Mótorhjólaheimurinn

3.12.18

Af Ingólfi og hinum gleymdu bræðrunum.


Undir lok 19. aldar fæddust bræður á bænum Espihóli í Eyjafirði.

Espihóll Eyjafirði
 Þeir afrekuðu ýmislegt í lifanda lífi en féllu jafnframt nokkuð í gleymskunnar dá eftir dauðann. Saga bræðranna og foreldra þeirra er athyglisverð. Hún er sveipuð ákveðnum ævintýraljóma, ekki síst vegna afdrifa bræðranna, ævintýramanna sem stuðluðu að nýsköpun með því að bjóða ríkjandi hugmyndum í atvinnulífi birginn. Enn liggur margt á huldu í sögu þeirra bræðra, sögu af sigrum, gleði og framsýni en um leið sorgarsögu fjölskyldu sem á einhvern ótilgreindan hátt hefur fennt yfir hin seinni ár.

Aðalstræti 16
Akureyri







Saga Espholinbræðra er mörgum ýmist gleymd eða hulin. Lítið hefur verið skráð og gefið út um lífsferil bræðranna, ekki síst er snýr að einkalífi þeirra. Jón Hjaltason gerði Espholinbræðrum ágæt skil árið 2004 í bók sinni Saga Akureyrar – Válindir tímar 1919-1940, IV. bindi . Grenndargralið fer hratt yfir sögu Ingólfs Gísla, bræðra hans Jóns, Steingríms, Hjalta og Þórhalls og foreldranna Sigtryggs og Guðnýjar.
Þeir voru fimm. Fjórir voru tæknimenn og uppfinningamenn í upphafi 20. aldar. Þeim fimmta, Steingrími sem var fæddur árið 1890, var snemma komið í fóstur og því ólst hann ekki upp með bræðrum sínum. Espholinbræður voru athafnamenn og brautryðjendur. Meðal þess sem þeir afrekuðu, ýmist einir eða saman, var að auglýsa flugvélar til sölu en þeir urðu fyrstir Íslendinga til að gera það fyrir sléttum 100 árum síðan, árið 1918.
Þeir seldu auk þess mótorhjól af Henderson-gerð, bíla, báta og stór skip. Þá hönnuðu þeir sjálfir og framleiddu vélar í báta. Þeir fluttu inn og seldu vörur af ýmsum toga svo sem timbur, málningu, múrsteina og nagla. Þeir ráku bifreiðaverkstæði og tunnuverksmiðju. Hér eru aðeins nokkur atriði nefnd svo glöggt má sjá að framkvæmdagleðin var mikil hjá Espholinbræðrum. Hún var þó mest hjá einum bróðurnum og var hann sennilega sá þeirra sem gerði hvað mest til að breyta íslensku samfélagi.
Henderson 1918
Ingólfur Espolin situr á hjólinu.
Þetta hjól er nú á Mótorhjólsafninu á Akureyri (Uppgert
)
Faðir þeirra bræðra var Sigtryggur Jónsson trésmíðameistari. Hann var fæddur árið 1862. Sigtryggur stundaði trésmíðanám í Kaupmannahöfn áður en hann flutti að Espihóli þar sem hann bjó um 10 ára skeið. Hann færði sig um set til Akureyrar árið 1900 ásamt konu sinni Guðnýju Þorkelsdóttur og drengjunum.
Fjölskyldan flutti inn í nýtt og glæsilegt hús sem Sigtryggur hafði reist við Aðalstræti 16. Sigtryggur kom að byggingu margra húsa á Akureyri. Íbúðarhúsnæðið við Aðalstræti 16 sem og gamla skólahúsnæði Menntaskólans á Akureyri (1904) eru af mörgum álitin tvö hin glæsilegustu sem hann reisti.
Bræðurnir Espholin voru fæddir á 11 ára tímabili. Fjórir þeirra dóu langt fyrir aldur fram, ókvæntir og barnlausir. Elstur var Jón, fæddur 1889. Honum leiddist í skóla. Vélar og rafmagn áttu hug hans allan. Jón giftist danskri konu að nafni
