Mótorhjólaheimurinn

12.1.21

Ævintýraferð til Ekvador (2 Kafli)

 Ferðasaga á mótorhjóli.

Annar kafli

Eftir Ragnar Hólm Gunnarsson

2. júní

Fruithaven og nágrenni

Fruithaven er félagsskapur fólks sem er hrávegan eða aðhyllist skylt mataræði. Matti er t.d. frutarian og borðar nánast eingöngu ávexti. Félagsskapurinn skipuleggur uppkaup á landi sem hefur verið rutt til akruyrkju og ræktar upp ávaxtaskóga. Landinu er skipt upp í svæði sem fá númer, t.d. erum við staddir á Fruithaven I en verið fleiri samsvarandi svæði eru í uppbyggingu. Hverju svæði er svo skipt upp í skika þar sem er samfélagssvæði og skikar fyrir einstaklinga. Á samfélagssvæðinu er aðstaða er fyrir ræktun græðlinga og þessháttar auk svæðis til ræktunar í þágu samfélagsins. Þar er einnig samfélagshús þar sem sjálfboðaliðar geta fengið herbergi til að búa í.


Ég hóf daginn á göngutúr um svæðið á meðan Matti fór í gegn um morgunrútínuna sína og hér koma nokkrar myndir af svæðinu. Samfélagshúsið er á myndinni fyrir neðan.

Í dag var stefnan tekin á ávaxtamarkaðina í Gualaquiza og El Pangui. Fyrsta mál á dagskrá var að koma hjólinu aftur yfir hengibrúnna. Það er ekki heiglum hent að keyra svona tryllitæki á þessum blautu og hálu moldarstígum og svo var að koma græjunni upp á brúna. Ég hélt að það yrði ekkert mál, en bleytan var til vandræða.

En sem betur fer náðum við tveir að koma hjólinu upp á brúnna í sameiningu og hjólið fór yfir. 

Svo var lagt í hann og Matti aftan á. Markmiðið í dag var að finna einhverja ávexti sem eru ræktaðir á þessu svæði, og helst eitthvað sem ég hefði ekki smakkað áður. Í Gualaquiza fundum við Chirimoya og soursop og í El Pangui fundum við papaya, treetomatoes rautt mangó, gulan drekaávöxt og rambutan sem ég hef jú smakkað heima, en hann er bara svo góður 😊. 

Á heimleiðinni stoppuðum við á stað þar sem hægt var að fá hreinan sykurreyrssafa. Þar keyptum við einn slíkan lítra, og annan sem blandaður var með sítrónusafa. Hreini safinn var full sætur fyrir minn smekk, en sá með sítrónusafanum var æði.

Ég ákvað að nóg væri komið af basli með þetta blessað hjól og brú og blauta moldarstíga svo ég lagði hjólinu bara við brúna. Ég verð bara að vona að það verði þar ennþá á morgun 😬.

Seinnipartinn fórum við í göngutúr um svæðið sem þau eru að rækta. Þar var búið að planta alls kyns ávaxtatrjám. Unnið er að því að gera Fruithaven sjálbært þannig að þar geti samfélagið lifað af eigin afurðum og selut frá sér það sem umfram er. Þetta er enn það ungt að aðeins hluti trjánna eru farin að bera ávöxt en þetta er samt orðinn heilmikill skógur.

Fyrir nóttina náðist aðeins að bragða á drekaávextinum og Chirimoya en Chirimoya er ótrúlega sætt og gott, einn besti ávöxtur sem ég hef smakkað🤩.

Um kvöldið var svo sest niður og áætlun gerð um ferðalag morgundagsins. Stefnan er tekin á Vilkabamba. Fólkið í Fruithaven samfélagin mæli sérstaklega með þessum stað, en þangað fara víst margir til að komast á annað tilverustig með hjálp ýmissa jurta 🙃🤪🥺🤯. Hvort ég fer all-in þar verður bara að koma í ljós 😎. Annars er saga þessa bæjar bráðfyndin. Hann var (og er?!) þekktur fyrir langlífi. Það fóru miklar rannsóknir í gang á þessu óvenjulega langlífi og svo kom bara í ljós að fólk laug um aldur sinn í stórum stíl 😆😂🤣. Þetta hafði víst gengið svona í margar kynslóðir en þannig öðlaðist fólk meiri virðingu í samfélaginu fyrr.


