Mótorhjólaheimurinn

27.9.18

Yamaha Niken-hjólið


 Yamaha Niken-hjólið hefur mikla sérstöðu með sín tvö hjól að framan.  Niken er mjög vel útbúið hjól, skemmtilegt og öruggt og alveg sér á parti.



Hjólið heitir Yamaha Niken og kom fyrst fram á sjónarsviðið á Tokyo Motorshow í fyrra. Nafnið er tilvísun í japanska bardagatækni með tveimur sverðum frá sextándu öld sem gjörbreytti bardögum í návígi, eitthvað svipað og Yamaha vonast til að þetta hjól geri fyrir akstur mótorhjóla. Við höfum séð þríhjól áður, meira að segja nokkur með tveimur hjólum að framan. Can-Am er með Spyder og Piaggio MP3, en hér sjáum við í fyrsta skipti alvöru mótorhjól sem hallar báðum framdekkjunum í gegnum beygjur.

 Prófun við verstu aðstæður

 Kynningin á Niken-hjólinu var í boði umboðsaðila Yamaha í Svíþjóð en þeir sjá um að þjónusta mestalla Skandinavíu. Bærinn sem ferðinni var heitið til nefnist Borås og er í nágrenni Gautaborgar. Veðrið fyrir ferðina hafði lofað mjög góðu enda sumarið í Svíþjóð besta hjólasumar í manna minnum. Því var þó ekki að heilsa þegar Íslendingarnir mættu á svæðið því þeir tóku íslenska sumarið með sér. Prófunardaginn var hitastigið aðeins um 12 gráður og það hellirigndi. Auk þess voru fræ og ber af trjánum að skapa talsverða hálku á köflum og segja má að þarna hafi skapast kjöraðstæður til að láta reyna virkilega á alla þætti Niken-hjólsins.
Útúrsnúningur á máltækinu „Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi“ átti þá vel við því að ekki veitti af helmingi meira gripi að framan á sleipum skógargötunum. Hjólið hallast mest 45 gráður sem er aðeins minna en hefðbundið mótorhjól getur ráðið við en tvöföld framfjöðrunin snýst ekki um það að ná fram meiri halla, heldur meira gripi. Óhætt er að segja að þrátt fyrir slæmar aðstæður fann maður aldrei fyrir að hjólið missti grip að framan. Öðru máli gegndi um afturendann sem rann oft til í beygjunum en þökk sé góðri spólvörn, þá kom það ekki að sök. Það er eitthvað sérstakt við að keyra mótorhjól með meira grip að framan en aftan.

Léttara í stýri en búist var við 

Vélin í Niken kemur úr Tracer 900 og er þriggja strokka og skilar 115 hestöflum við 10.000 snúninga. Athyglisvert er að bera saman tölur um Niken og Tracer 900 hjólið sem það byggir á. Sætishæð Niken er til dæmis 30 mm lægri en ökumaður situr aftar á Niken en sambærilegum mótorhjólum og hjálpar það til við að jafna þyngdardreifinguna. Þrátt fyrir minni feril á framfjöðrun er hjólhafið 10 mm lengra en það helgast af lengri afturgaffli. Síðast en ekki síst er Niken 48 kg þyngra en Tracer 900 og munar þar að sjálfsögðu mest um tvöfalda framfjöðrun, sem er stillanleg fyrir bæði þjöppu og bakslag og svo aukadekk. Einnig er meiri búnaður á Nikenhjólinu en meðal staðalbúnaðar er aksturstölva, spólvörn, skriðstillir og hraðskiptir.
Þar sem dekkin eru aðeins 15 tommur þurfti að láta útbúa sérstök dekk fyrir hjólið. Það er ekki að finna á hjólinu að það beri meiri þyngd en hefðbundið mótorhjól því það er mjög létt í akstri. Það kom undirrituðum talsvert á óvart að finna hversu létt það var í stýri, en fyrirfram hefði maður haldið að aukin þyngd að framan fyndist vel í stýrinu. Það er ekki nema þegar ekið er á gönguhraða og þar undir sem það verður erfiðara en mótorhjól með einu framdekki. Ef það ætti að finna eitthvert annað umkvörtunarefni hefði framrúðan mátt vera örlítið fyrirferðarmeiri til að veita meiri vindvörn.

Verður á Íslandi næsta vor 

Umboð Yamaha-mótorhjóla á Íslandi er hjá Arctic Trucks á Kletthálsi. Verðið á Niken samkvæmt verðlista á heimasíðu er 3.500.000 kr. sem er vel í lagt enda hjólið sérstakt og vel búið. Að sögn talsmanns Yamaha í Svíþjóð er hjólið staðsett efst í  virðingarstiganum hjá Yamaha sem þýðir í raun að það þarf að keppa við hjól af sama kaliberi frá öðrum framleiðendum. Vandamálið er bara að það er ekkert hjól sem keppir beint við Niken. Hjólið er algjörlega sér á parti og ef kaupandinn getur sætt sig við sérstakt útlit þess er hann með hjól í höndunum sem er í senn skemmtilegt og öruggt aksturshjól og þægilegt ferðahjól á malbiki.
Hvort við sjáum í náinni framtíð Adventure-útgáfu af þessu hjóli kemur líklega fljótlega í ljós. Til
Íslands kemur Niken snemma næsta vor og mun þá almenningi verða boðið til reynsluaksturs á hjólinu.
Fylgist því vel með.

27.09.2018
Morgunblaðið
mbl.is