3.5.03

Fyrsta keppnin innan borgarmarkanna

Íslandsmótið í Enduro

Fyrsta keppnin til íslandsmeistara í Enduro verður ekin í dag (laugardaginn 3. maí) undir Úlfarsfelli, í nágrenni við æfingasvæði Slökkviliðs Reykjavíkur. Borgaryfirvöld í Reykjavík leyfðu Vélhjólaíþróttaklúbbnum að halda þarna keppni vegna þess að þar sem brautin liggur á að koma vegur í náinni framtíð og er búið að skipuleggja þetta svæði fyrir byggð og fleira. Allt frá því að byrjað var aftur að keppa í Enduro eftir nokkurt hlé árið 1996 hefur þessi akstursíþrótt verið að stækka og er svo komið að engin akstursíþrótt hér á landi á eins marga iðkendur og Enduro. Er þetta eflaust eina akstursíþróttin sem skipt er eins og fótboltanum í deildir, en keppt er í tveim deildum í Enduro.

Margir við æfingar erlendis 

 Það er nokkuð ljóst að mikil spenna er í loftinu hvað varðar toppbaráttuna. Einar Sigurðsson, núverandi íslandsmeistari, er nýkominn heim frá frá Svíþjóð eftir 20 daga æfinga- og keppnisferð ásamt sjö félögum í KTM-liðunum. Viggó Viggóson á TM, sem varð annar í fyrra, hefur flesta sigra í Enduro og er til alls líklegur. Hann eignaðist reyndar dóttir um daginn og spurning hvort að það hafi einhver áhrif á kappann en hann mun leggja aðaláherslu á að verja sinn titil í motocross. Reynir Jónsson, öflugasti enduromaður Honda, varð þriðji í fyrra, en hann lenti í því óláni að slasa sig við æfingar um páskana og er óvíst hvort hann verður með. Haukur Þorsteinsson, sem varð fjórði til íslandsmeistara í fyrra, hefur æft stíft og er kominn á nýtt Yamaha 450. Valdimar Þórðarson, hinn 18 ára Mosfellsbæjarskelfir, hefur gengið til liðs við Suzuki, en hann var fimmti í fyrra. Valdi, eins og hann er oftast kallaður, hefur verið í þrjá mánuði við æfingar og keppni í Texas í Bandaríkjunum og verður fróðlegt að sjá hvernig hann kemur undan vetri.

-HJ    
DV 3.5.2003