Fruithaven - Zamora

3 júní

Þegar við vöknuðum í morgun var foráttu slagveður og okkur leist ekkert á að fara af stað í þessu veðri 🌧️🌧️. Við ákváðum því að bíða og sjá og fresta brottför mögulega til morguns. 


Um hádegisbil hafði rigningunni slotað og Matti stakk upp á að fara hálfa leiðina í dag, eða til Zamora, og koma við á markaðinum í Yantzaza og það var slegið. Ég fór að pakka niður dótinu og þá vildi ekki betur til en svo að stærðarinnar kakkalakki datt ofan í töskuna 🕷️😱. Ég reyndi að hræða hann upp úr töskunni, en hann hvarf bara lengra ofan í. Ég ég endaði á að týna allt upp úr töskunni og hrista allt vel og vandlega. Aldrei sá ég kauða aftur, en ég vona að hann hafi forðað sér.

Á meðan á þessu stóð byrjaði aftur að rigna, svo við ákváðum að bíða aðeins lengur. Um hálfþrjúleytið hafði dregið nægilega úr rigningunni og við röltum af stað með töskurnar að hjólinu sem beið vonandi hinum megin við ána. Eftir þetta tíu mínútna labb með töskurnar á blautum moldarstígnum og yfir brúna blasti hjólið við í sól og blíðu. Allt annað veður hinum megin við ána 😜. Þannig að við lögðum í hann. Fyrsta mál á dagskrá var að taka bensín, en það voru komnir tæplega 250 km á mælinn, og rúmir 50 km til Yantzaza. Ég hafði séð að það var bensínstöð í El Pangui, sem var í leiðinni svo stefnan var tekin þangað. En þar var eitthvað skrítið í gangi, lögreglumaður með vélbyssu stóð við stöðina og afgreiðslumaðurinn sagði að það væri lokað hjá þeim til kl, hálf sex! Ég spurði hvað væri langt í næstu bensínstöð og hann sagði að hún væri í næsta bæ, "ten minutes". Þá yrði það ekki vandamál. Nema að við keyrðum í gegn um hvern bæinn af öðrum og aldrei kom þessi blessaða bensínstöð. Mér stóð eiginlega ekki á sama því samkvæmt gaurnum á leigunni átti hjólið að komast um 300 km á tanknum, og ég var búinn að fara yfir þessa fjallgarða á þessum tanki 😬😳. 280 km komnir á mælinn og engin bensínstöð! 🥶 Það var nú stutt til Yantzaza og það fór að glitta í eitthvað blátt á GPS-inum. Sem betur fer var það bensínstöð en ekki veitingastaður, og við náðum þangað tímanlega. 3,2 gallon fóru á hjólið, svo við áttum alveg hálft gallon inni. Þá veit ég það, hjólið fer um 350 km á tankinum en ekki 300.


Við kíktum svo á markaðinn í Yantzaza og fengum okkur í svanginn og rétt náðum svo fyrir myrkur til Zamora. Svo á morgun til Vilcabamba. Eða ekki 🤔. Það eru komnir aðrir kostir upp á borðið, en það verður ákveðið í fyrramálið.


Zamora - Saraguro

4. júní

Ég get ekki hætt að undra mig á verðlaginu hér. Á hótelinu sem við gistum á í nótt (sem kostaði ~4þús nóttin fyrir okkur báða) var ekki borinn fram morgunmatur, svo ég fór á lítinn veitingastað við hliðina á meðan Matti var í morgunrútínunni. Ég fékk mér kaffi, hrærð egg og ferskan ávaxtasafa í stóru glasi og verðið; $1,50! Svo voru teknar nokkrar myndir.




Við kíktum við á markaðnum að sjálfsögðu, en hann var frekar lítill og ekki margt að sjá, svo við fórum að huga að brottför. Matti hafði meiri áhuga á að skoða hálendið en að fara til Vilcabamba (1565 mys.) svo ákveðið var fara ekki í suður frá borginni Loja, heldur norður og fara upp í Anders fjjöllin til Saraguro(2860 mys.). Það er heldur ekki svona ferðamannastaður eins og Vilcabamba. En fyrst var það markaðurinn í Loja (borið fram Loha). Það var ekkert smáræði! Endalausir básar af alls kyns ávöxtum. Gallinn við þetta fyrirkomulag er að á mörgum básunum eru sömu tegundir svo ef þú vilt fá besta avókadóið á markaðnum, verður þú að skoða fyrst alla básana, og muna svo á hvaða bás það besta var🙂. 