Caroline. Þau áttu einn son, John Sigtrygg Espholin en hann var eina barnabarn þeirra Sigtryggs og Guðnýjar. Afkomendur bræðranna frá Espihóli eru því allir danskir. Jón lést í Kaupmannahöfn árið 1962. Næst kom fyrrnefndur Steingrímur. Honum var komið í fóstur á bænum Kollugerði í Glæsibæjarhreppi en Sigtryggur pabbi bræðranna átti jörðina. Steingrímur dó 32 ára. Hjalti var þriðji í röðinni. Hann var ekki síður uppátækjasamur en Jón auk þess sem hann hafði gaman af tónlist og spilaði m.a. á trompet. Hann dó 53 ára gamall. Næstyngstur var Þórhallur. Þórhallur lagði stund á tannlækningar í Kaupmannahöfn þegar spánska veikin dró hann til dauða. Hann var aðeins tvítugur að aldri. Yngstur var Ingólfur Gísli fæddur 1898.
Ætla má að athafnasemi og framkvæmdagleði Sigtryggs hafi erfst til bræðranna. Í það minnsta átti Ingólfur Gísli eftir að láta til sín taka í íslensku atvinnulífi svo um munaði. Hann átti eftir að koma mörgum ævintýralegum hugmyndum sínum í framkvæmd. Sem dæmi átti hann og bjó í einu sögufrægasta húsi landsins um tíma og sigldi um heimsins höf með heimsþekktu skemmtiferðaskipi. Ekki er ólíklegt að einhverjar af hugmyndum hans hafi skotið upp kollinum á uppvaxtarárunum í Aðalstræti. Ingólfur var tveggja ára þegar fjölskyldan flutti inn á hið nýja heimili við Aðalstræti 16. Þar ólst hann upp áður en hann flutti til Kaupmannahafnar árið 1915 til að læra verslun og viðskipti. Hann hafði reyndar búið í nokkra mánuði með móður sinni og bræðrum í Danmörku árið 1907. Tilgangur flutninganna þá var að koma elsta drengnum í tækninám. Jón lærði á kvöldin en vann á vélaverkstæði á daginn. Á meðan sá Guðný um heimilið. Fljótlega veiktist hún af mislingum sem að lokum drógu hana til dauða í desember sama ár. Guðný var aðeins 41 árs þegar hún dó. Þeir Þórhallur og Ingólfur fylgdu líki móður sinnar til Íslands en Jón varð eftir í Danmörku. Þar með lauk fyrri og jafnframt stuttri dvöl Ingólfs í Danmörku. Af Jóni er það að segja að hann kom til Íslands árið 1914 eftir sjö ára vélfræðinám í Danmörku og Þýskalandi. Árið 1921 giftist hann fyrrnefndri Caroline en hún vann við að smíða falskar tennur. Þau fóru af landi brott til Danmerkur árið 1927. Þar stofnaði Jón fyrirtæki sem m.a. framleiddi loftþjöppur.
Queen Elisabeth
Eftir þriggja ára dvöl í Kaupmannahöfn flutti Ingólfur aftur heim til Akureyrar haustið 1918. Næstu árin var hann mjög umsvifamikill og nýjungagjarn. Hann stofnaði ásamt bræðrum sínum fyrirtækið Espholin Co en það auglýsti m.a. flugvélar, dráttarvélar, vörubíla og annars konar bifreiðar til sölu auk mótorhjóla. Ingólfur stofnaði tunnuverksmiðju á Akureyri ásamt Hjalta bróður sínum árið 1920. Hann var frumkvöðull í íslenskum hraðfrystiiðnaði og fékk m.a. einkaleyfi á frystingu skyrs. Árið 1926 stofnuðu þeir Hjalti félag um byggingu og rekstur frystihúss í Reykjavík. Frystihúsið hóf rekstur árið 1930 og var það hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Óhætt er að segja að ævi Ingólfs Espholin hafi verið viðburðarík. Ekki einungis fór hann ótroðnar slóðir við vinnu heldur einnig í einkalífinu. Hann sigldi um Atlantshafið með hinu þekkta skemmtiferðaskipi Queen Elisabeth. Þá átti hann um tíma hið sögufræga hús Höfða í Reykjavík. Hann bjó í húsinu frá 1952 til 1962. Ingólfur Espholin bjó síðustu æviárin í Tjarnargötu 5 í Reykjavík og endaði ævina sem fátækur einstæðingur. Ingólfur dó árið 1973.

Fengið a vefnum http://grenndargral.is