Bifhjólasamtök lýðveldisins Sniglar
Þú ert á ferð eitt fimmtudagskvöld. Kemur af Breiðholtsbrautinni á leið í Kópavog og rökkvað úti við. Þá sérðu eineygt farartæki aka á móti þér ofan Smiðjuveginn. I rauninni sérðu aðeins ljósið, hvítt ljós á hraðri ferð niður brekkuna, ljós sem beygir af leið og þýtur inn í einn botnlangann. Þetta var bifhjól en ökumaðurinn sást naumast, rétt glampaði á hjálminn en hann hlýtur að hafa verið svartklæddur. Það var auðvitað. Einn af þessum leðurtöffurum. Og þú spyrð í hljóði: Ætti ég að elta? Undir niðri dáistu að þessum farartækjum og því sem þeim fylgir, en þú ert hræddur.„Hjá okkur er árið 3. Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins voru stofnuð 1. apríl 1984, félagar eru nú um 220 og fjölga sér mjög hratt. Markmið samtakanna er að sameina bifhjólafólk og vinna að hagsmunamálum þess og fara í ferðalög innanlands sem utan. Við höldum auk þess árshátíð og mýmargar aðrar samkomur og gefum svo út blað mánaðarlega í brotinu A5 sem heitir Sniglafréttir. Það er málgagnið okkar. Samtökin eru öllum opin sem eru orðnir 17 ára, það er ekkert skilyrði að menn eigi hjól. Þú mátt þess vegna eiga Trabant. Og það eru engin stærðarlágmörk á hjólum. Þau
koma hins vegar af sjálfu sér. Hjólin verða að vera það stór að menn dragist ekki aftur úr á ferðum. Yfirleitt byrja menn á minni hjólum og stækka síðan við sig. Mikið vill meira. Það er líka til í dæminu að menn komi inn í samtökin á drullumöllurum, eins og við köllum þá, það eru hjól til að ausa upp drullu, en þeir eru komnir á götuhjól innan tíðar; þeir sjá að það er hamingjan.
Við leggjum ekki í vana okkar að spæna upp nýgræðinginn á örfoka landinu.
Við keyrum á malbiki."Á malbikuðu planinu fyrir framan veitingastaðinn standa þessi stóru gljáfægðu hjól í röðum en fyrir innan er félagsfundur hjá Sniglum að hefjast. Þið ljósmyndarinn reynið að vera kúl þar sem þið klofið milli félagsmanna og komið ykkur fyrir við borð úti í horni. Ykkar maður er ekki kominn og þið bíðið, horfið út um gluggann þar sem ný hjól bætast stöðugt í hóp þeirra sem fyrir eru og svo brosið þið í kampinn þegar tveir naggar á Hondu 50 dóla nokkra hringi, virða tryllitækin fyrir sér úr hæfilegri fjarlægð en gefa síðan í botn í burtu. Flestir í kringum ykkur innandyra eru íklæddir svörtum leðurjökkum og margir aðsniðnum buxum úr sama efni. Á sumum jökkunum eru merki samtakanna og á örfáum blárauður borði en að klæðnaðinum slepptum er þetta mislitur hópur. Allir bíðandi og líka þið. „Það er engin ástæða fyrir hinn almenna borgara að óttast þetta svartklædda leðraða fólk því þetta eru öðlingar upp til hópa. Meðlimir samtakanna eru á aldrinum frá því að vera ekki farin að spretta grön upp í að vera sköllóttir. Sá elsti fer að komast á sextugsaldur. Svo má ekki gleyma því að hér eru þónokkrar píur, eða það er nær að tala um glæsikvendi, sem keyra um á stórum, kraftmiklum hjólum. Þær eru fleiri en ein og fleiri en tvær og þar fyrir utan eru margar í samtökunum sem eru ekki komnar á hjól, ennþá. Þetta er fólk úr öllum starfsstéttum; hárgreiðslufólk, skemmtikraftar, sjómenn, í raun þverskurður af þjóðfélaginu. Til dæmis höfum við okkar eigin hljómsveit, Sniglabandið. Það æfir af krafti og hefur haldið nokkra dansleiki, meðal annars á Þórshöfn um áramótin og spilar á Þjóðhátíð í Eyjum. Svo má heldur ekki gleyma því að þetta eru landssamtök. I þeim er fólk hvaðanæva af landinu. Þetta er ekki klúbbur heldur ein samtök og engar deildir. Og starfsemi okkar er vel skipulögð. Fimm manna stjórn fer með öll mál en hún er kosin ásamt fimm varamönnum á árlegum aðalfundi.
Eitt af langtímamarkmiðum Snigla er að koma íslensku þjóðinni á mótorhjól fyrir aldamót."
■Langtímabið okkar er lokið. Skúli er mættur. Á rauðlitaða hjólinu með blárauðan borða í jakkanum.