Við skoðuðum náttúrulega alla básana og versluðum þá ávexti sem okkur leist vel á og ætluðum að finna okkur stað til að fá okkur að borða. En það var rigning og engin aðstaða sjáanleg nema fyrir þá sem keyptu sér mat á matsölubásunum. Og þá fékk maður sæti inni í básnum sjálfum😕. Svo ég keypti mér einn skammt af svínakjöti með hrísgrjónum og tilheyrandi og Matti borðaði ávexti á meðan ég borðaði eitthvað af þessum skammti og ljúffengt cherimoya og maracuya í eftirrétt. 


Eftir smá heimsókn í stórmarkað sem var þarna rétt hjá ákváðum við að nú hefði rigningin rénað nægilega til að halda áfram ferðinni til Saraguro. Það rigndi vel á okkur og yfir fjallvegi að fara og vel yfir 2900 mys. svo það var mun kaldara, en sem betur fer vorum við búnir að klæða okkur í auka peysur svo þetta slapp til. Svo var að finna hótel. Ég hef venjulega verið búinn að panta herbergi fyrirfram svo ég hef bara getað keyrt beint hótelinu og tékkað mig inn. Nú var bara að rúnta um bæinn og reyna að spotta hótel og athuga hvort eitthvað væri laust. Það gekk eins og í sögu í þetta skipti, og við fengum fínt herbergi í fyrstu tilraun. Við ætlum svo að vera hér í tvær nætur og skoða okkur um hér á morgun.

Ég hef alltaf varann á mér núna þegar ég opna töskuna. Ef helv. kakkalakkinn skyldi nú hafa komið með í ferðina 😬.


Saraguro

5. júní


Þá veit ég það. Alltaf að biðja um Café sin azugar. Ég hef að vísu alltaf fengið kaffið án sykurs fram að þessu, það er kannski önnur venja á þessum slóðum. Ég fór á lítinn veitingastað rétt hjá hótelinu og fékk mér kaffi, hrærð egg og nýsteikt empenada eins og er í boði hér á hverju horni alls staðar þar sem ég hef komið. Nema að það var sykur í kaffinu!😖 Það var alveg drekkanlegt svo ég ákvað að vera ekki með vesen og drekka í mig menninguna á staðnum 😜. En empenadan var mjög góð svona nýsteikt.

Markaðurinn var annars fyrstur á dagskrá og hann var bara merkilega góður fyrir ekki stærri bæ. Nóg af ljúffengu cherimoya og als kyns ávöxtum og Matti fann sér náttúrulegt salt og keypti smá völu af salthnullungnum sem var á borðinu. Brot af því muldi hann svo með þessu fína morteli sem var í eldhúsaðstöðunni á hótelinu og notaði með avókadóinu og tómötunum sem hann fékk sér í morgunmat.😋

Við fórum í göngutúr upp í hæðirnar og skoðuðum aðstæður þar, en Matti er að skoða hvort það geti verið áhugavert fyrir sig að flytjast í svona umhverfi. Þetta er góð leið til að kynnast staðnum betur, og við sáum að verið var að rækta alls kyns ávexti hér. Örnefnin hér eru sum hver bráðskemmtileg. Við löbbuðum t.d. meðfram Yukukapak 🤭 og rákumst á Shindarbar 😆. 

Hér eru allur búfénaður bundin og flest með múl og oft meðfram girðingum. En ekki er alltaf splæst í múl á sauðféð sem er þá bundið um fót. Við rákumst á einn ræfil sem hafði flækt sig og ég gat nú ekki annað en losað greyið 🐑. Svo sást eitt stykki Massey Ferguson 🚜, en ég man bara ekki eftir að hafa rekist á traktor hér fyrr!

Hitastigið þetta hátt uppi er mun lægra en í Fruithaven, mun nær Íslandi á góðum sumardegi, en eins allt árið. Að meðaltali um 15 stig og sveiflast frá 12 til 20 °C. Hótelið er ekki upphitað og ég geri ráð fyrir að fólk sé bara með poncho-in sín heima hjá sér eins og starfsfólkið á hótelinu.

