hraðakstur meginorsök í sex tilvikum af níu. Í öllum tilvikum voru það karlmenn sem létust og í 90% allra slysa voru karlmenn undir stýri. Þetta er svipað hlutfall og þekkist í útlöndum.
Í 62% tilvika urðu slysin á þungum bifhjólum, í 26% tilvika á torfæruhjólum og í 15% tilvika á léttum bifhjólum
Tíðust slys hjá 15-16 ára
Meðal þeirra niðurstaðna sem koma mest á óvart í ritgerð þeirra Kristrúnar og Ragnheiðar er hversu algeng slys eru hjá ungum ökumönnum, þ.e. ungum piltum. Algengasti aldur þeirra sem urðu fyrir slysum var 15 og 16 ára en aldurshópurinn 21 til 30 ára lenti tíðast í mótorhjólaslysi.Í rannsókninni er bent á að starfsfólk Barnaspítala Hringsins hafi miklar áhyggjur af slysum hjá börnum sem leika sér á mótorhjólum og finnst sem nánustu aðstandendur þeirra hunsi eða þekki ekki þær hættur eða afleiðingar sem slys geta haft í för með sér. „Á meðal þess sem kom á óvart við gerð þessarar rannsóknar var hversu ung börnin sem slösuðust við mótorhjólaakstur voru en í rannsóknarúrtakinu var eitt barn sjö ára gamalt og tvö börn 10 ára,“ segir í ritgerðinni.