Mótorhjólaheimurinn

28.8.20

Upplifun erlends mótorhjólafólks á Íslandi

BS ritgerð eftir  Viðar Jökul Björnsson   

Ágrip 


Mótorhjól eru ákveðinn fararmáti sem getur boðið upp á spennu og flæði adrenalíns. Mótorhjólið getur líka verið tákn frelsis í hugum þeirra sem aka þeim og geta boðið ökumanni sínum þann möguleika að skynja umhverfi sitt fullkomlega. Getur verið að hjólið bjóði því erlenda mótorhjólafólki sem kemur hingað til landsins, þrátt fyrir hverfult veður og oft óhentug akstursskilyrði, upp á annars konar upplifun á rými? Er hér annars konar ferðamaður á ferðinni? Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mótorhjólaferðamenn geti verið dæmi um hinn nýja ferðamann, harðgerðari ferðamann sem sækist eftir nálægð við náttúruna og vill kynnast landinu á einstakan hátt en það tekst með aðstoð mótorhjólsins, líkamans og skynfæranna.
Mótorhjólafólk er tilbúið að láta ýmislegt ganga yfir sig, svo sem vont veður eða torfærur í leit sinni að einstakri upplifun og hinu ósvikna. Mótorhjólið gefur fólki þá tilfinningu að það sé nær náttúrunni en farþegar í „búri“, en það segja margir mótorhjólamenn þegar þeir tala um bílinn.