Seinnipartinn tók ég svo smá hring á hjólinu og þá var eins og mælaborðið (LCD) væri frosið. Ég vona að það hrökkvi í lag, það er allavega gott að hafa hraðamælinn og kílómetramælinn í lagi 😕. Annars minnir mig að kílómetra mælirinn hafi verið kominn í ca. 1050 km frá upphafi ferðar 😎.


Á morgun höldum við feðgar áfram ferð okkar og er stefnan tekin á ströndina.🏖️🌞🏍️

Saraguro - Cuenca

6. júní

Eftir spegúlasjónir í morgunsárið ákvað Matti að koma með mér í restina af ferðalaginu, en hann hafði fram að því verið að spá í að fara til baka til Fruithaven eftir að hafa heimsótt ströndina (kallinn sem sagt bara þolanlegur 😉🤪). Stefnan var því sett í norður og (í átt að miðbaug 😉) til Cuenca sem fyrsta skrefið í átt að ströndinni norðan við Guayaquil.


Varðandi skjáinn á hjólinu, þá sögðu þeir á leigunni að það væri ekkert vandamál, þeir myndu bara laga þetta þegar ég væri búin að skila hjólinu 🥺. Ég sagði það væri nú betra ef ég sæi hvað ég færi hratt og hversu langt ég væri búinn að keyra, en það var ekkert hægt að gera í þessu núna. Menn sem sagt ekkert að stressa sig þótt kílómetramælirinn sé ekki að sýna rétt 🤔. En svo fiktaði ég eitthvað í þessu og fékk skjáinn til að núllstillast, svo nú hafði ég allavega hraðamæli😐.


Við hófum ferðalag dagsins þó á að kíkja aðeins lengra út frá Saraguro og litast um í 2 litlum bæjum í næsta dal og skoða umhverfið þar. Landslagið hér er stórbrotið og fegurðin gríðarlega mikil þó gróðurfar sé talsvert annað þetta hátt uppi.

Svo var haldið af stað til Cuenca. Mig grunar að á þessari leið hafi ég farið hæst í allri ferðinni til þessa, en við fórum þarna í 3439 m hæð yfir sjávarmáli. Það eru tæplega 11.300 fet sem er fínasta flughæð í millilandaflugi 😎⛰️✈️. Svo það er kannski ekki von að maður hafi verið loppinn á höndunum og svolítið kalt 🥶.

Ég var aðeins að gera tilraun með að panta ekki hótel fyrirfram, og það gekk ágætlega í Saraguro. Í morgun athugaði ég verð á nokkrum stöðum á svipuðum stað og ég var síðast og fann ágætt hótel sem átti að kosta $28 í Booking appinu. Þegar ég mætti svo og spurði hvort það væri laust, jújú, það ár laust, og verðið $39! Þá fór ég eitthvað að röfla um að ég hefði nú séð þetta talsvert ódýrara á Booking og þá sagði hún ó já Booking og fann herbergi á $28. Og þetta er á frábærum stað í miðborginni. Það borgar sig sem sagt að bóka fyrirfram til að tryggja sem best verð.

Stefnan er svo tekin niður á láglendið á morgun til Guayaquil sem er stærsta borgin í Ekvador með 2,7 milljónir íbúa en 3,1 milljónir búa á svæðinu.


Cuenca - Guayaquil

7. júní

Ég heimsótti kirkjuna Catedral de la Inmaculada Conception (e. Cathedral of the Immaculate Conception) í morgunlabbitúrnum. Þetta er ekkert smáræðis mannvirki og smáatriðin svakaleg. Það var akkúrat altarisganga í gangi þegar ég kom þarna, þannig að ég mátti því miður ekki taka myndir en ég mæli með heimsókn þangað.


Við lögðum svo af stað til Guayaquil um 11 leytið í fínu veðri. Góður partur af leiðinni er um seinfarna fjallvegi og við lentum í þoku/skýjum sem var það þétt að ekki var hægt að sjá hvort bíll væri að koma á móti. Það stoppar ekki ekvadorana í að taka fram úr. Ég lenti á eftir hægfara bíl á tímabili og svæsnasta dæmið sem við sáum var þegar rúta skellti sér fram úr í þykkri þokunni þó ekkert sæist hvað var framundan. Bara þeyta lúðra, blikka ljósum, gefa í og vona það besta 🥶. Svo er mótorhjólum ekki sýnd nein miskun þegar umferð á móti á í hlut. Þeir fara bara fram úr og flauta á mann, svo það er eins gott að fara vel út í hægri kant til að lenda ekki fyrir.

