Mótorhjólaheimurinn

30.5.17

Þar sem eitt mótorhjól stoppar kemur alltaf annað skömmu síðar

Drekar huga að hjólum sínum við Olís á Reyðarfirði.
Mynd: Hjalti Stefánsson

Drunur mótorhjólanna er eitt af því sem fylgir hækkandi sól á vorin. 

Félagar í Drekum, Vélhjólaklúbbi Austurlands, hafa dustað rykið af hjólunum og fært þau út á göturnar. Félagar hittast vikulega til að bera saman bækur sínar.

„Þetta er tólf ára gamall félagsskapur, stofnaður með það göfuga markmið að stuðla að sem mestri samstöðu bifhjólafólks á Austurlandi. Við erum með 120 manns á félagatali, þar af má segja að helmingurinn sé virkur. Það er gríðarlega mikið hjarðeðli í mótorhjólamönnum. Sjálfstæði bækerinn er bara goðsögn. Þar sem eitt mótorhjól stoppar kemur alltaf annað skömmu síðar,“ segir Högni Páll Harðarson félagsmaður.

Saga Högna er lík sögum margra annarra sem heillast af vélfákunum. Hann segist hafa fengið mótorhjóladelluna ungur að árum en „haldið henni lengi í skefjum með ýmsum aðferðum, aðallega
barneignum og því sem þeim fylgir“. Þegar börnin hafi stálpast hafi hann sleppt sér lausum á ný og hellt sér í hjólin af öllu afli. „Mér verður ekki bjargað úr þessu.“

Flestir komnir hið minnsta til ára

Högni stendur ekki einn í áhugamálinu því kona hans Unnur Sveinsdóttir hefur einnig verið virk í hjólafélagsskapnum en þau fóru saman á hjólum sínum alla leið til Mongólíu og gáfu síðar út bók um ferðalagið. Högni segist hafa náð að sameina tvö áhugamál; ferðabakteríu og hjóladellu. „Þegar ég var kominn með svefnpokann á hjólið small eitthvað.“

Hópurinn hittist einu sinni í viku, á miðvikudagskvöldum. Högni segir starfið líflegast á haustin og vorin, eftir veturinn séu allir æstir í að komast af stað á ný. Hann segir felast frelsi í hjólunum og með félagsskapnum gefst tækifæri til að hitta aðra með svipaðar dellur.

Hann segir nýliðun í mótorhjólunum aðallega felast í mótorkrossinu en innan Drekanna séu allir velkomnir. „Okkur þykir vænt um alla, hvort sem þeir vilja keyra í hringi í drullu eða panta sér krómaða hringi af netinu og þykjast vera að búa til mótorhjól heima í skúr. Skilyrðið fyrir inngöngu er að menn séu komnir annaðhvort til vits eða ára og flestir í klúbbnum eru að minnsta kosti komnir til ára.“

Stöðugt þarf að sinna öryggismálum

Félagsstarfið í Drekunum snýst ekki eingöngu um að keyra á þjóðvegunum milli bensínstöðva eða dytta að hjólunum inni í skúr. „Við vinnum að samstöðu bifhjólafólks í víðasta skilningi og látum okkur öryggismál varða. Innan klúbbsins starfar öryggisnefnd og við höfum fundað reglulega með Vegagerðinni og sveitastjórnum. Það þarf stöðugt að ýta á að hlutum sé sinnt, viðhaldi á vegum og merkingum þar sem vegaframkvæmdir eru í gangi. Við teljum okkur vera að vinna gott starf.“

Austurglugginn 

Höfundur: Gunnar/Ásgrímur 

 Skrifað: 30. maí 2017.