Inngangur 



Mótorhjólið hefur gefið einstaklingnum tækifæri á að komast leiðar sinnar á hagkvæman hátt. Það hefur notið meiri vinsælda þar sem loftslag er heitara samanber Ítalíu en notkun þeirra hefur vissulega aukist.
Mótorhjól eru gjarnan kölluð mismunandi nöfnum. Sumir kjósa að kalla þau vélhjól, aðrir mótorhjól og enn aðrir bifhjól. Það eru einnig til mörg orð sem eiga að lýsa ökumönnum mótorhjóla en oftast er þó orðinu fólk einfaldlega bætt aftan við orðin sem lýsa ökutækinu. Hér verður ýmist notað mótorhjólafólk eða bifhjólafólk, en í þessu verkefni er gengið út frá þeirri forsendu að það sé það fólk sem hefur réttindi til aksturs slíkra tækja og ekur sjálft eða eru farþegar á mótorhjólum sem það ýmist á eða leigir.
Í augum mjög margra eru mótorhjól ekki bara verkfæri eða vél á tveimur hjólum með hnakk og stýri heldur svo miklu meira. Mótorhjólið getur oft verið holdgervingur frelsis og jafnvel leiks því það að setjast á mótorhjól þar sem margir tugir hestafla bíða reiðubúnir eftir skipun ökumannsins og sú tilfinning að finna vindinn í andlitið jafnast seint á við það að setjast upp í bíl, eða „járnbúr“ (Urry 2004, bls. 28).
Dýrkun á vélknúnum farartækjum er víða að finna. Gunster (2004) fjallaði um auglýsingar jeppaframleiðenda í því samhengi en hvað varðar mótorhjól þá endurspeglast dýrkunin í röðum fag- og glanstímarita en slík tímarit eru þó nokkur og má til dæmis nefna Superbike Magazine og Motorcyclist.
                Sumir flokka ást á mótorhjólinu undir „mótorhjóladellu“ (e. motorcycle mania) samanber kvikmyndirnar sem framleiddar hafa verið af Jesse James undir sama nafni. Líklegt er að meðal slíkra aðdáenda sé tækið sjálft í forgrunni. Þeir falli fyrir lögun hjólanna, hávaðanum, tækninni, tilfinningunni sem fylgir akstri á mótorhjóli og síðast en ekki síst myndinni sem hún gefur af eiganda þess. Almennt er þó lítið sem rennir stoðum undir að ferðamenn sem ferðast á mótorhjólum þurfi endilega einungis að vera í hópi róttækustu aðdáenda mótorhjólsins sjálfs heldur sé um breiðari hóp að ræða. Mjög líklegt er að þeir spanni allt frá tækjadellufólki til útivistarunnenda sem sjá hjólið sem farartæki.
        Mótorhjólið sjálft er fyrir ákveðinn hluta fólks meira en farartæki. Það er orðið að lífsstíl útaf fyrir sig. Það getur verið nokkurs konar fíkn að aka hjóli sem erfitt er að 2 hemja og birtist í því að eigendur þeirra vilja oft nota hvert tækifæri sem býðst til þess að aka um á þeim (John 2005).
Sumt bifhjólafólk leggur land undir fót með fákinn sinn og leggst í ferðalög í langan tíma og til fjarlægra landa. Í þessu samhengi er vert að velta fyrir sér hvernig reynslan og það farartæki sem ferðast er með tvinnast saman og leiða til sérstakrar upplifunar.
         Upplifunin og ímyndin af áfangastað í kjölfarið er mótuð af samanlögðum tilfinningum, hugmyndum og vangaveltum sem skynfærin vinna síðan úr (Arnar Már Ólafsson munnleg heimild, 6. nóvember 2002). Upplifun og neysla fjallar að langmestu leyti um skynjun. Hver og einn hefur sinn smekk þar sem ferðalög eru engin undantekning, né heldur sú upplifun sem fólk sækist eftir að fá út úr þeim. Lykt, hljóð, bragð, snerting og sýn leika þar lykilhlutverk líkt og góð máltíð má segja. Það eru skynfærin sem safna öllu í gagnabanka sem margir síðan leita í síðar meir til endurupplifunar eða minninga. Neysla áfangastaðar líkt og Crouch (2005) fjallar um þegar hann segir að ferðamaðurinn sé „þátttökuneytandi“ (75) sem tengist þá gjörðum og hugsunum hans á tilteknum stað.
           Sumir áfangastaðir eru væntanlega vinsælli en aðrir meðal bifhjólafólks. Athyglin og þær rómantísku lýsingar sem Ísland fær í erlendum bifhjóla- og ferðatímaritum frá Skandinavíu, Þýskalandi og Austurríki er jákvæð (sjá Zscheile 1998). Samkvæmt þessum sömu ferðaumfjöllunum má draga þá ályktun að töluvert er um að mótorhjólafólk kjósi að fara óheflaðri leiðir en hægt er að velja sem ferðamaður á Íslandi (sjá Waibel og Stettler 1994). Sú ákvörðun að upplifa önnur og framandi lönd á mótorhjóli er spennandi lífsreynsla þar sem hver og einn mótorhjólamaður nýtur þess og neytir á sinn hátt. Margir erlendir bifhjólaferðamenn frá Evrópu nýta sér siglingar ferjunnar Norrænu og koma hingað til lands á mótorhjólum sínum. Sumarið 2005 var rætt við erlenda bifhjólamenn sem voru búnir að kynnast Íslandi en voru á heimleið og verða þeir meginviðfangsefni þessa verkefnis. Markmið verkefnisins er að rannsaka hvernig mótorhjólið og sú ferðamennska sem henni tengist gefur möguleika á sérstakri rýmisupplifun.

  3 Rannsóknarspurningin er því eftirfarandi:
Að hvaða leyti býður mótorhjólið sem farartæki upp á sérstaka upplifun í ferðalögum ferðalanga á Íslandi með tilliti til rýmisupplifunar og ferðareynslu?

Að hvaða leyti er mótorhjólaferðafólk sérstök tegund ferðamanna og hvernig tengist upplifun þess á landslagi þessu öllu, skynjun umhverfisins og snertingu við frelsið?


Sjá alla ritgerðirna á eftirfarandi slóð.
https://skemman.is/bitstream/1946/20816/1/Upplifun%20erlends%20m%C3%B3torhj%C3%B3laf%C3%B3lks%20%C3%A1%20%C3%8Dslandi_Vi%C3%B0ar%20J.%20Bj%C3%B6rnsson.pdf