Víð stoppuðum einu sinni á leiðinni á litlum ávaxtamarkaði við veginn og fengum okkur snarl. 

Eftir það vorum við komnir á láglendið, og mér orðið ansi heitt. Það var því ágætt að það var hægt að keyra á meiri hraða núna, ekki þessar endalausu kröppu beygjur, og ekki þoka heldur.

Svo er það Guayaquil. Þetta er ótrúleg borg. Þetta er stærsta borg Ekvador, og það búa eins og áður sagði rúmlega þrjár milljónir manna (metropolitan). En hún virkar rosalega dreifð og gatnakerfið óskilvirkt. Ég var búinn að bóka herbergi á hosteli og sló heimilisfangið inn í GPS-inn. Þegar ég beygði inn í hverfið þurfti ég að fara í gegnum öryggishlið og vörðurinn spurði um eitthvað og ég benti bara á GPS-inn og við höfum greinilega lítið nógu sakleysislega út því hann hleypti okkur í gegn. En það var bara eitt vandamál. Það var ekkert hostel þarna🥺. Ég kíkti þá í appið það segir að við séum 20 mínútum frá hostelinu! Það hafði sem sagt eitthvað misfarist við að stimpla hostelið inn í GPS-inn, og mér tókst ekki að finna hostelið í GPS-inum! Það er sem sagt enn einn lærdómurinn í þessari ferð; ekki panta gistingu nema á stað sem finnast í öllum leiðsögutækjum!

Miðað við það sem við höfðum séð giskaði ég á að 20 mínútur á appinu þýddi allavega 40 mínútur í raun. Og það í þessari fáránlegu umferðarómenningu! Ég ákvað því að athuga hvort ekki væri hægt að finna hótel í nágrenninu og jú það var eitt í 6 mínútna fjarlægð. Við héldum því af stað. En þetta hverfi var heldur óhrjálegt, og við fengum á tilfinninguna að það væri kannski alveg ástæða til að hafa öryggisverði fyrir hverfin þarna. En ég fann hótelið. Það var ekkert lobbí eins og maður er vanur, heldur var þarna kona í rammgerðu búri, og ég spurði í sakleysi mínu hvort hún ætti herbergi fyrir tvo. Hún spurði á móti: "Í hversu marga tíma?"!?!??🥺😶. Ég sagði náttúrulega "una noche"? En sem betur fer átti hún ekki herbergi með tveimur rúmum, svo ég spurði hvort hún vissi um eitthvað hótel í nágrenninu fullviss um að hún mundi benda okkur á næsta hótel sem hæfði þessum herramönnum. Jú, "Hotel Deseos". Ég var ekkert að kveikja á þessu … fyrr en ég kom á staðinn og sá lógóið. Deseos þýðir náttúrulega þrá (e. desire) og lógóið hjarta og eitthvað þannig. En umferðin var rosaleg svo ég fór og spurði í gegn um rimlana hvort hún ætti herbergi fyrir tvo. "Í hversu marga tíma?" var aftur spurt. Í eina nótt? Með tveimur rúmum?🙂 Sem betur fer átti hún það ekki til og við ákváðum að fara bara á hostelið sem ég var búinn að panta. Það tók sinn tíma, og nokkur áhættuatriði í umferðinni, en það fannst að lokum um hálf sexleytið. Að vísu ekki alveg á réttum stað í appinu, en nógu nálægt til að konurnar á bak við rimlana í búðinni á staðnum sem appið vísaði á vissu hvar það var. Og við vorum voða fegnir að sjá að þetta var bara ljómandi fínt.

