Mótorhjólaheimurinn

30.12.20

Ísland of lítið fyrir mótorhjólið (2014)


 HÚN ER NÝKOMIN ÚR ÞJÁLFUNARBÚÐUM ALÞJÓÐAMÓTORHJÓLASAMBANDSINS, SÉRSTÖKUM STAÐ TIL ÞESS AÐ EFLA KONUR TIL AÐ KEPPA Í ALÞJÓÐLEGUM MÓTORHJÓLAKEPPNUM. HÚN STEFNIR Á AÐ MÓTORHJÓLAKEPPNI Á SPÁNI Í SUMAR. KARLAR OG KONUR KEPPA SAMAN Á JAFNRÆÐISGRUNDVELLI.

Ég var um fimm ára gömul þegar ég byrjaði að hjóla, á reiðhjóli,“ segir Nína K. Björnsdóttir og brosir. „Ég fór strax að stökkva í gryfjum og þau voru ófá skiptin sem pabbi þurfti að sjóða saman hjólið mitt. Síðar fékk ég BMX-hjól og hjólaði aðallega með strákunum, það voru ekkert voðalega margar stelpur sem voru á þeirri tegund af hjólum en ég var bara orðin sjúk í allt sem tengdist hjólum sem krakki.“ Nína var svo 15 ára þegar hún komst í tæri við skellinöðru. „Fyrst hjólaði ég bara á nöðrunni sem þáverandi kærastinn minn átti, en fljótlega keypti ég mér mína eigin. Stuttu seinna var kominn tími á bifhjólaprófið og þá fékk maður strax réttindi á stórt hjól, hvaða mótorhjól sem er, en það er ekki svo núna.“
   Hún segir aðspurð að það hafi ekki verið svo margar stelpur í þessu. „Ég þekktir engar. Ég er ekki þessi félagslynda týpa og sótti ekki í hinn dæmigerða mótorhjólafélagsskap eins og Sniglana, ég var bara í þessu á mínum forsendum með vinum mínum í Garðabæ.“

Æfir sig til að verða betri ökumaður

Nína segir erfitt að lýsa því hvað sé svona heillandi við mótorhjólasportið. „Það er að sumu leyti hraðinn, en hér heima er hámarkshraðinn svo lágur að það er afar lítill hluti af sportinu. En það er gott að vera einn með sjálfum sér og útiveran skorar hátt. Það er til dæmis frábært þegar illa liggur á manni að setja hjálminn á hausinn og fara út að hjóla.“
   Mótorhjólakonan segir aðstöðuleysið gera það að verkum að mjög erfitt sé að stunda sportið hérlendis. „Hér eru til dæmis engar lokaðar brautir sambærilegar við þessar erlendis, þar sem hægt er að æfa sig og ná betri árangri sem ökumaður og jafnvel æfa sig undir erlendar alþjóðlegar keppnir.“ Í kjölfar stofnunar götuhjóladeildar Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar árið 2007 varð skammvinn breyting þar á. „Tvær helgar það sumar fékkst leyfi til að loka Rauðhelluhverfinu, sem þá var bara malbikaður vegur og nokkrir ljósastaurar, og búa til akstursbraut. Það var frábært veður og fullt af fólki sem mætti og æðisleg stemning. En því miður dugði sælan aðeins þær tvær helgar því í framhaldinu hélt uppbygging iðnaðarhverfisins áfram.
   Ég var í stjórn deildarinnar í nokkur ár þrátt fyrir að þekkja engan í upphafi, en kynntist fullt af góðu fólki sem hefur þennan sama áhuga á akstursíþróttum á mótorhjólum. Í dag er notað akstursíþróttasvæði félagsins (gamla rallýkrossbrautin) sem er lítill hringur sem hægt er að æfa sig á. Því má eiginlega líkja við tækniæfingar. Þar hittist hópur mótorhjólafólks tvisvar í viku yfir sumarið. Æfingarnar hjálpa manni, eins og ég hef áður sagt, að verða betri og öruggari ökumaður, einmitt vegna þess að þarna getur maður lent í óvæntum aðstæðum eins og úti í umferðinni en við miklu öruggari aðstæður. Við erum ekki stór þrýstihópur, en þessi svæði eru alveg nauðsynleg, þ.e. að það þarf að vera til gott æfingasvæði til að bæta færni. Þetta svæði mætti nýta í svo margt, t.d. í kennslu í akstri bíla, mótorhjóla og fleiri ökutækja. Þar sem fólk getur bætt kunnáttu sína í öruggu umhverfi, með eða án leiðsagnar, án þess að leggja annað fólk eða umhverfi sitt í hættu.

Hjólar á kappaksturbraut á Spáni

Það kom að því að Ísland yrði of lítið fyrir Nínu og mótorhjólið. „Ég eyði öllum mínum peningum og tíma í mótorhjól,“ segir þessi 37 ára gamla móðir. „Ég keypti mér fyrir nokkrum árum í félagi við annan mótorhjól sem er geymt á Almeria á Spáni og þangað fer ég a.m.k. tvisvar á ári og keyri á lokuðum brautum.“ Nína er einmitt nýkomin frá Almeria en nú tók hún þátt í þjálfunarbúðum Alþjóðamótorhjólaráðsins, á hennar heimavelli. „Ég fékk þar BMW S1000RR-hjól, þriggja milljóna króna hjól,“ segir hún og brosir og gefur í skyn að það hafi ekki verið neitt slor. „Þetta var 4 km braut. Við mættum klukkan níu á morgnana og hjóluðum til fjögur með kennara en bæði á undan og eftir var líkamsrækt.“ Það hefur nú ekki verið neitt mál fyrir Nínu en hún er margfaldur Íslandsmeistari í handknattleik. „Ég sá það í þessum þjálfunarbúðum að ég var alveg á pari við þær sem voru hálfatvinnumenn.

    Mig langar því mikið að reyna mig í keppnum erlendis en það kostar fé og ég verð því að leita eftir styrkjum. Þetta eru yfirleitt ekki kynjaskiptar keppnir, það keppa konur og karlar saman á jafnræðisgrundvelli, þetta er bara spurning um hversu góður ökumaður þú ert. Ég er núna um páskana að fara til Almeria á Spáni og keppa í fyrsta sinn, þar eru aðallega Bretar og Hollendingar í keppninni, og hlakka til að sjá hvar ég stend. Ég stefni ekki á atvinnumennsku, en ég veit ég get bætt mig helling og stefni á að keppa oftar en einu sinni áður en ég verð of gömul. Ég veit að ég á talsvert inni og vona að ég geti sagt barnabörnunum mínum frá ferlinum þegar þar að kemur,“ segir hún og brosir.
   Hún viðurkennir að kappakstursumhverfið sé almennt ekkert sérlega kvenvænt. „Það eru tiltölulega fáar konur að hjóla á svona keppnisbrautum, þar er alltaf talað um allt í karlkyni og karlmenn eiga það til ýmist að verða mjög fúlir eða hissa þegar þeir sjá að stelpa stakk þá af.“ Hún segir samt að almennt hafi konum sem keyra mótorhjól fjölgað mjög. „Þær eru farnar að stunda þetta sport, oft með makanum. Hjón njóta þess að fara út að hjóla saman.“
   Ertu áhættufíkill? „Nei, þetta er allt undir góðri stjórn,“ segir hún Nína, sem þeysist hratt um á mótorfák. 


Morgunblaðið 16.3.2014
Unnur H. Jóhannsdóttir
uhj@simnet.is