Aðeins þeir útvöldu bera þennan borða og Skúli er útvalinn skipuleggjandi næstu ferðar. Áður hafa
Sniglar farið í ferðir um Vestfirði, til Akureyrar, í Atlavík '85 og í Landmannalaugar, svo dæmi séu nefnd, en tilefni þessa fundar er ferð á Þjóðhátið í Vestmannaeyjum. „Við leggjum af stað frá Hallærisplaninu annað kvöld," segir Skúli, „og við ökum hægt og fallega, ég endurtek, hægt og umfram allt fallega út úr bænum, þannig að við sniglumst, skríðum eins og langur ormur. Hvað fara annars margir á bílum?" Aðeins einn réttir upp hönd. „Júhú, við erum bifhjólasamtök." Einhver lýsir því yfir að á planinu fyrir utan standi 38 hjól en á fundinum eru vel yfir 50 manns, þar af hluti frá Akureyri. Austfirðingar eru þegar á leið til Eyja með Smyrli þar sem meðlimir landssamtakanna koma til með að sameinast innan tíðar. Ólíkt fólk sem á þó sameiginlegan reynsluheim; galdratilfinninguna að sitja á kraftmiklu bifhjóli. „Það er ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu fyrir þeim manni sem ekki hefur setið á hjóli. Maður finnur lyktina af frelsinu í útblæstrinum úr strætó, þá hamingjutilfinningu sem fylgir því að finna rigninguna smjúga inn um saumana á leðrinu og standa hríðskjálfandi eftir langa ökuferð með eitt stórt sælubros á andlitinu. Hvort þetta sé dýrt sport? Þetta er ekki sport, þetta er lífsstíll. Eftir tollalækkanir á bílum í vor er þetta að vísu orðið lúxus. Það eru
svívirðilega háir tollar bæði af mótorhjólum og varahlutum, þeir eru í kringum 100% með vörugjaldi,
tappagjaldi og hvað þetta nú allt heitir. Nú er hægt að fá fimm Trabanta fyrir mótorhjól í dýrari klassanum. Þessi hópur, bifhjólafólk, var sem sagt svikinn um kjarabætur svokallaðar á liðnu vori. Þarna er hagsmunamál á ferðinni og annað hagsmunamál samtakanna er að kenna blikkbeljuökumönnum að mótorhjól er ekki gufa heldur 200 kílóa járnflikki. Það þarf líka að
kenna þeim að horfa vel í kringum sig áður en þeir skipta um akrein því í 90% af mótorhjólaslysum eru mótorhjólaökumenn í rétti." Skúli svarar fyrirspurnum um ferðina. Að mörgu er að hyggja. Samtökin ætla að hafa stórt aðaltjald í Herjólfsdalnum og slá tjaldborg utan um það.
„Er það rétt að aðeins verði sukkað í stóra tjaldinu og menn megi ekki sofna alla helgina nema þeir
deyi?" „Já, en hafa ber í huga að þeir sem deyja verða rannsakaðir mjög ítarlega." „Hvenær verður svo farið heim?" „Klukkan 9 á mánudagsmorgun." Óánægjubaul, en einhver getur þess að mánudagurinn renni ekki upp fyrr en á mánudaginn og enn er fimmtudagur. Hverjum degi nægir
sín þjáning og tími til kominn að rukka inn fargjaldið. Verið er að skrá nýja félaga og þeir þurfa ekki
einu sinni að fara með trúarjátningu bifhjólamannsins til að ganga i samtökin, bara að segja nafnið sitt. Einhverjir tyggja franskar kartöflur, aðrir spjalla og enn aðrir standa úti á plani og skoða ný hjól. Andrúmsloftið er óþvingað og hjá okkur lætur Þormar Þorkelsson móðan mása en það er einmitt hann sem hefur verið að grípa fram í greinina. „Sú imynd, sem búin hefur verið til í hugum almennings af mótorhjólafólki, er af ruddum og ofbeldisseggjum. Þetta á sennilega upptök sín í bíómynd frá sjötta áratugnum, The Wild One, en þar lék Marlon Brando fyrirliða í mótorhjólagengi sem lagði smábæi í rúst. Eftir þetta spruttu upp sh'k gengi í Ameríku og það er ekki óalgengt að okkur sé líkt við Hells Angles. Fólk er nefnilega hrætt við það sem það þekkir ekki og þegar það sér svona stóran hóp verður það, vegna þessarar ímyndar, oft hrætt, sérstaklega útlendingar. Fólk hræðist leðrið en þessi fatnaður
er fyrst og fremst praktískur búningur. Munurinn á rassinum á manni sem hefur farið á hausinn í leðurgalla annars vegar eða jogginggalla og vindúlpu hins vegar er eins og munurinn á fullfrísku nauti og kjöthakki. Þessi fatnaður bjargar því sem bjargað verður ef maður lendir í slysi og er auk þess vindheldur og hlýr. Eitt mottó okkar hérna er: Það er ekki til vont veður á íslandi ■ heldur aðeins rangur klæðnaður."
Fundi er lokið. Bifhjólamenn og -konur týnast út í nóttina, aka í röð niður í miðbæ og æfa sig fyrir hópakstur morgundagsins. Þú hefur ímyndað þér að þetta lið sé kúl, töff og röff en að það lifi tvöföldu lífi; verði nýtt fólk á kvöldin þegar vinnudegi er lökið, þegar það fer úr hárgreiðslusloppnum eða drullugallanum og í leðursamfestinginn. En þú áttar þig á að bankamaðurinn, sem býr á móti þér, fer jafnan úr jakkafötunum eftir sitt níutilfimm strit og sést svo í baðm-' ullargalla úti í garði á kvöldin. Þú hefur í rauninni ímyndað þér allt mögulegt og reynir nú að imynda þér hvernig fundum Snigla og Hrekkjalómafélagsins beri saman í Eyjum. Þú ímyndar þér athöfnina þegar taka á Árna Johnsen inn í bifhjólasamtökin, kímir að þeirri staðreynd að tvöhundruðasti félagi þeirra var gerður að heiðursfélaga og að hann heitir Ómar Ragnarsson. Þú keyrir á blikkbeljunni þinni niður Smiðjuveginn þegar Þormar grípur fram í fyrir þér, í síðasta skipti: „
Mitt mottó sem bifhjólamaður? Lifa sem lengst og keyra sem mest."
Vikan 28.08.1986