24.5.18

Stórfé í góðgerðarstarf eftir mótorhjólamessu


Ánægja með samkennd í mótorhjólamessu í Digraneskirkju. Séra Bára Friðriksdóttir segir nær 700.000 krónur hafa safnast til góðgerðarmála. Félagar úr fjandvinaklúbbunum Hells Angels og Outlaws meðal þeirra sem mættu til kirkju.

Þetta var mín fyrsta en ekki síðasta ferð í mótorhjólamessu í Digraneskirkju,“ segir séra Bára Friðriksdóttir, ánægð með mótorhjólamessu á annan í hvítasunnu í kirkjunni.

Bára segir að margvíslegt góðgerðarstarf hafi tengst mótorhjólamessunni sem nú var haldin í tólfta sinn. „Í samstarfi Digraneskirkju, Grillhússins og Sniglanna voru þennan dag seldir sérlagaðir hamborgarar með nafninu Kraftaklerkurinn og rennur ágóðinn til Grensásdeildar. Sniglarnir tvöfölduðu upphæðina og komu inn ríflega 400 þúsund krónur,“ segir Bára.

Þá hafi félagið Bikers Against Child Abuse á Íslandi annast vöfflusölu og safnað 160 þúsund krónum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.

Auk þess hafi samtökin Toy Run Iceland hrint af stað söfnun í messunni fyrir Pieta samtökin sem vinna að forvörnum fyrir fólk sem beitir sig sjálfsskaða eða er í sjálfsvígshættu. „Verndari söfnunarinnar er séra Gunnar Sigurjónsson en hann er sjálfur vélhjólamaður og stýrði messunni af töffaraskap. Hann keypti fyrsta barmmerkið en Toy Run Iceland mun selja það í sumar á bæjarhátíðum kringum landið,“ segir Bára. Alls hafi 116 þúsund krónur safnast fyrsta söludaginn.


Tæplega 400 manns sóttu messuna og við kirkjuna voru talin 194 hjól af öllum gerðum. Meðal þátttakenda voru félagar úr bæði Outlaws og Hells Angels sem ekki eru kunnir að því að hittast undir sama þaki.

„Það var allt gert í friði, samkennd og virðingu þar sem ólíkir mótorhjólahópar komu saman og voru sem heild. Þetta er þakkar- og gleðiefni og vert að því sé lyft upp,“ segir Bára og kveður mótorhjólamenn hafa lesið úr ritningunni og aðstoðað við útdeilingu. Tónlist hafi verið flutt. „Það var rokkað stuð og fílingur yfir í blíðar ballöður.“


Garðar Örn Úlfarsson

gar@frettabladid.is