Mótorhjólaheimurinn

4.8.19

Kominn á sextugsaldur en ungur í anda

„Það er langt í frá að komist jafn oft út að hjóla og mig langar. Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. 

Ég eignaðist fyrsta mótorhjólið mitt 1990 en sem unglingur á áttunda áratug síðustu aldar var ég með blæðandi skellinöðrudellu. Ég fékk hins vegar ekki að kaupa mér eina slíka en fékk að sitja aftan á hjá vinum mínum,“ segir Steinmar Gunnarsson formaður Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins. Steinmar segist svo hafa tekið nokkurra ára hlé en farið að hjóla aftur upp úr aldamótunum. „Þá kviknaði áhuginn aftur,“ segir hann.

Sniglarnir eru um margt afar merkilegur félagsskapur. Félagið fagnar 35 ára afmæli sínu á þessu ári. Það sinnir hagsmunagæslu fyrir alla bifhjólmenn á Íslandi en á sama tíma hefur félagið beitt sér fyrir slysavörnum í umferðinni svo eftir hefur verið tekið. Sniglarnir hafa í nokkur ár átt fulltrúa í Umferðarráði. Þeir hafa líka sinnt góðgerðarmálefnum og sem dæmi má taka að Kraftaklerkurinn er samstarfsverkefni Snigla, Mótorhjólamessunnar og Grillhússins. Verkefnið skilaði Grensásdeild rúmum 600 þúsund krónum í ár.

Félagsstarf Sniglanna er öflugt. Það eru haldnir hjóladagar og svo er opið hús einu sinn í viku yfir sumartímann. Skráðir félagar eru um 400 en frá upphafi hafa 2500 manns starfað innan vébanda Sniglanna. Það eru talsvert fleiri karlar en konur í félaginu en þeim er að vaxa ásmeginn. „Það er gleðilegt að sjá að konunum er að fjölga og nú eru nokkrir hjólahópar eingöngu skipaðir konum og í hinum ýmsu klúbbum um landið eru hluti félaganna konur, ýmist á eigin hjólum eða sitja aftan á hjá körlunum. Þær eru stundum kallaðar hnakkaskraut, segir Steinmar og kímir.

„Annars er þetta nú þannig að menn koma og fara eins og í öðrum félögum. Okkur finnst nýliðun raunar ekki alveg nógu og mikil hjá okkur. Það vantar yngra fólk ætli meðal aldur félagsmanna sé ekki í kringum fimmtugt í dag, „ segir Steinmar og bætir við; „Það hljómar rosalega hátt. Maður er kominn á á sextugsaldur en mér finnst ég alveg jafn ungur í anda og ég var þetta er spurning um hugarástand og heilsu. Það er oft sagt að mótorhjól sjáist aldrei fyrir utan skrifstofu sálfræðinga vegna þess að það sé svo góð þerapía að aka hjóli. Þetta tekur mann út úr amstri dagsins. Skilningarvitin skerpast, maður heyrir hljóðið í mótornum, vindgnauðið í hjálminum og svo finnur maður lykt af öllu sama hvort það er angandi gróðurlykt eða skítafýla. Að vera á hjólinu krefst óskiptrar athygli, einhver sagði einhvern tíma að það að keyra bíl væri eins og að horfa á kvikmynd en að vera á mótorhjóli væri eins og vera í kvikmynd.“

Steinmar bendir líka á að ástæðan fyrir því að yngra fólki á mótorhjólum hefur fækkað gæti verið sú að hjólin eru dýr og það er dýrt að tryggja þau en fleira gæti komið til.

„Án þess að ég hafi nokkrar vísindalegar sannanir fyrir því þá held ég að yngra fólk sé ekki jafn hrifið af farartækjum sem nota jarðefnaeldsneyti og það var. Það er munur á afstöðu kynslóðanna í þessum efnum. Við fengum þá hugmynd að vekja áhuga á rafmagnshjólum á 35 ára afmæli samtakanna. Við erum með samstarfsaðila í Hollandi sem koma í sumar og kynna rafmagnsbifhjól. Við ætlum að fara hringinn í kringum landið á rafmagnshjólum og hefjum ferðina 8. ágúst á Seyðisfirði og endum á Egilsstöðum viku síðar.

Margir telja að það sé afar hættulegt að aka bifhjólum, Steinmar er því ekki alls kostar sammála. Ég vil nú gerast svo grófur að segja að það fari eftir hegðun hjólamannsins og annarra vegfaranda hvort þetta teljist hættulegt sport eða ekki. Með bættri fræðslu og hertum reglum hefur slysum fækkað. Á síðustu átta árum hefur bifhjólum fjölgað um 20 prósent en alvarlegum slysum hefur á sama tíma fækkað um 57 prósent.Þetta eru tölur frá Samgöngustofu. En hvert slys er einu slysi of mikið,“ segir Steinmar að lokum.