Matti var alveg búinn á því og lagði sig. Ég fór að finna mér eitthvað að borða og sá í Google að það voru nokkrir veitingastaðir í nágrenninu. Ég var ekki kominn götuna á enda þegar fyrstu veitingastaðirnir birtust. Og svo hver á fætur öðrum. En ég komst ekki lengra en á þarnæsta horn þegar ég rak augun í fólk að borða krabba. Það hafði ég aldrei prófað áður, þá var það ákveðið. 😁🦞Ég hafði að vísu einhverntíma smakkað að ég held trjónukrabba þegar á barnsaldri, en þessi var ekki jafn bragðgóður og ég átti von á en þó alveg ágætur. Ég fékk smá tilsögn um hvernig ég ætti að borða úr búknum, en þau gætu alveg hafa verið að rugla í mér, en varla, því þetta bragðaðist alveg ágætlega.

Á morgun drífum við okkur svo út úr þessari brjáluðu borg og förum á ströndina 😁😎🏖️

Guayaquil - Puerto López

8. júní

Það var eitt sem mig langaði að gera í Guayaquil og það var að fara í Parque Seminario, oftast nefndur Parque de las iguanas. Ég er svoddan sökker fyrir eðlum og þessháttar þannig að ég gat ekki látið þessar fram hjá mér fara. Ég vildi þó helst ekki keyra meira í þessari borg en nauðsynlegt er, svo ég ákvað að taka leigubíl. Það kom einhver ómerktur svartur fólksbíll að sækja mig, en ekki einn af þessum gulu eins og maður átti von á. Og aksturinn maður 🥺. Það var ekki hraðinn heldur það hvernig var ekið. Hann var sjaldnast á akrein og tróð sér inn á milli bíla á milli akreina nánast allstaðar þar sem einhver bið var. Svo var bara flautað endalaust og veifað. Það gekk þó slysalaust að komast á staðinn og gaman að sjá þessar skepnur í návígi og um allt þarna í garðinum 🦎🙂. Ég var á varðbergi varðandi að fá ekki eina í hausinn því ég var búinn að lesa eina lýsingu á garðinum þar sem minnstu mátti muna að gestur í garðinum fengi eina þeirra í höfuðið þegar hún datt úr einu trénu.

Ég labbaði svo niður að sjónum þar sem búið er að útbúa skemmtilegt svæði sem þeir kalla Malecón 2000.


Eftir göngutúr þurfti ég að koma mér til baka. Ég sá hvergi staði með leigubílum að bíða svo ég veifaði einum gulum og hann stoppaði með það sama. Ég sýndi honum heimilisfangið og þá kom í ljós að hann hann sá ekki nægilega vel til að geta lesið það🥺. Ég las heimilisfangið, en hann vissi samt ekkert hvar þetta var 😬. Á næstu ljósum reyndi ég að sýna honum í appinu hvar þetta var, en hann var ekki að átta sig á þessu🥶. Þá kom sér vel að kunna þó þetta litla sem ég er búinn að læra spænsku og ég vísaði honum leiðina eftir því sem appið sagði. Og náttúrulega með bendingum 😁. En appið var greinilega ekki með nýjustu upplýsingar um einstefnugötur í borginni svo við lentum út af leið nokkrum sinnum. Svo ákvað bílstjórinn að stoppa bílinn og fá aðstoð manns sem gat séð á appið og það endaði með að hann áttaði sig á því nokkurn veginn hvar þetta var og í sameiningu komumst við á leiðarenda 🙂(fjúff).

Nú er það ferðin á ströndina 😎. Ég var búinn að kvíða fyrir því að keyra meira í þessari borg, en svo gekk þetta bara ótrúlega smurt. Víð vorum náttúrulega á ferðinni á föstudagssíðdegi í gær svo það er kannski ekki að marka (það var þá dagurinn til að prófa þetta 🤪.) Við stoppuðum náttúrulega í fyrsta strandbænum, San Pablo og fengum okkur kókoshnetu á ströndinni 🏖️🥥. 

Við stoppuðum aðeins við í Montañita og þar var kominn mikill túristabragur á strandsvæðið. Enn meiri en í Puerto López þar sem við verðum næstu tvær nætur.

En við fengum fínt herbergi við ströndina í góðri fjarlægð frá mestu látunum. Þetta er reyndar skrifað í mestu látunum 😉🍺.

Ég bókaði mig í ferð til Isla de la plata (silfureyja), sem er stundum kölluð litla Galapagos í fyrramálið og það verður gaman að sjá hvað þar verður í boði. Þetta tekur allan daginn og Matti er meira fyrir rólegheitin og ætlar að eiga rólegan dag.

Fyrsti kaflinn

Þriðji kafli